1998-02-11 16:00:38# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:00]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Vissulega eru alvarlegir hlutir að gerast við Persaflóa og eins og áður hefur komið fram í umræðum á Alþingi er vandinn enn á ný einræðisherrann og hinn miskunnarlausi harðstjóri sem ræður ríkjum í Írak og stjórn hans. Málið er ekki tvíhliða deila milli Íraks og Bandaríkjanna ef einhver skyldi halda það. Málið er deila milli Íraks og Sameinuðu þjóðanna, þ.e. Íraks og alþjóðasamfélagsins í heild sinni. Enginn ráðamaður, hvorki á Vesturlöndum né annars staðar, hefur neinn sérstakan áhuga á því að ráðast á Írak að tilefnislausu. Menn eru ekki að hugsa sér til landvinninga á þeim slóðum. Hins vegar er það svo að stjórnin í Írak liggur undir þeim rökstudda grun að hafa komið sér upp gríðarlegu magni af stórhættulegum sýklavopnum og efnavopnum og lá um tíma undir grun um að vera að koma sér upp kjarnorkuvopnum sem menn telja reyndar að ekki sé lengur hætta á. Stjórnin í Írak hefur gengist undir skuldbindingar gagnvart Sameinuðu þjóðunum um að Sameinuðu þjóðirnar megi leita af sér allan grun í þessu efni. Við þær skuldbindingar hefur hún ekki staðið og vopnaeftirlitsnefndin undir forustu Ástralíumannsins Butlers fær ekki að vinna sitt verk eins og ætlast er til. Þetta er vandamálið í hnotskurn, þetta er vandinn sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Á að taka áhættuna á því að einræðisherrann í Írak byrji að kasta vopnum sínum og sprengjum og noti eldflaugar sínar á nágrannaríki sín, til að mynda á Ísrael eða önnur Arabaríki þar í nágrenninu sem hafa verið honum andsnúin eða á að grípa í taumana fyrir fram? Á að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann eða ekki? Um það snýst málið. Íslendingar verða að standa með hinu alþjóðlega samfélagi sem við erum hluti af, í þessu máli, og ekkert annað kemur til greina að mínum dómi.