Hjálmanotkun hestamanna

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:12:40 (3776)

1998-02-12 15:12:40# 122. lþ. 66.11 fundur 324. mál: #A hjálmanotkun hestamanna# frv., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:12]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu og nettu frv. sem vegur þó þyngra en umfang þess gefur e.t.v. til kynna vegna þess að það getur, ef að lögum verður, komið í veg fyrir örkuml og bjargað mannslífum. Það snýst um hjálmanotkun hestamanna og er á þskj. 409. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Guðmundur Árni Stefánsson, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður Jóhannesdóttir. Eins og heyra má eru þetta þingmenn úr öllum þingflokkum sem er vonandi til marks um breiðan stuðning við málið.

Frumvarpið er aðeins þrjár greinar sem hljóða svo:

,,1. gr. Menn á hestbaki skulu bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði. Forráðamaður barns skal sjá um að barnið fylgi ákvæði þessarar greinar.

2. gr.: Brot gegn lögum þessum varða sektum.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. Eigi skal þó refsa fyrir brot framin gegn 1. gr. fyrr en eftir 1. janúar 2000.``

Lengra er þetta frv. ekki, enda um einfalt öryggisatriði að ræða. Ég velti því vissulega fyrir mér hvort þetta atriði ætti heima innan ramma umferðarlaganna en að ráði lögfræðings varð niðurstaðan sérstakt frv. Hvers vegna erum við að leggja fram frv. um þetta efni? Á ekki hver maður einfaldlega að bera ábyrgð á sjálfum sér og eigin lífi og heilsu? Auðvitað er alltaf álitamál hversu langt á að ganga í því að hafa vit fyrir fólki en þess sér vissulega stað víða í löggjöf okkar. Við getum nefnt ákvæðið um notkun bílbelta sem var afar umdeilt ákvæði á sínum tíma og er jafnvel enn. Þó hefur það svo sannarlega sannað gildi sitt.

[15:15]

Notkun öryggisbelta í bifreiðum hefur í mörgum tilvikum komið í veg fyrir mikil meiðsli, örkuml og jafnvel dauða. Svo eru mörg öryggisatriði sem skylduð hafa verið með lögum. Minna má á hliðstæðu þess öryggisatriðis sem þetta frv. leggur til, þ.e. lagaskyldu ökumanna vélhjóla til að nota öryggishjálm. Ég minnist þess varla að hafa heyrt það ákvæði gagnrýnt og nánast aldrei að hafa séð ökumann vélhjóls án hjálms. Þarna er um að ræða ákaflega sambærilegt atriði við það að hestamenn noti öryggishjálma á hestbaki. Ástæða þess að ég legg til lögfestingu þess er sú að mér þykir vænt um lífið og ég trúi því að allir menn vilji heldur vera heilir heilsu en örkumla, hvað þá dánir.

Það er gaman að segja frá því að þetta frv. hefur hlotið ótrúlega mikil viðbrögð. Ég fagna því. Þau hafa verið á tvo vegu. Margir hafa fagnað því og gert sér það ómak að senda mér tölvupóst, hringja í mig og taka mig tali á förnum vegi. Þeir hafa haft skoðanir á þessu og fagnað því að þetta ákvæði yrði lögfest vegna þess að þeir eru sömu skoðunar, að það sé þess virði að reyna að gera allt sem unnt er til að tryggja að ekki verði slys af þessari skemmtilegu og gefandi íþrótt sem hestamennskan er.

Það eru líka margir sem hafa lýst andstöðu við þetta frv. Þeir fullyrða að þeir muni aldrei setja upp hjálm og færa svo sem ekki margar ástæður fyrir því aðrar en þær að þeir vilji það bara ekki, þeir séu ekki vanir að nota hjálm, muni ekki gera það, þurfi þess ekki og því um líkt. Sá rökstuðningur hefur heyrst að aðeins viðvaningar og klaufar þurfi að hafa hjálm. Góðir hestamenn detti aldrei af baki, hvað þá að þeir meiði sig. Þó eru mörg dæmi einmitt um það að góðir, slyngir hestamenn hafa farið flatt á því að hafa oftrú á sjálfum sér. Oftraustið er oft að meini, eins og segir í vísunni góðu. Það eru bæði til skriflegar frásagnir og munnlegar um það. Sjálf ber ég stolt merki þess að öryggishjálmur bjargaði a.m.k. því höfði sem hér hreyfist í ræðustól og ég væri ekki með fullri heilsu ef ég hefði ekki notað það öryggisatriði.

Snemma í morgun hringdi í mig undrandi útvarpsmaður hjá Útvarpi Matthildi. Hann hafði sagt frá því hvað ætti að vera á dagskrá Alþingis í dag og það var eins og við manninn mælt, að eftir að hafa lesið upp að hér yrði á dagskrá frv. um hjálmanotkun hestamanna, hefði síminn orðið rauðglóandi og fólk hefði hringt og skipst til helminga með og á móti. Ein kona hafði hringt og sagt: Ég mun aldrei bera hjálm, það er púkalegt að vera með hjálm. Útvarpsmaðurinn ræddi við mig þetta mál og hann spurði: Er ekki bara flott að vera með hjálm? Og við komum okkur saman um að það væri flott að bera hjálm vegna þess að hann tryggði það að viðkomandi væri að gera sitt til þess að verða hvorki þjóðfélaginu né sjálfum sér byrði.

Ég hef síðustu árin safnað saman ýmsum gögnum sem hafa komið fram, viðtölum og greinum í blöðum sem taka á þessu máli vegna þess að vaxandi fylgi er við notkun öryggishjálma í hestamennsku. Ég ætla ekki að vitna neitt sérstaklega í greinargerð frv. Ég hafði hana af ásettu ráði ekki langa eða ítarlega. Þó kemur það fram að þegar unnið var að frv. var leitað upplýsinga um slys í sambandi við hestamennsku og kom reyndar í ljós að það var ekkert sérlega auðvelt að afla skráðra upplýsinga um slys tengd hestamennsku. Það er nýbyrjað að skrá nákvæmlega og sundurliðað slys sem koma til kasta slysadeildar við Sjúkrahús Reykjavíkur en engar heildarupplýsingar liggja enn fyrir og engar upplýsingar var að fá frá landlækni. Hins vegar fengum við upplýsingar hjá Óskari Jónssyni, lækni á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki, en þar um slóðir hefur hestamennska lengi verið í hávegum höfð og væntanlega hefur einmitt sú staðreynd orðið honum hvatning til að fara yfir skrár yfir umferðarslys og slys í tengslum við hestamennsku og niðurstöður hans koma fram í greinargerðinni. Þær eru mjög sláandi vegna þess að sú skráning og yfirferð leiðir í ljós að fleiri slasast í hestaslysum en í venjulegum umferðarslysum á þessu svæði og margir hafa hlotið alvarlega áverka.

Ég veit líka til þess að Landssamband hestamanna hefur oftar en einu sinni fjallað um hjálmanotkun og sýnist þar sitt hverjum. Á 45. ársþingi Landssambands hestamanna, sem var haldið á Hvolsvelli 28. og 29. október 1994, samþykkti ársþingið viðbót við reglur Landssambandsins svohljóðandi:

,,Í reglugerð um gæðingakeppni er knapa skylt að bera reiðhjálm og skal hann vera tryggilega festur með hökubandi. Missi knapi reiðhjálm af höfði í keppni fær hann ekki dóm eða sæti í úrslitakeppni.``

Þetta sýnir og sannar að hestamenn eru sér æ meira meðvitandi um hverju það skiptir, bæði að nota þetta öryggisatriði og gefa gott fordæmi.

Þá vil ég nefna að í 11. tölubl. Eiðfaxa árið 1997, sem ég er með fyrir framan mig, er fjallað um hjálmanotkun og vísað í viðtal við Kára Arnórsson sem er þekktur hestamaður og vakti athygli manna í haust þegar hann tók þátt í leitum á Hrunamannaafrétti að hann var með forláta reiðhjálm á höfði. Hann var sá eini vegna þess að svo virðist sem margir sveitamenn, reyndir gangnamenn, leitarmenn, telji ekki þörf á því að vera með hjálm og telji það, að mér skilst, til hálfgerðrar fordildar. Þeir séu bara fyrir sportreiðmenn í þéttbýlinu. En það eru reyndar ekki allir á þessum slóðum og þess vegna langar mig til að vitna aðeins í þessa grein sem birtist í Eiðfaxa í nóvember 1997, þar sem segir frá hjálmanotkun eða öllu heldur þegar hjálmurinn gleymdist. Það segir hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Reiðhjálmar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Um það vitna þau slys sem af og til verða meðal hestamanna. Skemmst er að minnast þess hryggilega atburðar þegar Eiður Matthíasson, tamningamaður á Akureyri, slasaðist alvarlega þegar hann datt af hestbaki fyrir hálfu öðru ári með þeim afleiðingum að hann lamaðist að hluta. Eiður var ekki með reiðhjálm í umrætt sinn --- frekar en Jón Jónsson, tamningamaður á Hvolsvelli, sem slasaðist alvarlega í mars sl. þegar hann datt á höfuðið --- án reiðhjálms.

Jón, sem stundar þjálfun og hrossarækt á Hvolsvelli, hafði það fyrir reglu að nota reiðhjálm við tamningar. Hann segist hafa verið að temja kargt trippi þegar slysið átti sér stað.

,,Ég man að hjálmurinn var ekki á sínum stað þegar ég fór út með trippið og þess vegna var ég hjálmlaus. Ég hafði áður farið á bak þessu trippi og þá hafði allt gengið vel. Í þetta sinn teymdi ég hestinn út á þjóðveg eitt og var nýkominn á bak þegar hann tók að prjóna með mig --- enda kargur og staður. Ég hangi nú yfirleitt á hrossunum og læt mig ekki fyrr en í fulla hnefana en í þetta sinn gerðist þetta allt svo snöggt; hesturinn prjónaði aftur fyrir sig og datt síðan á hliðina með þeim afleiðingum að ég stakkst á höfuðið í vegkantinn. Ég stóð strax upp og náði hestinum og teymdi hann áleiðis að hesthúsunum. Svo sortnaði mér fyrir augum og ég datt niður.``

Jón var þegar fluttur á sjúkrahús í Reykjavík þar sem í ljós kom að hann var höfuðkúpubrotinn auk þess sem blætt hafði inn á litla heilann.

,,Ég var lengi að ná mér og er í raun ekki enn orðinn fullbata. Ég var lengi ruglaður á eftir og mundi ekkert í nokkurn tíma; varla hvað ég hét eða hvað ég var gamall. Ég var eins og gömul tölva með lélegt minni,`` segir hann og hlær. Hann segist þó allur vera að koma til þótt enn sé einhver tími í að hann bregði sér á bak. ,,Fyrst um sinn mun ég láta tamningarnar vera og ríða einungis þýðum og þægum hestum --- enda fer allur titringur illa með mig. Tamning trippisins verður bara að bíða betri tíma. Sonur minn á þennan hest og hann mun taka við tamningunni,`` segir Jón og ber sig vel. ,,En hjálmnum mun ég ekki gleyma í framtíðinni og víst er að slysið hefur haft áhrif á marga hestamenn hér um slóðir sem sýnir sig best í því að reiðhjálmar seldust upp nokkrum sinnum hér í bænum í kjölfar þessa slyss. En eitt er víst: Hjálmurinn mun skipa háan sess í lífi mínu þegar ég fer aftur af stað.````

Þetta er reynslusaga þrautreynds hestamanns og sýnir að þetta öryggisatriði er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir viðvaninga og klaufa heldur einnig fyrir atvinnumenn í hestamennsku.

Margar fleiri sögur mætti segja af þessum málum og eins og ég sagði áðan, sjálf ber ég stolt öryggishjálm á höfði sem ber þess merki að hann hafi bjargað a.m.k. heilsu minni, ef ekki lífi þegar ég datt af baki og lenti á malbikuðum vegi. Ég fagna því að mér virðist sem sá ágæti siður að vera með hlífðarhjálm á hestbaki sé að færast í vöxt og æ fleiri skilji þýðingu þess að verja það sem okkur ætti að þykja líklega einna vænst um af okkar líkamspörtum.

Að lokinni 1. umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.