Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:31:41 (3740)

1998-02-12 12:31:41# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., Flm. SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:31]

Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Síðasta atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi er einmitt mjög mikilvægt vegna þess að þá slitnar ekki réttarsambandið á milli launamannsins og fyrirtækisins. Það er í rauninni það sem ég er að nokkru leyti að lýsa eftir, þ.e. að þetta réttarsamband rofni ekki jafnalgerlega og nú er gert samkvæmt gildandi lögum um rétt fyrirtækja til uppsagna. Við erum því farin að ræða úr þessum ræðustól um slík mál í einstökum mjög mikilvægum tæknilegum atriðum. Mér finnst það í rauninni sýna að réttlætanlegt er að setja nefnd í málið, annaðhvort á vegum Alþingis eða ríkisstjórnarinnar. Mér finnst hugmynd hæstv. ráðherra um að félmn. fari og heimsæki Vinnumálastofnunina, vera góð hugmynd, og ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til að verða samferða í þá för vegna þess að ég held að skynsamlegt sé að Alþingi og alþingismenn taki saman á þessu máli og ég held að það sé hægt. Við höfum nefnt nokkur atriði sem geta vel verið góður samnefnari fyrir breytingar í þessum efnum.

Það kom mér ánægjulega á óvart, herra forseti, að hæstv. félmrh. skuli loksins hafa séð að lögin um atvinnuleysistryggingar eru ekki fullkomin. Það hefur hann ekki viðurkennt fyrr.