Atvinnuleysi kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:28:51 (3664)

1998-02-11 14:28:51# 122. lþ. 64.2 fundur 411. mál: #A atvinnuleysi kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig gert mitt besta til þess að svara þessum fyrirspurnum samviskusamlega og naut til þess góðrar aðstoðar Gunnars Sigurðssonar, deildarstjóra á Vinnumálastofnun, og fyrir það er ég honum þakklátur. Hitt er svo annað mál að ég kann ekki skýringar við öllu sem ég kann að vera spurður um.

Það er alveg hárrétt að breytt tækni á þarna verulegan hlut. Mér er minnisstætt tilsvar sem ég fékk þegar ég kom í rækjuvinnslu á Blönduósi fyrir nokkrum árum. Þar var mér sagt að búið væri að panta kvennabana. Mér varð nokkuð um því að ég vissi að þarna mundu átta eða tíu konur missa störfin sín og fór að finna að þessu við framkvæmdastjórann. Þá spurði hann: ,,Ertu ekki hættur að slá með ljá á Höllustöðum?`` Ég varð að viðurkenna að ég var hættur að slá með ljá en þetta kemur niður á kvennastörfum.

Í Norðurl. v. er tiltölulega mikill hluti atvinnuþátttöku kvenna í fiskvinnslu. Þróunin hefur orðið sú hvort sem manni líkar betur eða ver að í rækjunni hefur verið aukin vélvæðing og mikil tækni. Síðan hefur þróunin orðið sú í frystingunni að hún hefur færst út á sjó í stórauknum mæli og miklu færri konur í kjördæminu fá vinnu við fiskvinnslu en var fyrir nokkrum árum síðan. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að vinna að fjölbreyttari úrræðum við að skapa kvennastörf, bæði á Norðurl. v. og eins víðar um land. Ég kem að því vonandi í svörum við öðrum fyrirspurnum sem hér eru á dagskránni.