1998-02-11 15:50:54# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Heimsbyggðin hefur fylgst með því undanfarna daga og vikur hvernig Bandaríkjamenn hafa hert á áróðursstríði sínu gegn Írak. Þeir hafa dregið ógrynni liðs saman á Persaflóa og bandarískir ráðamenn hafa farið eins og þeytispjöld um heiminn til að afla liðsmanna í þessar fyrirhuguðu árásir á Írak. Ekki þarf ýkja frjótt hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að hin aukna harka Bandaríkjamanna undir forustu forsetans standi í samhengi við vandræði hans heima fyrir. Vel heppnað sjónvarpsstríð sem CNN og allar hinar stöðvarnar sæju um að koma inn í stofur vítt og breitt um heiminn mundi auðvitað draga athyglina frá öllum fíflaganginum í kringum meint kvennafar forsetans.

Liðssafnaðurinn hefur gengið fremur illa og lengi vel voru það einungis Bretar sem fylgdu hinum stríðsáköfu Bandaríkjamönnum að málum. Nú hafa að vísu nokkrar aðrar þjóðir verið að láta undan þrýstingi enda ekkert til sparað.

Mjög hörð andstaða er á hinn bóginn við þessar fyrirhuguðu árásir. Mörg Arabaríki sem studdu aðgerðirnar gegn Írak í kjölfar innrásarinnar í Kúveit hafa nú algerlega neitað stuðningi þrátt fyrir þrýsting og hótanir frá Bandaríkjamönnum. Rússland, Kína, Frakkland og fleiri stórþjóðir hafa sömuleiðis mismunandi ákveðið komið andstöðu sinni á framfæri.

Andstaðan við þessar fyrirhuguðu árásir nú ofan í allar þjáningarnar sem almenningur í Írak hefur þolað undir sjö ára viðskiptabanni byggir m.a. á þessu:

Í fyrsta lagi orkar það mjög tvímælis að hægt sé að túlka ályktanir Sameinuðu þjóðanna eða öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þannig að í þeim felist að Bandaríkjamenn eða nokkrir aðrir þess vegna hafi rétt til að gera einhliða árás á Írak út af ágreiningi um vopnaeftirlit. Staðan er að þessu leyti gerólík því sem var í Flóabardaga. Aðgerðin verði því hrein og klár árás, ófriðaraðgerð og ofbeldisaðgerð og þar með margfalt brot á alþjóðalögum.

Í öðru lagi er óhugsandi annað en að óbreyttir borgarar verði fórnarlömb í stórum stíl. Þannig er talið að 150 þúsund óbreyttir borgarar hafi fallið í loftárásunum sem tengdust Flóabardaga.

Engar líkur eru á því í þriðja lagi nú frekar en í Flóabardaga að Saddam Hussein verði steypt af stóli, enda ekki yfirlýstur tilgangur aðgerðanna að sögn Bandaríkjamanna. Þvert á móti eru líkur til að aðgerðin auki enn á hatur almennings í Írak á Vesturlöndum og Bandaríkjamönnum sem Hussein hefur nýst vel til að viðhalda ógnarstjórn sinni.

Í fjórða lagi munu tilraunir til að leysa deiluna um vopnaeftirlitið með friðsamlegum hætti og slaka í kjölfarið á viðskiptabanninu til að lina þjáningar og koma í veg fyrir áframhaldandi dauða barna og almennings í Írak fara út um þúfur. Þær tilraunir verða sprengdar í tætlur ef árásir hefjast.

Það kom því, herra forseti, eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson bauð Bandaríkjamönnum stuðning óumbeðið nú í hádegisfréttunum. Þannig gerðist hæstv. ráðherra í raun og veru fyrsti sjálfboðaliðinn í þessari stuðningsmannasveit fyrirhugaðra hernaðaraðgerða sem vitað er um í heiminum.

Hæstv. ráðherra sagði í viðtali við fréttamenn m.a.: ,,En ef hann [Saddam Hussein] fer ekki að tilmælum Sameinuðu þjóðanna þá tel ég að nauðsynlegt sé að íhuga það vandlega þegar þar að kemur hvort ekki verði að fylgja því fram með öðrum hætti og þá með þeim hætti sem Bandaríkjamenn eru að leita til.``

Halldór Ásgrímsson segir að ekki hafi borist sérstakar beiðnir frá Bandaríkjunum vegna aukinnar flugumferðar um Keflavíkurflugvöll vegna hugsanlegra átaka við Persaflóa --- eða svo vitnað sé beint: ,,Það hefur engin beiðni borist. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að ef til þess kemur þá þurfum við að vera viðbúnir slíku eins og var í Flóabardaga á sínum tíma þannig að við erum viðbúnir því að slík beiðni berist.``

Fréttamaður spyr: ,,Og verður henni svarað jákvætt?``

Halldór Ásgrímsson svarar: ,,Það er að mínu mati ekkert annað að gera en að taka því jákvætt.``

Manni verður auðvitað, herra forseti, einnig hugsað til hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar og herstyrksins sem hann hugðist koma á fót. En sá her er víst ekki kominn til sögunnar og verður ekki boðinn fram að þessu sinni.

Ég mótmæli því, herra forseti, að Ísland verði dregið inn í þennan vitfirrta stríðsleik Bandaríkjamanna. Ég fer fram á að hæstv. utanrrh. lýsi andstöðu við þessi áform af Íslands hálfu. Ég spyr: Er það virkilega mótuð stefna af Íslands hálfu að styðja loftárásir á Írak e.t.v. á næstu sólarhringum sem geta kostað þúsundir óbreyttra borgara lífið? Hefur verið gerð ríkisstjórnarsamþykkt í því sambandi? Hefur utanrmn. Alþingis verið höfð með í ráðum eða verður það gert?