1998-02-11 16:09:38# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Mjög margar spurningar koma upp þegar hæstv. utanrrh. Íslands gefur yfirlýsingar af því tagi sem komu fram í fjölmiðlum í hádeginu. Það er m.a. spurningin: Hefur hæstv. utanrrh. fullvissu fyrir því að sú hernaðaratlaga sem ráðgerð er af hálfu Bandaríkjanna hafi stuðning öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og um leið hinna Sameinuðu þjóða? Er hæstv. utanrrh. viss um að sú árás sem er í undirbúningi sé undirbúin eða yrði framkvæmd með skýru umboði Sameinuðu þjóðanna? Ég held að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, sé í miklum vafa um að hægt sé að teygja samþykktir sem tengdust Flóabardaga og því tímabili yfir á þær aðstæður sem nú ríkja. Þetta eru lykilspurningar í sambandi við frumhlaup hæstv. utanrrh. sem er ekki hægt að kalla annað. Ef það er svo að hæstv. utanrmn. hafi ekki einu sinni fjallað um málið áður en hæstv. ráðherra gefur yfirlýsingarnar finnst mér að hæstv. ráðherra sé kominn á ansi tæpt vað.

Við lesum í málgögnum, í virtum blöðum Vestur-Evrópu, miklar og sterkar efasemdir við þær aðgerðir sem eru nú í undirbúningi. Þar eru bæði dregin fram almenn pólitísk rök en einnig hernaðarleg rök um leiðangra af þessum toga og hættuna á því að ef illa færi og árásarskeyti hittu t.d. meint sýklavopn og annað þess háttar til hvers það myndi leiða. (Forseti hringir.) Og staða Butlers, þess sem fer fyrir samninganefndinni, hefur verið gagnrýnd mjög mikið og framganga hans eins og yfirlýsingar um það að hætta sé á því að Tel Aviv yrði hugsanlega þurrkuð út af hálfu Íraks. Slík atriði ætti hæstv. utanrrh. að gaumgæfa áður en hann gefur yfirlýsingar af því tagi sem við höfum rætt í dag.