1998-02-11 16:05:16# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:05]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það þurfti að segja mér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hæstv. utanrrh. væri farinn að bjóða að fyrra bragði fram hernaðaraðstöðu hér á landi vegna yfirvofandi árásar á Írak. Það fer ekki milli mála þegar skoðuð eru orð hans í útvarpsfréttum í dag að þar er ekki um venjuleg viðbrögð að ræða heldur ótímabært frumkvæði. Hvaða nauðsyn bar til þessa frumkvæðis? Er hæstv. ráðherra einhver sérstakur áhugamaður um þátttöku Íslendinga í slíkum hernaðarátökum sem eru hugsanlega fram undan? Því miður má segja að þetta, ég vil segja frumhlaup hæstv. ráðherra, sé í stíl við það sem þjóðin hefur orðið vitni að á þeim langa tíma sem hún hefur mátt þola erlenda hersetu í landinu.

Það er einu sinni svo að þrátt fyrir mikinn ágreining og átök um hersetuna var þó framan af hægt að skilja röksemdir þeirra sem vilja fyrir alla muni hafa samskipti við Bandaríkjamenn í þessu efni og alltaf var því haldið á lofti að um tímabundna aðgerð væri að ræða. En eftir gagngerar breytingar á heimsmyndinni og aðstæðum öllum hefur talsmönnum hersetunnar gengið æ verr að rökstyðja nauðsyn hennar og augljóst að þar ráða fyrst og fremst efnahagslegir hagsmunir. Þannig hafa íslenskir ráðamenn sótt fast við bandaríska ráðamenn að þeir dragi ekki úr starfsemi á Keflavíkurflugvelli eins og þeir hafa viljað gera. Frumhlaup hæstv. utanrrh. gæti bent til þess að hann sé á vissan hátt að grípa þetta tækifæri, svo geðfellt sem það er, til að reyna að sannfæra bandaríska ráðamenn um nauðsyn áframhaldandi hersetu og hernaðarumsvifa á Keflavíkurflugvelli. Herra forseti. Ég harma það og mótmæli því að Íslendingar taki þátt í þessum hildarleik eins og allt bendir til ef marka má ótímabær orð hæstv. utanrrh.