Afturköllun frumvarps um stöðvun verkfalla á fiskiskipaflotanum

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:47:19 (3691)

1998-02-11 15:47:19# 122. lþ. 65.94 fundur 214#B afturköllun frumvarps um stöðvun verkfalla á fiskiskipaflotanum# (tilkynning ráðherra), SvG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[15:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hæstv. sjútvrh. að fagna þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Það munaði vissulega litlu, herra forseti, að gönuhlaup ríkisstjórnarinnar yrði til þess að eyðileggja möguleikana á að samningar tækjust í þessari alvarlegu kjaradeilu. En niðurstaðan sem nú liggur fyrir bendir til þess að niðurstaðan sem fékkst á mánudaginn var, þar sem stjórnarandstaðan stöðvaði framgang frv., hafi í raun leyst málið, skapað svigrúm til að sjómenn og aðilar deilunnar gætu tekið á því með eðlilegum hætti. Það er fagnaðarefni fyrir Alþingi og fyrir alla aðila þessa máls og ég tek undir þau orð hæstv. sjútvrh.

Ég tel líka ástæðu til að ítreka í tilefni af þessum tíðindum og því sem fram fór hér fyrr í dag að stjórnarandstaðan var í sínum fulla rétti. Stjórnarandstaðan misbeitti ekki valdi að neinu leyti í þessu máli. Hún hafði sinn fulla rétt samkvæmt þingsköpum sem eru lög landsins. Við stjórnarandstöðuþingmenn mótmæltum ásökunum um það í umræðum um þessi mál í dag, að við hefðum misbeitt valdi okkar, og á fundi hjá hæstv. forseta fyrr í dag ítrekuðum við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar þau mótmæli og hæstv. forseti Alþingis ákvað að fara yfir þau mál sérstaklega og kvaðst mundu tilkynna mat sitt á stöðunni væntanlega í upphafi fundar á morgun. Það er mjög mikilvægt að þannig hefur verið komið til móts við þau sjónarmið sem við settum hér fram. Þetta vil ég láta koma fram um leið og ég fagna því að gönuhlaup ríkisstjórnarinnar varð ekki til þess að þjóðin yrði fyrir stórfelldu tjóni af þeirri vinnudeilu sem hefur staðið yfir.