Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:08:01 (3720)

1998-02-12 11:08:01# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að láta í ljós að mér þótti slæmt að geta ekki hlýtt á fyrri hluta ræðu hv. þm. Ég vissi reyndar ekki, þegar ég fór úr húsi hér í fyrradag, að þessi tillaga kæmi á dagskrá og hafði ekki verið beðinn sérstaklega um að vera hér til að fylgjast með þessu tiltekna þingmáli. Ég mun þó hafa sagt skrifstofu þingsins að ég mundi reyna að vera við þennan dag en umræða um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum tók lengri tíma en ég hugði. Ég ræddi hins vegar við hv. 13. þm. Reykv., sem hafði beðið mig persónulega að vera viðlátinn mál sem var á dagskránni frá henni. Ég sagði henni að ég gæti ekki verið hérna nema til fimm, því klukkan fimm var afhjúpuð brjóstmynd af fyrrv. forseta lýðveldisins, Vigdísi Finnbogadóttur. Ríkisstjórninni bar að sjálfsögðu að vera þar og í kjölfarið á þeirri athöfn var boðaður ríkisstjórnarfundur. Ég missti sem sagt af fyrri hluta ræðu hv. þm. og þykir það leiðinlegt. Ég reyni að sinna þeirri skyldu sem ég tel mig hafa sem þingmaður, að vera ekki fjarri þegar þingfundir standa og sérstaklega þeir þingfundir sem fara inn á svið ráðuneytis míns.

Ég er ekki kominn til að lýsa stuðningi við þessa tillögu. En þetta er viðfangsefni sem sjálfsagt er að hafa í umræðu og að skoða vandlega og hjálpast að við að bæta úr. Atvinnuleysi er ekki eðlilegt ástand. Atvinnuleysi er óeðlilegt ástand og ég lít svo á að það hljóti að vera hið mesta þjóðfélagsböl. Það er þó sérstaklega böl fyrir þá einstaklinga sem í atvinnuleysinu lenda. Það hlýtur að vera ömurlegt líf að hafa ekki lífsfyllingu af starfi og ótrúlegt ef einhver kýs sér að búa við atvinnuleysi. Sem betur fer erum við nú á því skeiði að atvinnuleysi hefur farið verulega minnkandi.

Á útmánuðum 1995, áður en núv. ríkisstjórn tók til starfa, var atvinnuleysið rétt undir 7%. Nú er það í kringum 3%. Það er mjög góður árangur og honum ber að fagna. Reyndar er rétt að hafa það ávallt í huga þegar við tölum um þessar atvinnuleysistölur að í kringum 20% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir eru á hlutabótum. Þeir hafa starf hluta úr degi en launin ná ekki upphæð atvinnuleysisbóta og þar af leiðandi hafa viðkomandi rétt á því að fá viðbót úr atvinnuleysistryggingunum. Nýjustu tölur um atvinnuleysið í janúar sem venjulega er einn versti mánuður ársins liggja ekki alveg fyrir. Bráðabirgðatölur sem ég fékk í morgun á Vinnumálaskrifstofu benda til að atvinnuleysið í janúar hafi verið rétt um 4%. Mannaflatölur eru ekki alveg frágengnar þannig að þetta getur munað einu eða broti úr prósentu til eða frá. Væntanlega verður það í kringum 4% en í janúar í fyrra var það 5,1%. Það er út af fyrir sig mikið fagnaðarefni. Ég kveið því að atvinnuleysistölurnar yrðu hærri í janúar en þær reynast, þar sem sjómannaverkfall var yfirvofandi í janúar og fiskvinnslufyrirtæki sem segja fólki venjulega í kringum jólin, og það fer þá á atvinnuleysisskrá um miðjan desember, voru ekki öll búin að kalla fólk til starfa aftur af ótta við hráefnisskort.

Það eru sem sagt horfur á því að atvinnuleysi meðal karla hafi verið 2,8% í janúar en 5,5% hjá konum. Í janúar í fyrra var það hins vegar 6,7% hjá konum en 3,9% hjá körlum. Þetta tel ég mikið fagnaðarefni og við hljótum öll að vera ánægð með það. Allt er þetta á réttri leið þó að tölurnar séu ennþá allt of háar. Við þurfum að gera betur til að hjálpa fólki við að finna vinnu.

Reyndar er rétt að hafa í huga að það er mikill vinnuaflsskortur í landinu. Í félmrn. verðum við í sífellt auknum mæli að veita útlendingum utan Evrópska efnahagssvæðisins atvinnuleyfi og á síðasta ári veittum við um 1.600 leyfi fyrir útlendinga til að koma hér til vinnu. Við höfum ekki nákvæma tölu um hve margir eru hér að störfum af Evrópsku efnhagssvæði. Þó er ekki ólíklegt að það sé álíka hópur og sá sem hefur atvinnuleyfi.

[11:15]

Konur eru meira en helmingur af þeim útlendingum sem við veittum atvinnuleyfi í fyrra, talsvert aukinn meiri hluti eins og menn ræða í þinginu nú á síðustu og verstu tímum. Það gæti verið að hér væru um 2.000 erlendar konur að störfum í landinu.

Vandinn er sá að það er eins og einhver hópur af því fólki sem er skráð atvinnulaust vilji ekki taka vinnu sem er í boði. Nú eru það ekki allt saman láglaunastörf og er fjarri því að það séu allt saman störf einhvers staðar úti á landsbyggðinni því að um fjórðungur af atvinnuleyfunum fer til Reykjavíkur eða á höfuðborgarsvæðið.

Hér er drepið á nokkur atriði í þáltill. sem mig langar til að fjalla nokkuð um en ég sé að tíminn er að verða búinn þannig að ég verð að geyma það til betri tíma, herra forseti, en vænti þess að fá tækifæri til þess að segja nokkur orð á eftir.