Rannsókn á atvinnuleysi kvenna

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:51:54 (3745)

1998-02-12 12:51:54# 122. lþ. 66.2 fundur 250. mál: #A rannsókn á atvinnuleysi kvenna# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:51]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það blasir nokkuð við að sultur er tekinn að sverfa að þingmönnum sem skilar sér í fámenni í þingsal og kannski þykir þeim líka að nóg sé komið af orðum í orðabelg um atvinnuleysið því ekki einasta hefur atvinnuleysið verið á dagskrá í dag heldur var það líka á dagskrá í umræðum um fyrirspurnir í gær.

Herra forseti. Ég er meðflytjandi tillögunnar og þarf því ekki að hafa mörg orð um hana né rökstyðja nauðsyn þess að hún nái fram að ganga. Ég vil aðeins ítreka þá nauðsyn og ekki síst með tilliti til þeirra hugmynda sem eru í gangi um þetta efni. Ég hef áhyggjur af þessum hugmyndum. Það hefur vakið furðu mína og áhyggjur hvernig hver étur upp eftir öðrum, t.d. í einkasamtölum eða litlum hópum, að atvinnuleysi meðal kvenna sé ekki raunverulegt, a.m.k. ekki jafnraunverulegt og hjá körlum og að konur leiki á kerfið í miklum mæli, þær misnoti kerfið. Ótrúlega margir halda þessu fram eins og algildum sannleika.

Vissulega er ekkert kerfi þannig úr garði gert að ekki finnist á því glufur og því miður eru alltaf einhverjir tilbúnir til að nýta þær glufur og vega þar með hugsanlega að rétti annarra. En að konur séu sérstaklega sekar í þessu efni er aldeilis fráleitt að mínum dómi og byggist jafnvel á fordómum. Auðvitað er mismunur launa og atvinnuleysisbóta ekki hvetjandi fyrir láglaunafólk eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns og eins og við vitum þá eru konur fjölmennar í hópi láglaunastéttanna. Þar að auki þarf fólk oft að mæta verulegum kostnaði vegna vinnu, svo sem vegna barnagæslu, ferða á vinnustað, kostnaði vegna hlífðarfatnaðar og annars, að ekki sé farið út í flóknari hluti eins og millifærslu persónuafsláttar en það lagaákvæði hefur haft ákveðnar hliðarverkanir sem ekki er haft mjög hátt um. Það kemur að vísu ekki beint inn á þetta mál því að fólk sem er heimavinnandi nýtir ekki persónuafsláttinn til fulls heldur kemur hann í hlut makans og er yfirleitt ekki á atvinnuleysiskrá. En ég þekki dæmi þess að konur hafi orðið fastar inni á heimilum sínum vegna þess að þær hafa orðið að hætta að vinna tímabundið af einhverjum orsökum og síðan ekki notið stuðnings maka við að fara aftur út á vinnumarkaðinn vegna þess að það hefur þótt borga sig frekar að nýta persónuafsláttinn en að fara og vinna fyrir einhverjum launum sem eru kannski ekki há.

En nóg um það. Það er staðreynd að samdráttur í atvinnulífi bitnar alltaf og alls staðar fyrst og fremst á konum, einnig oft illa á ungu fólki og eldra fólki. Það eru sem sagt rétt eina ferðina enn karlar á góðum og viðurkenndum aldri sem hafa sterkustu stöðuna og þessar fullyrðingar styðjast við raunveruleikann. Það væri kannski fróðlegt að snúa þeirri hugsun við, sem kemur fram í þeirri tillögu sem hér er til umræðu, og leita svara við því hvers vegna karlar á viðurkenndum aldri hafa svo sterka stöðu í atvinnulífinu sem reyndar annars staðar.

Auðvitað vitum við svarið, það snýst fyrst og fremst um hugarfar og hefðir og einnig þeir þættir ráða miklu þegar reynt er að skyggnast á bak við þær staðreyndir sem ráða atvinnuleysi kvenna. Þar ráða áreiðanlega að stórum hluta hefðir og hugarfar eins og hv. 1. flm. kom einmitt inn á í sambandi við starfsval og aðra slíka þætti. Að vísu er óvíst að það komi skýrt fram í niðurstöðum þeirrar nefndar sem falið verður að kanna orsakir atvinnuleysis kvenna samkvæmt tillögu okkar en þar munu koma fram upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að átta sig á þessu mynstri og hvað hægt er að gera til þess að breyta því og bæta úr. Það er margt hægt að gera og er raunar bent á ýmislegt í greinargerðinni sem hægt er að gera ef vilji er fyrir hendi. Við höfum ýmsar hugmyndir og nánast vissu fyrir því hvaða ástæður búa að baki en það er með þetta eins og t.d. með launamun kynjanna að konur þurfa fótfestu í baráttunni fyrir skilningi og bættum hag. Við munum mætavel að það munaði heldur betur um þá könnun sem birt var í upphafi árs 1995 um launamisrétti kynjanna. Sú könnun sagði okkur í raun og veru ekki annað en við vissum en kerfið heimtar skjalfestar sannanir og staðreyndir og þá eigum við að láta kerfið hafa skjalfestar staðreyndir. En það er ekki nóg að þekkja staðreyndirnar, það þarf að taka á óréttlætinu. Staðreyndirnar koma fyrst, herra forseti, og þess vegna á Alþingi að samþykkja þessa tillögu og tillöguna sem var áðan á dagskrá. Íslenskt samfélag má ekki yppta öxlum gagnvart atvinnuleysi, það á að leita orsaka og ráðast að vandanum.