Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:44:05 (3712)

1998-02-12 10:44:05# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:44]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er enginn vafi á því, alla vega ekki í mínum huga, að farið var að lögum sl. mánudag þegar stjórnarandstaðan nýtti sér þann rétt sem hún hefur samkvæmt lagatextanum að heimila ekki afbrigði miðað við þann þingstyrk sem hún hefur á þingi þótt hann sé ekki sérstaklega sterkur.

Mig langar aðeins að rifja það upp, hæstv. forseti, þó svo þessari umræðu megi gjarnan fara að ljúka mín vegna, að það sem verið var að biðja um var raunar ekki annað en það að fá að taka málið til 1. umr. Ég vil minna á að í nágrannaríkjum okkar, þar sem við leitum oft ráða þegar við erum að setja lög hér, er ekki einu sinni vaninn að mál komi til 1. umr. heldur fari fyrst til nefndar til umfjöllunar. Þess vegna er þetta enn þá sérkennilegri afstaða sem stjórnarandstaðan tók á mánudaginn. En ég vil halda því fram að sú framkoma og sú nýting stjórnarandstöðunnar á þingsköpum út í ystu æsar verði til þess að setja þingsköpin í nýtt ljós. Auðvitað er enginn að hóta því að hér verði beitt bráðabirgðalögum. En það er ekki hægt að neita því þegar maður sér það fyrir sér að annars vegar sé um að ræða eða geti verið um að ræða að setja bráðabirgðalög og hins vegar að kalla þing saman til viku skrafs og ráðagerða og umræðu, er komin upp önnur staða sem ríkisstjórn stendur frammi fyrir en áður. Í þessum orðum mínum felast engar hótanir. Ég er bara að vekja athygli á þessu og ég held að það séu margir hv. þingmenn sem hafa kannski ekki áttað sig á því fyrr en núna hvað það er í raun mikil breyting sem var gerð á lögum um þingsköp.