1998-02-11 15:56:13# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[15:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er sjálfsögðu von okkar allra að friðsamleg lausn fáist á þeirri deilu sem stendur yfir. Margir koma að því og vinna þar mjög gott starf. Það er gert á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er gert tvíhliða gagnvart Írak, bæði hafa Rússar komið þar að og Frakkar. Það er algjört lykilatriði í þessu máli að Saddam Hussein veiti eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna óheftan aðgang að byggingum í Írak. Án þess að það sé gert er ekki um neina lausn að ræða. Það liggja því miður fyrir staðfestar upplýsingar um að til séu 25 eldflaugaoddar sem eru fullir af antraxbakteríum. Og Írakar höfðu fullyrt að þeir hefðu eyðilagt þessa eldflaugaodda í kjölfar Persaflóastríðsins.

Þegar eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna báðu Íraka um að sýna eyðileggingarvottorð eða þann stað þar sem eyðilegging þessara odda hefði farið fram gátu þeir hvorki né vildu orðið við slíkri beiðni.

Jafnframt er annað dæmi um framleiðslu efnavopna í vökvakenndu formi. Írakar héldu því fyrst fram að þeir hefðu ekki framleitt slík vopn. Síðan breyttu þeir því og sögðust aðeins hafa framleitt um sex þúsund lítra af þessum eiturvökva en það liggur fyrir full vitneskja um að magnið sé ekki undir 200 þúsund lítrum. Þetta vandamál er dæmigert fyrir það hvernig eftirlitsverkið hefur gengið. Og það er ekki hægt að líða að Saddam Hussein komist upp með að brjóta það sem hann hefur undirgengist áður í þessu sambandi. Það eru því miður engar líkur á því að hann muni gera það nema fyrir þann þrýsting sem hann er nú beittur bæði af Bandaríkjamönnum og öðrum, því miður. Hann má ekki komast upp með það að virða að vettugi kröfur um eftirlit. Hann hefur sýnt það að hann getur framleitt og er tilbúinn til að beita ógnarvopnum. Og það gerir hann jafnvel gegn eigin borgurum, fyrir utan annað framferði sem hann viðhefur gagnvart þeim.

Að mínu mati er valdbeiting síðasta úrræðið sem hægt er að hafa í frammi í þessu máli. En hann verður að skilja að hér er um raunverulega hótun að ræða og þetta mál verður að leysa. Það er sjálfsögðu Saddam Hussein sem hefur valdið varðandi það hvaða úrræði verði beitt.

Eins og ég sagði í hádegisfréttum þá hafa ekki komið fram formleg tilmæli um að hér fari umferð í gegn vegna hugsanlegra átaka, enda hefur engin slík ákvörðun verið tekin. En það er rétt að við erum viðbúnir slíkri beiðni og það er mat mitt að ef slík beiðni kemur, þá eigum við að taka hana til umfjöllunar með jákvæðum hætti. En ég vona svo sannarlega að til þess komi ekki því ég vænti þess að Saddam Hussein láti undan þrýstingi heimsbyggðarinnar. Það eru ekki aðeins Bandaríkjamenn sem vilja stöðva þennan mann, það er öll heimsbyggðin því hann ógnar heimsöryggi. Og það er nauðsynlegt að þessi maður skilji hlutina eins og þeir eru fram settir. Ég hef ekki trú á því, samkvæmt þeirri reynslu sem heimsbyggðin hefur af glæpum hans, að hann skilji neitt annað en alvöruna. En við verðum að vænta þess og vona að hann láti undan áður en til einhvers slíks kemur.