Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 13:43:46 (3748)

1998-02-12 13:43:46# 122. lþ. 66.3 fundur 251. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég stend hér til að lýsa sérstökum stuðningi við þessa tillögu. Okkur vantar samræmdar reglur í þessu efni. Við höfum reglur Norðurlandaráðs og af þeim er góð reynsla. Að mínu mati er ástæða til að útvíkka þær yfir á aðrar alþjóðastofnanir og önnur svið. Það getur verið erfitt að sjá hvar við eigum að stoppa með kjörin trúnaðarstörf en ég held að í þessu máli sé úrbóta þörf og sjálfsagt að vinna að því.

Þetta er öðrum þræði málefni fjmrn., finnst mér, en þetta er líka mál sem mér finnst vera vinnuréttarlegs eðlis og að því leyti tel ég að mér sem félmrh. sé greið leið að málinu. Ég sé ekkert á móti því að þessi tillaga hljóti meðferð í hv. félmn.

Ég tel að í mörgum tilfellum hafi þeir starfsmenn sem fara í svona starfsleyfi gott af því. Þeir læra ýmislegt, öðlast reynslu, víkka sjóndeildarhringinn og eru í mörgum tilfellum a.m.k. hæfari til að gegna starfi sínu heima er þeir koma til baka. Ég legg til að þessi tillaga verði samþykkt svo fremi ríkisstjórnin hafi ekki komið þessu þarfa máli í framkvæmd áður en þingi lýkur. Ég styð þetta mál eindregið.