Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:41:18 (3711)

1998-02-12 10:41:18# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), GHH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:41]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég tel að yfirlýsing forseta í upphafi fundar staðfesti í einu og öllu það sem ég hef haldið fram. Ég hef aldrei haldið því fram að formreglur hafi verið brotnar í atkvæðagreiðslu sl. mánudag. En ég hef leyft mér að hafa þá pólitísku skoðun að stjórnarandstaðan hafi misbeitt valdi sínu pólitískt. Það hefur ekkert með formreglurnar að gera og það er algerlega staðfest af hálfu hæstv. forseta. Reyndar er það óskiljanlegt að pólitískt kjörnir þingmenn megi ekki lýsa skoðunum sínum án þess að menn fari að spyrja forseta hvort það sé í góðu lagi. Yfirlýsing forseta tekur af öll tvímæli í þessu efni og ég þakka fyrir hana. Síðan geta menn ef þeir vilja haldið áfram að karpa um það hvort mín skoðun í þessu máli sé rétt eða ekki. Það er tilgangslaust stagl ef menn vilja halda því áfram.

Að því er varðar ummæli hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, vegna ræðu utanrrh. í gær vil ég benda á að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa ekki verið sett ein einustu bráðabirgðalög, aldrei. Og það er áreiðanlega einsdæmi í þingsögu síðustu áratuga að liðið hafi þrjú ár af starfstímabili ríkisstjórnar án þess að sett væru bráðabirgðalög, þannig að ég held að menn ættu ekki að magna upp einhvern draug í því sambandi. Það hafa ekki verið sett bráðabirgðalög á Íslandi síðan hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sat í ríkisstjórn. Það er bara staðreynd.

Ég ætla ekki að elta ólar við ummæli hans um breytingarnar á þingsköpunum 1991. Ég stóð að þeim málum ásamt fleirum. Ég er satt að segja heldur hróðugur yfir því hvernig þær breytingar sem samist hefur um frá 1991 hafa í heild sinni tekist. Ég er ánægður með störf mín á þeim (Forseti hringir.) vettvangi og minna kollega og ég vænti þess að við getum haldið áfram að bæta þingstörfin. En það þýðir samt ekki að menn eigi að neita staðreyndum og það er staðreynd að það hefur aldrei áður gerst að meinað hafi verið um að stjfrv. kæmi til umræðu eins og gerðist sl. mánudag í skjóli þeirra ákvæða sem menn hafa verið að ræða.