Atkvæðagreiðsla um afbrigði og túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:31:47 (3705)

1998-02-12 10:31:47# 122. lþ. 66.92 fundur 217#B atkvæðagreiðsla um afbrigði og túlkun þingskapa#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:31]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti taka þetta fram:

Í umræðum um fundarstjórn forseta á fyrra fundi Alþingis í gær óskaði hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, eftir því að forseti kvæði upp úr um það, eins og það var orðað, hvort stjórnarandstaðan hefði misbeitt þingskapa\-ákvæðum sl. mánudag þegar greidd voru atkvæði um afbrigði um stjfrv. Þingmaðurinn vísaði þar til orða hv. 4. þm. Reykv. Geirs H. Haardes. Síðar í þessum umræðum skýrði hv. þm. Geir H. Haarde ummæli sín svo að um hefði verið að ræða pólitíska misbeitingu og tók jafnframt fram að hann hefði engar athugasemdir við úrskurð forseta um atkvæðagreiðsluna sl. mánudag. Þar hefði formlega verið rétt að öllu staðið er lýst var úrslitum atkvæðagreiðslunnar.

Eins og skýrt er tekið fram í fræðiritum um stjórnskipan Íslands sker forseti úr ágreiningi um skilning á þingsköpum og úrskurðir hans eru fullnaðarúrskurðir. Þessu úrskurðarvaldi beitir forseti aðeins um réttan skilning á þingsköpunum, þ.e. til þess að leysa úr fyrirliggjandi ágreiningi eða álitamáli. Beiðni hv. 4. þm. Norðurl. e. lýtur ekki að því að úrskurða um réttan skilning á þingsköpum heldur um réttmæti orða annars þingmanns. Úrskurð um slíkt telur forseti sér ekki fært að kveða upp né heldur heppilegt að hann blandi sér á þann veg í pólitísk átök stjórnar og stjórnarandstöðu. Atkvæðagreiðslan fór fram samkvæmt ákvæðum þingskapa og ekki hafa verið gerðar formlegar athugasemdir við hana. Þess vegna er ekki ástæða til frekari afskipta forseta af málinu.