Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:14:25 (3755)

1998-02-12 14:14:25# 122. lþ. 66.4 fundur 366. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég er ekki sannfærður um að það sé brýnt að samþykkja akkúrat þessa tillögu vegna þess, eins og hv. síðasti ræðumaður og flm. tillögunnar kom að, að í framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, sem rædd var hér fyrir skömmu, er ákvæði um akkúrat þetta verkefni, þ.e. að skipulögð verði námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu, hlutverk þeirra, ásamt kynningu á framkvæmdaáætluninni. Námskeiðin verði haldin á fyrri hluta árs 1998. Námskeiðin verði haldin með svipuðum hætti og nýafstaðin námskeið um stjórnsýslu- og upplýsingalög.

[14:15]

Nú er þess að geta að þessi framkvæmdaáætlun var lögð fram fyrir jól. Hún varð ekki útrædd á haustþinginu og kom reyndar ekki til 1. umr. fyrr en í fyrradag og gekk til nefndar í gær þannig að að vera kann að það verði eitthvað knappur tími og væntanlega tekur einhvern tíma að afgreiða hana á þinginu þannig að það styttist í fyrri hluta ársins 1998. Ég reikna með að þegar framkvæmdaáætlunin hefur verið samþykkt eða afgreidd á Alþingi þá muni ég efna til fundar með yfirmönnum ríkisstofnana til að kynna efni hennar, bæði þetta og annað og í framhaldi af því verða væntanlega þessi námskeið haldin. Ég hef einu sinni áður efnt til slíks fundar meðal yfirmanna ríkisstofnana. Það mun hafa verið fyrir svona tveimur árum síðan og hann tókst afar vel að því leyti til að hann var mjög vel sóttur og forstöðumenn ríkisstofnana sýndu málinu alveg sérstakan áhuga. Ég var að vísu ekki ánægður með allt sem þar var sagt en í stórum dráttum. Fundarsóknin bar í sjálfu sér vott um áhuga manna á málinu.

Þessu til viðbótar vil ég geta þess, eins og ég hef kannski gert úr þessum ræðustól áður, að ég hef í undirbúningi endurskoðun jafnréttislaganna og vænti þess að geta lagt fram frv. þess efnis á næsta haustþingi. Það yrði þá verkefni næsta þings og þar má e.t.v. taka enn frekar á fræðslumálunum.