1998-02-11 16:07:26# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Tilefni umræðunnar eru ummæli hæstv. utanrrh. um notkun á Keflavíkurflugvelli ef til hernaðarátaka Bandaríkjanna gegn Írak kemur. Ummæli ráðherrans gefa til kynna að ef sóst verður eftir heimild til að nota flugvöllinn sem þjónustuflugvöll vegna hernaðaraðgerða sé ekkert annað að gera en svara því jákvætt. Íslendingar styðja stefnu Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit og vonandi kemst það friðsamlega á. Hótanir Bandaríkjamanna um hernaðaríhlutun eru mjög umdeildar í nágrannalöndum okkar, bæði innan og utan NATO. Nú spyr ég hæstv. utanrrh. hvort ég skildi hann rétt áðan að hann og íslenska ríkisstjórnin séu sammála stefnu Bandaríkjamanna um nauðsyn á hernaðarárás ef friðsamlegu vopnaeftirliti verður ekki komið við eins og Sameinuðu þjóðirnar óska.

Vegna orða Geirs H. Haardes áðan um eðli deilunnar vil ég enn fremur spyrja hæstv. utanrrh. Það er skilningur minn að það séu Bandaríkjamenn sem eru að boða hernaðaraðgerðir en ekki Sameinuðu þjóðirnar og ekki NATO og því vil ég spyrja hvort utanrrh. sé sammála því og þá hvort þess vegna sé ekki mögulegt að neita því að Keflavíkurflugvöllur verði notaður í þessu skyni þótt við séum í NATO eða hvort vera okkar í NATO takmarkar möguleika íslensku ríkisstjórnarinnar til sjálfstæðrar afstöðu í málinu. Árás á Írak mun bitna á saklausum borgurum og því ber að leysa þessa deilu sem aðrar á friðsamlegan hátt án hernaðarátaka. Að nota Keflavíkurflugvöll sem hernaðarflugvöll skapar hættuástand sem ber að forðast með öllu.