Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:17:26 (3737)

1998-02-12 12:17:26# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar ég kom næstsíðast í ræðustól taldi ég að þingsköpin væru ágæt. Ég kom ekki öllu því frá mér í síðustu ræðu minni sem ég ætlaði að segja og ég er ekki viss um nema við höfum farið aðeins of langt í tímatakmörkunum í umræðum um þingsályktunartillögur.

Mig langar að nefna nokkur atriði um tillöguna. Varðandi fyrsta liðinn í tillögugreininni um mannréttindin þá unnum við að því 1994 að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og gerðum okkar besta í því efni og ég held að við búum við góðan mannréttindakafla í stjórnarskránni. Það er líka talað um hvernig unnt sé að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en sex mánuði í senn. Það er ákaflega mikilvægt atriði í tillögunni og verið er að vinna að því með starfsleitaráætlunum sem eru í nýlega settum lögum um vinnumarkaðsaðgerðir að svæðisvinnumiðlun beri að gera starfsleitaráætlun með þeim sem hefur verið 10 vikur samfellt á atvinnuleysisskrá. Þar undir fellur hugsanlega líka endurmenntun og ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði til að endurhæfa fólk og koma því út á vinnumarkaðinn aftur.

Um vangavelturnar hvort líta megi á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur vil ég segja að ég lít svo á að þetta sé út af fyrir sig umræða sem getur orðið nokkuð flókin. Við köllum þetta atvinnuleysisbætur og það er í málvitund okkar, atvinnuleysislaun þætti mér vera nokkuð skothent. Ég lít svo á að atvinnuleysisbætur séu öryggisnet fyrir fólk sem missir vinnuna eða fær ekki vinnu, fyrir fólk sem missir vinnuna og er að leita sér að vinnu. Hins vegar eru hugsanlega einhverjir á bótum sem ættu að hafa annars konar aðstoð frá samfélaginu. Við höfum örorkubætur, við höfum bætur almannatrygginga, við höfum félagsþjónustu sveitarfélaga og mér finnst eðlilegt að einskorða bætur atvinnuleysistrygginga við það fólk sem er tilbúið að taka vinnu og er að leita sér að vinnu. Ekki fólk sem getur ekki unnið. Að sjálfsögðu á að sjá um það með öðrum hætti. Samfélagið á að koma til móts við það en mér finnst ekki eðlilegt að það sé á atvinnuleysisbótum og nýtt fyrirkomulag á ekki að nota til að knýja fólk til vinnu, sem það á erfitt með að sinna eins og segir í tillögugreininni. Það verður ekki praxísinn meðan ég ræð að knýja fólk til vinnu sem það getur ekki sinnt og ég lít á atvinnuleysisbæturnar að þær eiga að vera fyrir vinnufært fólk.

Ég held að ekki hafi farið fram nægilega vönduð úttekt á reynslunni af miðstöðvum fólks í atvinnuleit. Ég veit að reynslan hefur verið ákaflega góð á Akureyri en ég er ekki sannfærður um að jafn vel heppnuð starfsemi hafi farið fram í Reykjavík. Síðan er spurt hvort unnt sé að draga verulega úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir eins og hv. frsm. kom réttilega inn á. Sums staðar hefur gefist illa að skipta vinnunni. Ég þekki til sjávarútvegsfyrirtækis þar sem stunduð er vaktavinna og þar voru vaktirnar styttar niður í sex tíma til að ná meiri afköstum út úr hverjum einstaklingi en sex tíma laun dugðu ekki til að ná atvinnuleysisbótaupphæðinni þannig að starfsfólkið þar er líka á atvinnuleysisskrá. Ég lít á þetta með nokkurri tortryggni og held við eigum að fara varlega í því að feta okkur langt inn á þessa braut.

Hvort unnt sé að ná víðtæku samkomulagi að afnema atvinnuleysi á tilteknu árabili til að tryggja það í lögum eða stjórnarskrá að allir eigi vinnu við hæfi sýnist mér vera hálfgerð útópía. Ég finn ekki alveg hvernig hægt væri að höndla þetta verkefni. En nóg um það.

Ég hef farið yfir efnisatriði tillögunnar. Varðandi það sem komið hefur fram í umræðunum hef ég ekki tíma til að drepa nema á fátt eitt. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði um að glósað hafi verið um fólk sem nenni ekki að vinna. Ég veit ekki hvort við eigum að nota það orðalag en reynslan mun vera sú að sumt af því fólki sem hefur verið atvinnulaust á afar erfitt með að semja sig að venjulegum háttum aftur, t.d. því að vakna á morgnana og mæta í vinnu. Reynslan er sú að það virðist vera töluvert átak og einn af fræðimönnum á þessu sviði orðaði það svoleiðis í útvarpi á síðastliðnu sumri að þetta fólk væri næturþjóðin því það væri farið að snúa sólarhringnum við. Unglingar sem væru atvinnulausir vektu á nóttunni og svæfu á daginn og skriðu á lappir á kvöldin. Það er erfitt fyrir fólk að komast á rétt skrið en það þarf að hjálpa því. Ég legg mjög mikla áherslu á að við eigum að beina okkur að námskeiðahaldi og starfsþjálfun eftir því sem við höfum mögulega tækifæri til og ég hef átt mjög gott samstarf t.d. við Sókn um námskeiðahald sem hefur gefið góða raun. Við eigum samstarf við Reykjavíkurborg um rekstur vinnuklúbba sem hafa gefið mjög góða raun og við erum að fara í vinnu með bæði Sókn og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur um greiningu á atvinnuleysi félagsmanna í þessum viðkomandi félögum. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Enn glymur klukkan mér og hefði ég þó haft löngun til að segja meira í umræðunni. Hv. flm. sagði að ekkert hefði verið gert til að mæta auknu atvinnuleysi, þ.e. hugsanlegu auknu atvinnuleysi. (Forseti hringir.) Ég vil bera á móti því.

Herra forseti. Ég er að hætta. Við höfum breytt löggjöfinni, bætt úrræðin, erum að fjölga störfunum um 13 þús. til aldamóta og ég vil láta það verða lokaorð mín að þegar við erum að meðhöndla þessi mál eigum við að reyna að taka vel á móti einstaklingunum og hafa hagsmuni þeirra í fyrirrúmi.