Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 13:51:22 (3750)

1998-02-12 13:51:22# 122. lþ. 66.3 fundur 251. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:51]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram og þær undirtektir sem hafa komið við þessa tillögu okkar. Ég tek undir það að þessi mál eiga ekki að vera neitt undir því komin hvað ráðherra heitir eða hvað starfsmaðurinn heitir. Að mínu mati var þetta afskaplega gróft brot á starfsmanni sem við höfum vísað til í umræðunni. Ég get alveg eins bent á annan starfsmann sem mér er afar vel við, sem er í leyfi frá félmrn. og starfar í jafnþungu og sams konar starfi hjá alþjóðastofnun. Ég er hrædd um að okkur mundi öllum bregða við ef hún kæmi hingað til að sækja starfið sitt aftur og væri send upp í forsrn. Þetta á því ekki að snúast um hvað starfsmaðurinn heitir, hvað ráðuneytisstjórinn heitir þegar um það er að ræða eða hvað ráðherrann heitir, heldur á það að vera ljóst hvaða reglur gilda um launalaus leyfi, hvaða réttindi starfsmaður hefur og hvað bíður hans þegar hann kemur til baka.

Ég met það sérstaklega mikils að félmrh. skuli hafa tekið til máls í þessari umræðu og lýst stuðningi við tillöguna og það að við þurfum reglur. Hann hefði alveg getað látið það vera og ég þakka þær undirtektir og þann stuðning.

Ég viðurkenni að ég hef litið svo á að þetta mál eigi kannski að heyra undir forsrn. vegna eðlis þess. En félmrh. hefur bent á að sem starfsmannamál ríkisins mætti líka hugsa sér að það væri mál fjmrn. Svo er það vinnuréttarlegi þátturinn sem bent er á hér. Ég verð að viðurkenna að við í félmn. æskjum yfirleitt eftir því að mál sem er vinnuréttarlegs eðlis komi til kasta félmn., a.m.k. til umsagnar ef talið er að það eigi heima annars staðar. Þetta segir okkur að það er nokkurt álitamál hvar þetta þingmál á heima. Ég vil fela forseta að kanna hvort það álit félmrh. kunni að vera rétt að þar sem málið sé svo vinnuréttarlegs eðlis, þá sé eðilegt að það fari til félmn. Ég set það í hendur forseta og starfsmanna þingsins að skoða það.

Ég treysti því, virðulegi forseti, að ágætar undirtektir félmrh. verði til þess að kollegar hans í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar fari að ráðum hans þar sem hann er einn af ráðherrunum í þessari ríkisstjórn og að stuðningur hans verði til þess að þetta mál fái brautargengi eftir umfjöllun í nefnd. Ég þakka ágæta umræðu og sérstaklega stuðning sem hér hefur komið fram.