Ólympískir hnefaleikar

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:41:06 (3689)

1998-02-11 15:41:06# 122. lþ. 64.9 fundur 433. mál: #A ólympískir hnefaleikar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör. Mér finnst eðlilegt að menn geri athugasemd við að ein íþróttagrein sé bönnuð með lögum, sérstaklega þegar lögin eru túlkuð þannig að þau nái yfir aðra íþróttagrein sem reyndar var ekki til þegar lögin voru sett og um er að ræða íþróttagrein sem viðurkennd er sem ólympísk íþróttagrein.

Mér finnst það mjög óeðlilegt og bera vott um litla þekkingu á málum og jafnvel fordóma að gripið er til þeirrar túlkunar sem ég gat um gagnvart þessari grein sem fyrirspurnin lýtur að.

Ég bendi á að iðkaðar eru hérlendis og erlendis margar íþróttagreinar þar sem um er að ræða meiðsl og jafnvel alvarleg meiðsl. Sú íþróttagrein sem hvað mest slys eru í og jafnvel hvað alvarlegust slys, er vinsælasta íþróttagreinin hérlendis og víða erlendis, þ.e. knattspyrna, þannig að ef beitt væri þeim mælikvarða að fjöldi slysa og alvarlegir áverkar í greininni ættu að leiða til þess að hún væri bönnuð, þá væri knattspyrna sú grein sem væri efst á lista yfir þær íþróttagreinar sem ætti að banna.

Ég vil, herra forseti, fagna þeim skilningi sem hæstv. menntmrh. kvað upp úr með af sinni hálfu varðandi skilning á ákvæðum laganna um bann við sýningum. Ég tel þann skilning ráðherrans eðlilegan að vísa til þeirra aðstæðna sem voru þegar lögin voru sett og að lögin nái til banns á þeim sýningum sem þá tíðkuðust en ekki þeim sem tækniframfarir síðan hafa gert mögulegar.