1998-02-11 16:02:58# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:02]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel brýnt að þetta mál sé rætt á hinu háa Alþingi en tenging Íslands við hugsanleg hernaðarleg átök er mikið alvörumál. Af svörum hæstv. ráðherra mátti dæma að hann byggist jafnvel við að sérstök ósk kæmi um flugumferð um Keflavíkurflugvöll og þá yrði því svarað jákvætt.

Í fyrsta lagi ítreka ég þá spurningu sem var borin fram hvort málið hafi verið rætt í utanrmn. Einnig tek ég fram að þetta er ekki alveg sambærilegt mál og aðdragandinn að Flóabardaga þar sem mun fleiri þjóðir voru aðilar að. Ég vildi gjarnan að upplýst væri hvort jákvætt svar, ef slík beiðni bærist, væri á grundvelli varnarsamningsins eða á grundvelli aðildar okkar að NATO sem svör yrðu gefin í þeim efnum. En afstaða okkar Íslendinga gagnvart Írak og deilunum við Persaflóa markast fyrst og fremst af afstöðu Sameinuðu þjóðanna. Að sjálfsögðu styðjum við ályktanir og stefnu Sameinuðu þjóðanna, þar með talinn þrýsting þeirra sem hefur komið fram í afstöðu Kofi Annans aðalritara og Bandaríkjanna við að framfylgja samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þar ber vitaskuld hæst að staðið verði við ákvæði sem lúta að vopnaeftirliti. Þar hafa Írakar alls ekki staðið við skuldbindingar sínar. Slíkt er algjörlega ólíðandi og ber að styðja aukinn þrýsting á því sviði. Vitaskuld kemur til álita að létta á viðskiptabanninu í áföngum, eins og m.a. Kofi Annan hefur lagt til enda áhrif þess á saklaust fólk óbærileg. Þetta hangir allt saman og við jafnaðarmenn vonumst til að friðsamleg lausn finnist á málinu en ekki má leika nokkur vafi á því að við ásamt öðrum þjóðum erum reiðubúin til að knýja á um að lögmætar samþykktir Sameinuðu þjóðanna nái fram að ganga. Við verðum hins vegar, herra forseti, að ræða markvisst afstöðu og þátttöku Íslendinga í málinu, ekki aðeins á hinu háa Alþingi heldur einnig innan utanrmn.