1998-02-11 16:18:12# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka svörin skv. venju, en ég hlýt um leið að lýsa yfir bæði furðu og vonbrigðum með það hvernig hæstv. ráðherrar og hv. formaður utanrmn. tala hér. Að heyra þá tala eins og hauka og nota sömu rök og Bandaríkjamenn hafa notað undanfarna daga til að réttlæta hugsanlegan dauða þúsunda eða tugþúsunda óbreyttra borgara í þessum árásum er með ólíkindum.

Það er rangt sem haldið er fram um að hér sé um alþjóðaaðgerðir að þar sem Íslandi beri skylda til að axla nokkra ábyrgð. Við gætum að sjálfsögðu tekið til þessari deilu nú og stöðunni í henni með sjálfstæðri afstöðu eins og t.d. NATO-ríkið Frakkland. Hér er auðvitað ekkert annað á ferðinni en venjubundinn aftaníossagangur við Bandaríkjamenn.

Þegar Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var spurð að því hvernig Bandaríkjamenn hygðust að alþjóðalögum réttlæta hugsanlegan dauða þúsunda eða tugþúsunda óbreyttra borgara í væntanlegum loftárásum m.a. á Bagdad, þá svaraði ráðherrann að sjálfsögðu: ,,Það verður þá Saddam Hussein að kenna.`` Þannig var endir hennar ræðu. Hér eru hafðar uppi sambærilegar réttlætingar. Það er ömurlegt, herra forseti. Ég mótmæli því að Ísland sé dregið inn í þennan vitfirrta stríðsleik. Ég skammast mín fyrir það, herra forseti, að íslenskir ráðamenn skuli ekki hafa haft manndóm í sér til að hverfa frá stuðningi við viðskiptabannið. Þannig bera íslenskir ráðamenn, fyrir hönd þjóðarinnar, ábyrgð á harmleiknum í Írak. Það er ömurlegt að vita til að meira en ein og hálf milljón manna skuli fallin í þessum harmleik. Enn tala menn eins og þessar sjö ára hörmungar hafi ekkert kennt þeim. Enn þá ömurlegra verður það ef aukið verður á hörmungar almennings í Írak með þeim vitfirrtu árásum sem nú eru fyrirhugaðar.