Málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:12:14 (3678)

1998-02-11 15:12:14# 122. lþ. 64.6 fundur 413. mál: #A málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv., Ástu B. Þorsteinsdóttur, fyrir undirtektir við þetta mál og þakka einnig hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir prýðileg svör hennar sem ég er fullkomlega sáttur við, miðað við aðstæður. Ég tel að aðalatriðið sé að leita eftir samvinnu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og síðan Vesturhlíðarskólans. Miðað við það sem hæstv. ráðherra lýsti virðist málið því í grófum dráttum á sínum stað.

Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga það sem hv. 15. þm. Reykv. benti á, að málið snýst ekki aðeins um lagaramma og góðan vilja ráðherranna heldur og kannski ekki síst fjárveitingarnar. Það er sá vandi sem Heyrnar- og talmeinastöðin hefur oft og tíðum staðið frammi fyrir.

Ég tel mikilvægt að þessi umræða hafi farið hér fram, svör ráðherra hafi verið mikilvæg. Ég er sannfærður um að á næsta þingi, ef ástæða verður til, verður fróðlegt að inna ráðherra eftir því hvernig þeim verkum vindur fram sem hún hefur þegar sett af stað eða hafa verið í undirbúningi hjá ráðuneytinu.