Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:48:12 (3782)

1998-02-12 15:48:12# 122. lþ. 66.12 fundur 451. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. og langar til að leggja aðeins orð í belg.

Það mál sem hér er til umræðu fjallar um tvö mikilvæg atriði er snerta börn og kynferðisofbeldi. Breytingartillögurnar eru gerðar við almenn hegningarlög en umboðsmaður barna sendi frá sér afar athyglisverða skýrslu um það mál í september 1997 eins og fram kom hjá hv. 1. flm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Í framhaldi af skýrslu umboðsmanns barna skilst mér að þessi mál séu til skoðunar í dómsmrn. en þær breytingar sem hér eru lagðar til eru að mati okkar flutningsmanna þær brýnustu sem gera þarf og þess vegna töldum við ekki stætt á að bíða með að flytja frv. af þessu tagi.

Eins og fram hefur komið fjallar 1. gr. frv. um að lagt er til að fyrning sakar samkvæmt 200., 201. og 202. gr. almennra hegningarlaga hefjist ekki fyrr en þolandi brots hefur náð sjálfræðisaldri. Umboðsmaður barna fjallar um þetta sérstaklega í sinni skýrslu og bendir réttilega á að eins og málin standa núna þá eru slík mál oft orðin fyrnd loksins þegar þau komast upp á yfirborðið, þ.e. að mjög algengt er að kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum kemst ekki upp á yfirborðið fyrr en viðkomandi einstaklingur er orðinn fullorðinn og gerir sér grein fyrir því sem hefur átt sér stað.

Í skýrslu umboðsmanns er lagt til að slík brot fyrnist ekki eða til vara að tekin verði upp sérstakur fyrningarfrestur fyrir þessi brot sem verði t.d. 25 ár. Við flutningsmenn ræddum þessi mál og kynntum okkur gögn og það varð okkar niðurstaða að eðlilegra væri að hafa málið með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að fyrning sakar hæfist ekki fyrr en viðkomandi hefði náð sjálfræðisaldri. Það er ekki síst vegna þess að oft er talað um að ef slík ákæra kemur mjög seint sé það kannski fyrst og fremst hefnigirni sem ráði slíkum málaferlum, og við teljum að það eigi ekki að vera ástæða fyrir slíku þannig að við teljum þetta vera eðlilega aðferð.

Seinni greinin fjallar í fyrsta lagi um að tekin verði upp lágmarksrefsing varðandi brot sem snerta samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára. Gert er ráð fyrir að viðkomandi sæti fangelsi ekki skemur en eitt ár. Það hefur mikið verið rætt m.a. í allshn. um gildi lágmarksrefsinga. Það hefur verið notað sem mótrök að það gæti leitt til þess að ekki sé kært eða ákært í málum ef gert er ráð fyrir lágmarksrefsingum og tilhneigingin geti orðið sú að ákært sé þá á grundvelli annarra lagagreina. En að vandlega íhuguðu máli förum við að tillögu umboðsmanns barna og teljum eðlilegt að lágmarksrefsing sé eitt ár.

Seinni hluti greinarinnar er einnig að tillögu umboðsmanns barna en þar er lagt til að heimild verði til að þyngja refsingu ef um endurtekin brot er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvæga réttarbót að ræða sem þingið verði að taka á með festu og það sem allra fyrst.