Lögreglulög

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:02:53 (3773)

1998-02-12 15:02:53# 122. lþ. 66.7 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:02]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögreglulögum.

Í kjölfar lögreglulaga sem sett voru á síðasta ári hafa orðið grundvallarbreytingar á skipulagi lögreglunnar og æðstu stjórn hennar. Með frv. sem hefur verið lagt fram eru lagðar til nokkrar breytingar á lögreglulögunum sem þykja nauðsynlegar í ljósi reynslunnar. Er um að ræða breytingar sem fela í sér minni háttar lagfæringar og einnig breytingar í þá veru að skýrar verði kveðið á um einstök atriði svo sem markmið laganna þannig að markmiðum þeirra verði betur náð.

Í 1. gr. frv. er lagt til að dómsmrh. verði heimilt samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra að kveða á um samstarf lögregluliða um lengri tíma í tilteknum landshluta eða héraði. Þetta samstarf gæti t.d. lotið að samnýtingu tækjabúnaðar, samræmingu löggæslustarfa og þjálfun lögreglumanna. Nauðsynlegt er að hreyfanleiki lögreglu verði tryggður svo unnt sé að skipuleggja hvernig haga skuli miðlun mannafla milli lögregluliða um lengri tíma til að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu.

Í 2. og 3. gr. frv. eru lagðar til smávægilegar breytingar á ákvæðum um handhöfn lögregluvalds og lögregluskírteini. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þau ákvæði frekar.

Í 4. gr. frv. er lagt til að ríkislögreglustjóri í stað dómsmrh. skipi lögreglumenn aðra en yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Þykir sú tilhugun vera í samræmi við hlutverk ríkislögreglustjóra.

Í 5. gr. frv. er síðan lagt til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði er heimili valnefnd Lögregluskóla ríkisins að víkja tímabundið frá aldursskilyrðum við inntöku nemenda í skólann.

Með þessum tillögum er horft til hagsmuna lögreglumanna sem voru lausráðnir eða ráðnir tímabundið til starfa í tíð eldri laga. Ákvæðið er í samræmi við það markmið að tryggja framkvæmd lögreglulaga með þeim hætti að sem minnst röskun verði á stöðu og högum starfsmanna lögreglunnar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og umfjöllunar í hv. allshn.