Túlkun þingskapa

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:12:40 (3658)

1998-02-11 14:12:40# 122. lþ. 64.93 fundur 212#B túlkun þingskapa# (um fundarstjórn), SighB (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er verið að bera á þingmenn sakir þegar fullyrt er að þeir misnoti atkvæði sitt á Alþingi. Umræða um slíkt á að fara fram undir slíkum dagskrárlið. Það er verið að bera á okkur þær sakir að við misnotum atkvæði okkar á Alþingi til þess að koma í veg fyrir að vilji þingsins nái fram að ganga. Það sem hæstv. utanrrh. sagði er mjög einkennandi fyrir þessa umræðu. Hann sagði: Þessi ákvæði voru ekki sett inn --- hann sagði eitthvað á þá leið --- til þess að stjórnarandstaðan gæti nýtt sér stöðu sína.

Nei, það er alveg rétt. Þessi ákvæði voru sett í lög árið 1991 til þess að auka veg Alþingis Íslendinga sem stofnunar. Þetta var til þess að styrkja stöðu Alþingis. Ég hef farið yfir allar umræður frá árinu 1991 um frumvarpið sem þá var lagt fram, virðulegi forseti. Þær yfirlýsingar sem komið hafa fram frá hæstv. utanrrh. og fleirum, komu aldrei fram í þeirri umræðu.

Það var alveg ljóst hvað var verið að gera þar. Það var verið að tryggja það að almennar þingræðislegar reglur um meðferð mála hér á Alþingi skyldu ná fram að ganga. Það var gert með tvennum hætti. Í fyrsta lagi að lengja frest frá framlagningu frumvarps til 1. umr. úr einni nótt í tvær. Í öðru lagi að setja sama ákvæði um afbrigði varðandi stjórnarfrv. og þingmannafrv., þ.e. að tveir þriðju þingmanna þyrftu að samþykkja afbrigðilega meðferð frumvarps til þess að sú meðferð yrði heimiluð. Þetta var ekki gert fyrir stjórnarandstöðuna. Þetta var ekki gert fyrir hv. þm. sem þá var, Halldór Ásgrímsson, eða hv. þm. Pál Pétursson sem stóðu að þessum tillögum. Þetta var gert til þess að styrkja þingræði á Íslandi og koma í veg fyrir að ríkisstjórn gæti tekið mál til afbrigðilegrar meðferðar á Alþingi með einföldum meiri hluta, með meiri hluta kannski eins þingmanns. Það hefur oft gerst, virðulegi forseti, að stjórnarandstaða hafi greitt atkvæði á móti slíkri málsmeðferð en það bara dugði ekki til fram á árið 1991. Þá þurfti ekki nema eins þingmanns meiri hluta til að knýja afbrigðilega meðferð málsins í gegn. Og þingmenn úr öllum þingflokkum voru sammála um að það bæri að setja skorður við þessu, ekki út frá hagsmunum stjórnarandstöðu heldur út frá hagsmunum Alþingis sem löggjafarstofnunar. Og ég skil ekki þær yfirlýsingar sem koma nú frá þeim mönnum á Alþingi sem annaðhvort fluttu tillögurnar um þetta eins og hv. þm. Geir H. Haarde (Forseti hringir.) eða mæltu fyrir þeim og báðu um samþykki fyrir þeim eins og hv. þáv. þm. Halldór Ásgrímsson og hv. þáv. þm. Páll Pétursson. (Forseti hringir.) Ég skil ekki framkomu þeirra manna nú.