Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 13:59:00 (3754)

1998-02-12 13:59:00# 122. lþ. 66.4 fundur 366. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:59]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn. Flutningsmenn auk mín eru úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum eða þau Kristín Halldórsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Svanfríður Jónasdóttir og Svavar Gestsson.

Tillaga þessi er flutt að fyrirmynd frá Svíþjóð þar sem þessi skipan mála hefur gefið mjög góða raun. Ástandið í jafnréttismálum hér, ekki síst það hve hægt gengur að koma konum eða körlum með áhuga á jafnréttismálum í æðstu valdastöður með tilheyrandi afleiðingum á jafnréttismálin almennt, hefur sannfært mig um mikilvægi þess að fræðsla um jafnréttismál fyrir æðstu ráðamenn sé nauðsynleg, ekki síst nú þegar ákveðin aðferðafræði, svokölluð samþætting, á að notast í stefnu stjórnvalda. Þessa aðferðafræði þarf að kenna til að hægt sé að beita henni á markvissan hátt.

[14:00]

Tillögugreinin hljóðar svo með leyfi forseti:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að móta stefnu um aðgerðir sem tryggi að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafi þekkingu á ólíkri stöðu kynjanna í þjóðfélaginu almennt og á sínu sviði sérstaklega. Í því skyni verði tekið saman vandað námsefni og haldin námskeið sem ráðamönnum verði gert að sækja. Tryggt verði að þekkingunni verði haldið við með eftirliti og aðhaldi og með því að halda námskeið með reglulegu millibili.``

Svo mörg voru þau orð. Markmiðið með framangreindum jafnréttisaðgerðum er að skapa samfélag þar sem bæði kynin búa við sömu möguleika, réttindi og skyldur á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að það markmið náist þarf að beita svokallaðri kynjaðri hugsun við alla stefnumörkun og aðgerðir framkvæmdarvaldsins, Alþingis, fyrirtækja og stofnana.

Íslenska ríkisstjórnin hefur á alþjóðavettvangi skuldbundið sig til að samþætta sjónarhorn kynjajafnréttis hefðbundnum stjórnmálum og stjórnun. Má þar nefna að samþætting gengur eins og rauður þráður í gegnum framkvæmdaáætlunina frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking frá 1995. Norræna ráðherranefndin hefur sett sér það markmið að samþætting skuli einkenna allt starf á vegum nefndarinnar. Innan Evrópuráðsins og í framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins í jafnréttismálum, sem Íslendingar eiga aðild að í gegnum EES-samninginn, er samþætting lykilhugtak og miklar vonir eru bundnar við þessa aðferðafræði.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára er komið að þessum samþættingarhugmyndum. Þess vegna er alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að koma þeim í framkvæmd. Til þess að svo verði þarf ýmislegt að koma til, t.d. er nauðsynlegt að pólitískur vilji sé fyrir hendi til að leiðrétta þann ójöfnuð á milli kynjanna sem allt samfélagið líður fyrir. Þennan vilja þarf að sýna í verki.

Samþætting byggir á þeirri staðreynd að staða kynjanna sé á flestum sviðum ólík og taka þurfi tillit til þess við alla ákvarðanatöku. Grunnforsenda þess að samþætting takist er því pólitískur vilji, kyngreindar upplýsingar, fræðsla og eftirfylgni. Þarna vil ég undirstrika fræðsluna sem er sérstaklega til umræðu.

Fræðin um hið félagslega kyn --- sem uppi í Háskóla eru kölluð ,,kynjafræði`` og eins og þau eru líka nefnd í nýútkomnum bæklingi frá skrifstofu jafnréttismála --- er sérstakt þekkingarsvið. Það er ekki hægt að krefjast ábyrgðar á samþættingu jafnréttissjónarmiða af fólki sem hefur ekki til þess kunnáttu. Til þess að raunveruleg samþætting eigi sér stað þarf jafnréttisfræðsla því að vera forgangsverkefni.

Flestir vita að jafnréttisvinnan er oft unnin af sérfræðingum, hvort sem þeir eru í ráðuneytum eða hjá Jafnréttisráði. Oft eru þetta sérfræðingar sem ekki hafa pólitísk völd eða hafa mjög mikið fjármagn til eigin nota. Samþættingin gerir ráð fyrir að jafnréttisvinnan verði eðlilegur hluti allra starfa í stjórnmálum og stjórnsýslu. Áhrifamestu gerendurnir eru að sjálfsögðu þeir sem hafa mestu völdin og fjármagnið eða æðstu ráðamenn þjóðarinnar. Með æðstu ráðamönnum er átt við ráðherra ríkisstjórnarinnar, forstjóra ríkisstofnana, biskup, ríkissaksóknara, dómara og rektora háskóla, en að sjálfsögðu mætti teygja þetta til fleiri embætta. Þessum aðilum verður að vera ljóst hver ábyrgð þeirra og áhrifamáttur er á stöðu kynjanna. Þeirri ábyrgð má líkja við ábyrgð á fjármálum eða öryggismálum sem engir stjórnendur geta skorast undan, hver svo sem starfsvettvagnur þeirra er eða hvort þeir hafa sérstakan áhuga á þessum sviðum. Ég vil vekja athygli á því að í greininni er gert ráð fyrir að þessum embættismönnum eða ráðamönnum sé gert að sækja þessi námskeið.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan hafa Svíar gert mjög myndarlegt átak til að tryggja lágmarksþekkingu æðstu stjórnenda sinna á ólíkri stöðu kynjanna á mismunandi sviðum samfélagsins. En hvers vegna fóru Svíar út í það? Jú, það er rétt að geta þess að það var vegna þess að fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð árið 1994 voru konur þar mjög óánægðar með þróun jafnréttismála og svokallaðar stuðningssokkur íhuguðu af alvöru að bjóða fram sérstakan kvennalista. Samkvæmt skoðanakönnunum leit svo út fyrir að þær mundu fá 30--40% fylgi kjósenda.

Þegar til kom höfnuðu stuðningssokkurnar framboðsleiðinni enda brugðust stjórnmálaflokkarnir þannig við að konum var fjölgað í öruggum sætum á framboðslistum, t.d. setti Verkamannaflokkurinn konur í annaðhvort sæti og hét því að ef flokkurinn kæmist í ríkisstjórn mundi hann tryggja að konur yrðu helmingur ráðherra sem reyndar varð raunin. Það var Mona Sahlin sem þá var jafnréttisráðherra sem hóf þessi námskeið strax að loknum kosningum og fyrstur til að setjast á skólabekk var Ingvar Carlsson, þáverandi forsætisráðherra, og sýndi hann þannig fordæmi fyrir aðra ráðamenn. Síðan hafa allir sænskir ráðherrar farið á slík námskeið ásamt aðstoðarmönnum sínum, ráðuneytisstjórum, biskupum, forstjórum ríkisstofnana, blaðafulltrúum og fleirum. Það er mjög athyglisvert að það orðspor komst strax á þessi námskeið að þau væru eftirsóknarverð, þau væru eingöngu fyrir toppana og þar af leiðandi varð það virðingaratriði og það kom töluverður þrýstingur frá þeim sem litu á sig sem toppa um að komast á slík námskeið. Þessi námskeið eru því enn í gangi og eru mjög vinsæl.

Námskeiðin hafa verið tvíþætt. Annars vegar hefur sænsku þjóðinni verið lýst á námskeiðunum út frá stöðu kynjanna á mismunandi aldri, farið t.d. yfir aðstöðu aldraðra, stöðu barna, stöðu kvenna á mismunandi aldri o.s.frv. og kyngreind tölfræði óspart notuð í þeim tilgangi. Þetta er sem sagt hinn almenni hluti námskeiðanna sem allir hafa fengið. Hins vegar hefur seinni hlutinn verið þannig að efnið hefur verið aðlagað mismunandi þekkingarsviðum þeirra ráðamanna sem sækja námskeiðin hverju sinni. Þessi fræðsla og vitundarvakning er ein ástæða þess að staða kvenna í Svíþjóð er umtalsvert betri en staða íslenskra kvenna. Það er ekki nóg að hafa Jafnréttisráð, þessi sjónarmið verða að hafa talsmenn í toppstöðum í öllum ráðuneytum og í öllum ríkisstofnunum.

Á Íslandi hefur safnast mikil þekking á ólíkri stöðu kynjanna og kynjafræðum, þótt enn sé mikið verk óunnið. Mikilvæg sérfræðiþekking hefur myndast við Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands og tekin hefur verið upp kennsla á þessu sviði við háskólann. Skrifstofa jafnréttismála, Kvennaathvarfið, Kvennalistinn, Stígamót, kvennablaðið Vera, karlanefnd Jafnréttisráðs, Kvenréttindafélagið og fleiri aðilar hafa einnig dregið fram í dagsljósið mikilvægar upplýsingar um stöðu kynjanna sem nauðsynlegt er að taka mið af. Kyngreind tölfræði er að verða mun aðgengilegri, samanber t.d. bækling Hagstofunnar, ,,Konur og karlar`` (1993, 1997) og það ætti því að vera vel framkvæmanlegt að taka saman gagnlegt fræðsluefni og fá til þess hæfa sérfræðinga til kennslustarfa. Símenntun þarf að tryggja með því að halda námskeið með reglulegu millibili og með eftirliti og aðhaldi. Aðhald mætti veita með ýmsum hætti. Í Svíþjóð hefur það verið gert með því að aðstoðarmenn ráðherra hittast mánaðarlega og eiga að fylgja því eftir, hver á sínu sviði, að öll starfsemin sé í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um samþættingu. Þeir bera einnig ábyrgð á að nauðsynleg þekking sé aðgengileg.

Ef vilji er fyrir hendi til að sýna samþættingu í verki er jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn einföld, ódýr og áhrifarík aðgerð til vitundarvakningar og hefur mikilvægt fordæmisgildi fyrir aðra þjóðfélagsþegna.

Herra forseti. Að lokum vek ég athygli á því að í áðurnefndri jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar sem var lögð fram í þinginu eftir að þetta þingskjal var birt segir um nákvæmlega þetta atriði í lið 3.2. Þar er talað um fræðslu um jafnréttismál, og þá vitna ég beint í þá jafnréttisáætlun sem hér var til umræðu fyrr í vikunni:

,,Skipulögð verða námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu, þeirra hlutverk ásamt kynningu á framkvæmdaáætluninni. Námskeiðin verði haldin á fyrri hluta ársins 1998. Námskeiðin verði haldin með svipuðum hætti og nýafstaðin námskeið um stjórnsýslu- og upplýsingalög.``

Þetta sýnir ótvírætt að mínu mati að ríkisstjórnin virðist vera sammála í þessu mikilvæga máli, að fræðsla af þessu tagi eigi sér stað. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félmrh. sem hér er staddur hvort sú tímaáætlun sem þarna er nefnd, þ.e. í byrjun árs 1998, sé raunhæf að hans mati, óháð því hvenær jafnréttisáætlunin verður afgreidd frá þinginu. Í þessum lið er vísað til þess að námskeiðin verði svipuð og nýafstaðið námskeið um stjórnsýslu og jafnréttislög sem mér er ekki alveg kunnugt um hvernig voru. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort sú framkvæmd er í samræmi við það sem lagt er til og hvort við flm. getum búist við stuðningi, a.m.k. flokks hæstv. félmrh. við þessa tillögu sem samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar? Slík fræðsla hlýtur að þurfa gaumgæfilegan undirbúning, t.d. að tekið verði saman vandað námsefni sem samþykkt tillögunnar gæti tryggt.

Ég geri mér miklar vonir um að tillagan verði samþykkt á þessu þingi þar sem ríkisstjórnarflokkarnir og bæði þingflokksformenn og formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna virðast sammála um að slík fræðsla fyrir æðstu ráðamenn eigi fullan rétt á sér.