1998-02-11 16:16:24# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Menn hafa haldið því fram að skilin milli flokka hafi minnkað á undanförnum árum. Þó er athyglisvert að Alþb. virðist vera algerlega einangrað í umræðunni, í þeim gamla tíma sem þeir standa fyrir í þessari umræðu. Það vekur vissulega pólitíska athygli.

Hér er því haldið fram að hæstv. utanrrh. hafi aðspurður sýnt frumhlaup með varfærnislegum yfirlýsingum sínum í útvarpi í dag. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Jafnvel er látið þannig í veðri vaka að þessar agaráðstafanir gagnvart Saddam Hussein hangi alfarið á afstöðu Íslands og íslenska utanrrh. Það er jafnvel gefið í skyn að árásir þær sem hugsanlega þurfa að fylgja sem liður í að halda þessum einræðisherra til aga eigi að fara fram héðan. Menn eru aðeins að tala um að umferð um Keflavíkurflugvöll geti aukist vegna uppbyggingar og umsvifa til að tryggja að þessum manni sé sýnt hver afstaða þjóða heimsins er til hans.

Það er gefið til kynna að hæstv. utanrrh. hafi hvað fyrstur manna gefið slík svör. Portúgalar hafa þegar gefið yfirlýsingar varðandi Azor-eyjar. Spánn hefur gefið yfirlýsingar. Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, hefur þegar gefið yfirlýsingar, ekki bara um að liðsflutningar geti átt sér stað um flugvelli í Þýskalandi, heldur að árásir á Írak megi fara fram þaðan. Það að gefa hér í skyn að hæstv. utanrrh. sé með flumbrugang og fari á undan öllum öðrum er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Hæstv. utanrrh. hefur tekið fullkomlega eðlilega á þessu máli í alla staði.