1998-02-11 16:20:30# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér hafa komið fram margar spurningar sem ég get því miður ekki svarað á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að enda við að segja að við hefðum ekki átt að standa að viðskiptabanninu. Hann sagði að við hefðum átt að draga okkur út úr því og brjóta þar með gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins. Er þingmaðurinn að halda því fram að við eigum að segja okkur úr Sameinuðu þjóðunum eða hvað? (SJS: Nei.)

Við höfum skyldur gagnvart Sameinuðu þjóðunum og við getum ekki dregið okkur einhliða út úr viðskiptabanninu. Það er ekkert hægt að hlusta á það daglega hér á Alþingi að við getum dregið okkur einhliða út úr þessu viðskiptabanni. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, Alþb., hafa verið að halda því fram. (SJS: Nei.) Það er algerlega rangt. Nú segir hv. þm. nei. (SJS: Að beita sér fyrir því að...) Hann er að beita sér fyrir því. Það er dálítið annað og ekki það sem hv. þm. sagði hér áðan.

Það liggur fyrir að Ísland verður ekki dregið inn í þessar hernaðaraðgerðir vegna þess að Ísland hefur engan her. Í mesta lagi yrði leyft, ef til þess kemur sem við skulum vona að verði ekki, að einhverjir flutningar gætu farið hér um, m.a. til að tryggja öryggi þeirra sem taka þátt í þessu. Það skiptir líka máli, því þar er um bandamenn okkar að ræða. Við verðum líka að huga að öryggi þeirra sem þrátt fyrir allt eru að reyna að tryggja heimsfriðinn.

Ég ítreka að ég vona að til þessa komi ekki og ég er sannfærður um að Saddam Hussein lætur ekki undan í þessu sambandi nema hann horfi framan í alvöruna. Ég spyr þá þingmenn sem deila á okkur fyrir þá afstöðu sem við höfum tekið: Hvernig vilja þeir leysa þetta mál? Hafa þeir trú á því að þau vopn sem þeir vilja beita muni duga?