Hjálmanotkun hestamanna

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:29:15 (3777)

1998-02-12 15:29:15# 122. lþ. 66.11 fundur 324. mál: #A hjálmanotkun hestamanna# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:29]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þessa frv. þó sveitamaður sé, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, sem talaði um að sveitamönnum þætti jafnvel miður að bera hjálm á höfði. Ástæðan fyrir því að ég er einn af flutningsmönnum frv. er að mér þykir eins og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur vænt um lífið. Mér finnst afar góð rök að tala um að meginástæðan fyrir þeirri lögfestingu að hestamenn beri hjálm á höfði sé sú að okkur þykir auðvitað vænt um lífið.

[15:30]

Það vill þannig til að ég kem úr héraði þar sem eru flest hross á landinu. Þar eru einir allra bestu hestamenn landsins. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur reyndar sagt reynslusögur af þessum ágætu hestamönnum og það er ekki nóg með að þar séu einir allra bestu hestar landsins heldur einir allra bestu hestamenn.

Viðbrögð við þessu frv. hafa yfirleitt verið mjög jákvæð. Fjölmargir hestamenn hafa komið að máli við mig og talið nauðsynlegt að lögfesta það að menn bæru hjálm á höfði. Þó eru til góðir hestamenn sem vart geta hugsað sér þetta. Okkur þykir sjálfsagt að setja hjálm á höfuð barns sem sest á hest og það á vel við hið gamla máltæki hvað ungur nemur gamall temur, enda kemur fram í frv. að ekki er gert ráð fyrir að refsa mönnum fyrir að nota ekki hjálm fyrr en á næstu öld. Við viljum því gjarnan að hestamenn venji sig á að bera hjálm.

Hestaíþróttin er afar vinsæl hjá leikmönnum og reyndar atvinnumönnum. Menn ríða gjarnan út sér til ánægju og hesturinn brúar bilið á milli kynslóða. Hesturinn brúar bilið á milli dreifbýlisfólks og þéttbýlisfólks. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls mín: Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þessa frv. og vonast til þess að það verði lögfest á þessu þingi.