Ólympískir hnefaleikar

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:37:13 (3688)

1998-02-11 15:37:13# 122. lþ. 64.9 fundur 433. mál: #A ólympískir hnefaleikar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í menntmrn. hefur verið unnið að þeirri gagnaöflun sem getið var um í áliti menntmn. og hv. þm. og fyrirspyrjandi nefndi. Hjá ráðuneytinu liggja fyrir lög og reglur alþjóðasambands áhugamanna í hnefaleikum og Íþróttasamband Íslands hefur undir höndum keppnisreglur ólympískra hnefaleika þannig að þessi gögn liggja fyrir.

Erfitt hefur reynst að afla nákvæmra upplýsinga um slysatíðni í ólympískum hnefaleikum en þess er að vænta, m.a. með aðstoð Læknafélags Íslands, að á næstunni hafi menn aflað sér þeirra upplýsinga um þau mál sem gefa a.m.k. vísbendingu. En að fá þetta þannig að algilt sé og fullnægjandi miðað við að allar upplýsingar liggi fyrir kann að reynast mjög erfitt. Enska læknafélagið hefur hins vegar gefið út upplýsingar um þetta og hægt er að fá aðgang að þeim en víðar kann að reynast erfitt að fá þessar upplýsingar svo að viðunandi sé miðað við orðalagið í áliti menntmn.

Menntmrn. óskaði eftir því við nefnd um eflingu íþróttastarfs sem starfaði á liðnu ári á grundvelli þál. sem samþykkt var á hinu háa Alþingi í maí sl., að hún fjallaði m.a. um hvort það bæri að heimila ólympíska hnefaleika hér á landi. Nefndin treysti sér ekki til að taka sjálf afstöðu til málsins og taldi eðlilegt að Íþróttasamband Íslands, íþróttanefnd ríkisins og læknastéttin fjölluðu um málið. Raunar er það svo eftir að Íþróttasamband Íslands og Ólympíunefnd Íslands eru orðin að einu sambandi, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, þá virðist það vera hinn rétti vettvangur til þess að fjalla um þetta mál og komast að niðurstöðu því að hér er um það að ræða að ákveða hvort Íslendingar taki þátt í þessu sem ólympískri íþróttagrein. Þar er nú orðinn einn vettvangur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem virðist kjörinn til þess að menn fjalli um þetta og komist að niðurstöðu um það hvort gerðar verði tillögur um að þetta bann verði fellt úr gildi.

Ég vil minna á að þegar þessi lög voru samþykkt á Alþingi árið 1956 lá þingmannafrv. þar til grundvallar. Meðal annars var annar flutningsmaður læknir þannig að þingmenn hafa látið þetta mál mjög til sín taka og höfðu frumkvæði að því á sínum tíma að þetta var fest í lög.

Lögin eru frá 1956 og þá höfðu menn ekki sjónvarpssendingar eða internetið í huga þegar ákveðið var að leggja bann við sýningum, enda tel ég að orðið ,,sýningar`` í þessum skilningi laganna beri að vísa til þess að menn séu að sýna hnefaleika hér á landi á til þess gerðum palli eða við þær aðstæður sem menn stunda hnefaleika, en að ekki sé um það að ræða hvort hnefaleikar séu sýndir í kvikmyndum, í sjónvarpi eða á internetinu. Ég skil lögin þannig að ekki sé verið að leggja bann við því að sýna hnefaleika í þeim miðlum heldur að sýna þá þannig að menn takist á innan hnefaleikahringsins hér á landi. Þetta er minn skilningur en hann kann að vera rangur því að lokum eru það dómstólarnir sem kveða upp úr um það hvað felst í þessu orðalagi laganna.