Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:58:48 (3771)

1998-02-12 14:58:48# 122. lþ. 66.6 fundur 441. mál: #A meðferð opinberra mála# (sektarinnheimta) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir orð hæstv. dómsmrh. tel ég að í þessu frv. felist afturvirkni varðandi óinnheimtar sektir sem orki mjög tvímælis. Ég tel nauðsynlegt að nefndin skoði mjög ítarlega það sem hæstv. dómsmrh. er að leggja til. Vissulega er ég ekki að segja að þetta nákvæmlega brjóti í bága við stjórnarskrána varðandi þau ákvæði sem ég nefndi vegna þess að það er búið að ákveða refsingu. Engu að síður tel ég að skoða þurfi hvort jafna megi þessu til ákvæða stjórnarskrárinnar, sérstaklega 69. gr.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki fyrirspurn minni um það hvort hann teldi rétt og eðlilegt að innheimta sekta sé almennt hjá lögreglunni og hvort hann teldi ekki rétt og eðlilegt að reyna aðrar leiðir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur einhvern tíma komið til tals eða skoðunar að bjóða út þessa innheimtu þannig að hún sé ekki í verkahring lögreglunnar?

Því er haldið fram í greinargerð með frv. að það sé andstætt jafnræðissjónarmiðum að mál þessi hljóti ekki sömu meðferð í einstökum umdæmum landsins. Því spyr ég ráðherrann: Er það svo að það sé mismunandi eftir umdæmum landsins hvernig gengið er eftir greiðslu sektanna? Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við með þessum orðum?