Túlkun þingskapa

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:03:12 (3653)

1998-02-11 14:03:12# 122. lþ. 64.93 fundur 212#B túlkun þingskapa# (um fundarstjórn), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en þar sem nafn mitt bar hér á góma sé ég mig knúinn til þess. Ég tel út af fyrir sig ánægjulegt að þetta verkfall er að leysast. Auðvitað er það mjög ánægjulegt. Út af fyrir sig er ánægjulegt að það skyldi fyrst og fremst snúast út í umræður um þingsköp en ekki um það hvernig málum er komið.

Ef stjórnarandstaðan telur að henni sé að þakka í þessu máli er það ánægjulegt. Ríkisstjórnin telur líka að þetta sé henni að þakka og sjómennirnir telja að þetta sé þeim að þakka, þannig að mér heyrist að allir geti verið glaðir og sáttir.

Að því er varðar þingsköpin get ég rifjað það upp að þegar þetta ákvæði var sett á sínum tíma fór að sjálfsögðu fram umræða um það í þeirri nefnd sem þá starfaði. Þá var talið að rétt væri að setja þessa almennu reglu um tvo þriðju og að líða þyrftu tvær nætur. En í þeim umræðum, og ég hef vitnað til þess, kom einnig fram að ef ríkisstjórn á hverjum tíma kæmi inn í þingið með svo brýnt mál að hún teldi að það gæti ekki beðið þá væri óhugsandi að stjórnarandstaða kæmi í veg fyrir það. Það þótti svo sjálfsagt í þeirri umræðu sem þar fór fram (Gripið fram í: Til hvers er það þá?) að það mundi ekki þurfa að taka það fram. Ég er aðeins að rifja upp þá umræðu sem þar fór fram.

Það er ljóst að stjórnarandstaðan hefur rétt til að beita umræddu ákvæði. Hins vegar kom það mér og ýmsum öðrum á óvart að stjórnarandstaðan skyldi vilja beita því af slíkri hörku. Hver maður hlýtur að sjá að ef kalla þyrfti þingið saman að sumarlagi til þess að grípa til einhverra ráðstafana af brýnni nauðsyn, þá verðum við að gera ráð fyrir því að það taki eina viku. Það er ekki til þess að hvetja til þess að hætta við að nota ákvæði stjórnarskrárinnar um bráðabirgðalög. Og ef núverandi stjórnarandstaða vill vinna að því að menn hætti að beita bráðabirgðalögum þá hefur núverandi stjórnarandstaða staðfest það að hún vill það ekki. Það er hvað alvarlegast í þessu máli. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og hélt að allir þingmenn væru þeirrar skoðunar, að við ættum að draga verulega úr beitingu bráðabirgðalaga. Núverandi stjórnarandstaða hefur með þessu framferði sínu lagt áherslu á að það skuli ekki gert. Það er alvarlegt.