Langtímaatvinnuleysi

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:32:57 (3666)

1998-02-11 14:32:57# 122. lþ. 64.3 fundur 410. mál: #A langtímaatvinnuleysi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það gildir það sama um þetta svar og það síðasta að hafa ber í huga þegar atvinnuleysistölur eru athugaðar að a.m.k. fjórðungur þeirra kvenna sem eru skráðar atvinnulausar er í hlutastörfum. Ég hef hins vegar ekki greiningu á því hvort það sama gildi um langtímaatvinnuleysið og skammtímaatvinnuleysið.

Atvinnuástandið hélt áfram að versna á tímabilinu 1992 til 1995. Á þessu tímabili fjölgar þeim sem hafa verið atvinnulausir meira en sex mánuði, úr 865 í 1.962 miðað við meðaltal þeirra sem eru skráðir atvinnulausir í lok febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Frá því atvinnuástandið fór að batna á árinu 1996 hefur ekki dregið úr þessu langtímaatvinnuleysi í heild, en árið 1996 eru þeir samtals 1.957 og 1.974 á árinu 1997. Hins vegar hefur það minnkað hjá körlum en aukist hjá konum.

Helsta skýring á þessari þróun er sú að langtímaatvinnulausir hafa tilhneigingu til að fá síðastir vinnu þegar betur árar í þjóðfélaginu. Þeir sitja eftir á atvinnuleysisskrá. Hreyfanleiki þessa hóps til að taka vinnu þar sem vinnu er að fá, eins og t.d. í fiskivinnslu úti á landi og við verklegar framkvæmdir, virðist mjög takmarkaður. En veiting atvinnuleyfa hefur farið mjög vaxandi á árunum 1996 og 1997 og nú er svo komið að yfir þúsund erlendar konur eru með atvinnuleyfi hjá félmrn. og þar fyrir utan eru allar þær konur sem hér vinna og eru búsettar á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að það kann að vera að hér séu að störfum um 2.000 erlendar konur.

Önnur skýring er sú að með hagræðingu í fyrirtækjum að undanförnu hafa kröfur um menntun og hæfni vinnuafls aukist. Reynslan sýnir einnig að eldra fólk á erfiðara með að fá vinnu eftir langtímaatvinnuleysi, sérstaklega þegar breytingar verða miklar á kröfum til verkþekkingar og verkkunnáttu.

Átaksverkefni sveitarfélaga hafa farið minnkandi frá árinu 1994 bæði vegna fjárhagsstöðu sveitarfélaga og aukinnar eftirspurnar á almennum vinnumarkaði og einnig var að átaksverkefnin gáfu ekki nægilega góða raun. Farsælla var að eyða peningunum í að skapa varanleg störf. En átaksverkefnin höfðu það hins vegar í för með sér að hægt var að draga úr því að fólk lenti í langtímaatvinnuleysi.

Langtímaatvinnuleysi eftir aldri er mest í aldurshópunum 30--39 ára. Næststærsti hópurinn er 60--69 ára. Það er einkennandi að langtímaatvinnuleysi hjá konum er langmest í hópnum sem er 30--39 ára en aftur hjá körlunum þegar þeir eru komnir yfir sextugt, eins og ég. Hafa ber í huga að langtímaatvinnuleysi hefur minnkað í lok tímabilsins í yngstu aldurshópunum og það er þó ánægjulegt.

Svar við spurningu tvö: Þeir sem eru búnir að vera atvinnulausir eitt ár eða lengur voru 922 árið 1996, 981 árið 1997. Karlarnir voru 122 árið 1992 en 346 árið 1997. Konurnar voru 133 árið 1992 en 635 árið 1997. Konurnar eru sem sagt, eins og ég sagði áðan, flestar í aldurshópnum 30--39 ára, en karlar í aldurshópnum 60--69 ára, eða 125. Aðrar tölur eru miklu lægri en að framan greinir.

Þriðja spurningin var hvort ráðherra teldi ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða vegna langtímaatvinnuleysis. Ég tel ástæðu til þess og það erum við að reyna að gera. Með gildistöku nýrra laga um vinnumarkaðsaðgerðir hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp þjónustu fyrir atvinnulausa með opnun svæðisvinnumiðlana. Þær eiga að gera starfsleitaráætlun með atvinnulausum, þeim sem hafa verið atvinnulausir í tíu vikur, og þaðan af er fólki raunverulega borgað fyrir að leita sér að vinnu. Þessi starfsemi er að fara í gang. Það er líklegt að margir langtímaatvinnulausir (Forseti hringir.) þarfnist sértækra úrræða til að geta tekið vinnu á almennum vinnumarkaði og þessi úrræði þurfa að miðast við þarfir hvers og eins.

Ég gæti svarað þessu í miklu lengra máli og þyrfti raunar að gera það en kemst ekki lengra í bili vegna tímatakmarkana.