Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:53:04 (3716)

1998-02-12 10:53:04# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:53]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Atburðir síðustu daga hafa verið mjög fróðlegir og lærdómsríkir að mínu mati. Hér hafa stór orð verið látin falla svo sem gerist stundum þegar reiðin tekur völdin eins og ljóst var af hegðun ýmissa stjórnarliða. En ira furor brevis est eins og latneski málshátturinn segir sem rétt er að hafa í huga og vonandi --- ég segi vonandi --- hafa þessir atburðir og orðaskak ekki alvarleg eftirköst. Það alvarlegasta sem gerst gæti væri ef lýðræðisleg þingsköp yrðu þrengd þannig að meiri hlutinn gæti ævinlega haft sitt fram í krafti stærðar.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir hans þátt og tök á málinu. Ég vil segja að við kvennalistakonur erum fúsar til þess að endurskoða og taka fullan þátt í endurskoðun þingskapalaga og gera þau þannig úr garði að þingstörf geti gengið vel og eðlilega og greiðlega. En ég mun ekki samþykkja neinar breytingar sem leiða kunna til þess að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hverju sinni geti vaðið yfir minni hlutann að geðþótta. Það er lýðræði í þessu landi og lýðræðislegar leikreglur eiga að gilda. Ég vona að þessi atburður verði ekki til þess að ákvæðum um bráðabirgðalög verði beitt í auknum mæli. Það eru ákvæði sem á aðeins að beita í ýtrustu nauðsyn.