Bygging tónlistarhúss

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:27:40 (3683)

1998-02-11 15:27:40# 122. lþ. 64.8 fundur 431. mál: #A bygging tónlistarhúss# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef um árabil verið mikil áhugakona um byggingu tónlistarhúss eins og reyndar þúsundir annarra landsmanna og þykir mér ganga afar hægt í því mikla menningarmáli.

Í júní sl. sendi hæstv. menntmrh. frá sér fréttatilkynningu þar sem hann greindi frá því að nefnd sem hafði málið til skoðunar hefði skilað af sér og lagt fram ákveðnar tillögur. Hæstv. menntmrh. lagði ákveðnar tillögur fyrir ríkisstjórnina sem samþykkti að fengið yrði sérfræðilegt mat á kostum og göllum þeirra þriggja hugmynda sem fyrrnefnd nefnd lagði fram og skyldi athugað hvernig mætti standa að fjármögnun og rekstrarskilyrðum og voru ýmsir aðilar nefndir í því samhengi. Nú beini ég þeim spurningum til hæstv. menntmrh. hvað líður framkvæmd þessarar samþykktar ríkisstjórnarinnar, og ég spyr:

1. Hefur farið fram sérfræðilegt mat á þeim tillögum sem nefnd undir forustu Stefáns P. Eggertssonar lagði fram vorið 1997 um byggingu tónlistarhúss, samanber samþykkt ríkisstjórnarinnar þar um? Ef svo er, hver er niðurstaða þess?

2. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um byggingu tónlistarhúss, hvað varðar ákvörðun um byggingu þess, fjármögnun og staðsetningu?