Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:29:34 (3765)

1998-02-12 14:29:34# 122. lþ. 66.4 fundur 366. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek það ekki til mín að 12. gr. jafnréttislaga sé brotin. Ég tel að ég hafi unnið eftir henni. Ég get ekki svarað fyrir aðra ráðherra. Það er þeirra mál ef þeir ekki fara nákvæmlega að lögum. Ég ber alls enga ábyrgð á því hvað ráðherrar í fyrrv. ríkisstjórn gerðu. Ég tel að mér hafi gengið vel að ræða um jafnréttismál. Ég hef getað fengið fólk til þess að hlusta á mig sem er meira en sumir aðrir sem um þau mál hafa rætt geta hrósað sér af.

Hryggilegur launamunur sem virðist vera að aukast milli karla og kvenna er úrlausnarefni og það er ástæða til þess að gaumgæfa það. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það þó að karlar með lengri vinnudegi fái hærri laun en konur, þ.e. eins og þetta hefur verið sett upp með meðaltímakaup, þá legg ég þann skilning í að þar sé unnum vinnustundum deilt í heildarlaunapakkann. Það er ekki rétt uppsetning. Sömu laun eiga að vera fyrir sömu vinnu eða jafnverðmæt störf. Við erum að vinna að starfsmati sem getur verið þáttur í þessu og ég er alveg opinn fyrir því.

Varðandi árangurinn með nauðung eða frelsi og að laða fólk að, lofa því að átta sig, þá vitna ég til sameiningar sveitarfélaga sem er dálítið hliðstætt verkefni. Ég hef ekki verið að knýja sveitarfélög til sameiningar. Ég hef varast að gera það. (Forseti hringir.) Ég hef varast að reyna að þrýsta á sveitarfélögin til sameiningar, enda eru þau í óða önn að sameinast af því að menn sjá að það er skynsamlegt.