Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 16:29:18 (3791)

1998-02-12 16:29:18# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[16:29]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu mikilsvert mál sem er frv. til laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Það er lagt fram af hæstv. landbrh. sem hefur mælt fyrir málinu. Þetta mál er flutt hér öðru sinni en á því hafa verið gerðar einhverjar breytingar sem hæstv. ráðherra gat um, af tilkvöddum fjórum alþingismönnum, ef ég hef tekið rétt eftir, sem fóru yfir málið.

Það er ágætt að mál komi fyrir þingið til kynningar á fyrsta stigi og fái síðan skoðun á milli þinga. Hitt finnst mér ekki alveg nógu gott hjá hæstv. ráðherra að skila málinu ekki endurmetnu fyrr til þingsins. En hugsanlega nægir sá tími sem eftir lifir þings fyrir hv. landbn. til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess. Ég get út af fyrir sig tekið undir að æskilegt er að unnt sé að ganga frá breyttri löggjöf um þetta efni þó að margt geti verið við þetta frv. að athuga. Ég hef nokkrar athugasemdir og ábendingar að gefa sem ég vil koma á framfæri við 1. umr. málsins.

[16:30]

Mér sýnist að verið sé að gera mjög róttækar breytingar frá þeirri skipan sem verið hefur í sambandi við dýralækningar, a.m.k. róttækar breytingar frá gildandi löggjöf. Þó má vera að í raun hafi verið þróun í þá átt sem verið er að gera breytingar um og vil ég ekki taka djúpt í árinni um það því að ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Vafalaust er margt fært til betri vegar í gildandi löggjöf enda er fjallað um málið af vísum mönnum.

Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands, sem haldinn var á Egilsstöðum í ágúst 1995, mun upphaflega hafa hvatt til endurskoðunar á lögum um dýralækna þannig að hvatning hefur komið frá starfandi dýralæknum um þetta efni. Hins vegar þykist ég vita að ýmsar athugasemdir hafi einmitt komið frá dýralæknum við frv. eins og það var lagt fyrir á síðasta þingi og sum ákvæði sem athugasemdir voru gerðar við munu vera í fullu gildi þar sem þeim hefur ekki verið breytt. Meðal þeirra ábendinga sem ég hef við frv. eru ákvæði 11. og 12. gr. um umdæmi héraðsdýralækna og vaktsvæði dýralækna en áður en ég kem að því meginefni í ábendingum mínum vil ég koma að fáeinum atriðum sem varða frv. að öðru leyti. Sumt af því er kannski minni háttar en engu að síður af því ég á ekki sæti í hv. landbn. tel ég rétt að nefna það. Sumt varðar orðalag og skal ég ekki staldra lengi við það og bendi t.d. á í 1. gr. þar sem segir:

,,Lög þessi taka til hvers þess dýralæknis sem er skipaður, settur eða ráðinn til starfa í þágu ríkisins og þeirra dýralækna sem starfa samkvæmt leyfi þar að lútandi sem veitt er eftir lögum þessum.`` Orðin ,,þar að lútandi`` í 1. gr. eru svolítið óljós í þessu samhengi, a.m.k. þegar ég les þetta yfir. Þetta er minni háttar mál en orðalag sem varðar rammann.

Í 2. efnisgrein er orðalagið að: ,,Þeir skulu vera á verði [þ.e. dýralæknar] gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma.`` Ég skil alveg merkingu þess arna en það er kannski svolítið tvírætt orðalag að setja þetta svona fram. Einstaklingar sem geti beðið tjón af völdum dýrasjúkdóma. Auðvitað er átt þarna við óbeint en ég leyfi mér að nefna þetta atriði hér.

4. gr. er mikilvæg og mun vera nýmæli um dýralæknaráð. Þar er verið að setja á fót ráð sem m.a. á að fjalla um innflutning búfjár ef eftir er óskað og innflutning annarra dýra og búfjárafurða o.s.frv. Mér sýnist þetta skynsamlegt. Ég skal ekki taka afstöðu til skipunar þess en gert er ráð fyrir fjórum dýralæknum sem eigi sæti í þessu fimm manna ráði auk formanns. Það getur verið vel ráðið. Auðvitað kæmi til greina að fleiri kæmu að málinu. Í 2. grein segir: ,,Ráðinu er heimilt, ef aðstæður krefja, að kalla sérfræðinga til ráðuneytis.`` Kannski er allt í lagi að hafa það svona í lögum. Mér finnst það í rauninni sjálfsagt mál að þessi heimild liggi fyrir og sakar ekki að hafa hana lögfesta þó að slíkt ákvæði mætti teljast sjálfsagt því að auðvitað verða ráð af þessu tagi þó skipuð séu fróðum aðilum að geta leitað sér upplýsinga.

Síðan kemur næsta efnisgrein þar sem segir: ,,Sömu aðilar og taldir eru í 2. mgr. geta vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknaþjónustu til ráðsins.`` Tilvísunin í 2. mgr. mun ekki samræmast því sem algengt er á Alþingi varðandi setningafræði. Ég hef að vísu verið andsnúinn þeirri málnotkun sem hefð er fyrir í þinginu og oft þurft að reka hornin í það því að það sem hér er kölluð málsgrein almennt vil ég kalla efnisgrein, þ.e. það sem er milli greinarskila. Það er það sem við lærðum í skóla fyrir allnokkrum árum í setningafræði Björns Guðfinnssonar en hér er þetta ekki notað í merkingu þeirrar setningafræði ef ég er rétt upplýstur, ef ég er á réttri slóð með þetta, heldur vísar þetta til 2. efnisgreinar og þar eru ekki þeir sem verið er að vísa til. Þá er að finna í 1. mgr. Ég bið nefndina að líta á þetta litla atriði en auðvitað er nauðsynlegt að svona mál séu einnig skilmerkileg.

Síðan segir og það er nú efnislegt en ekki form: ,,Við úrlausn þeirra ágreiningsmála skal ráðherra kalla til starfa með ráðinu lögfræðing sem fullnægir skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara.`` Mér finnst dálítið merkileg skipan að ætla að kalla til lögfræðing sem verði til að hjálpa til við úrlausn ágreiningsmála og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að setja upp formlega úrskurðarnefnd. Hér virðist sem þessu ráði í heild sinni að tilkvöddum lögfræðingi að auki sé ætlað að skera úr og vera eins konar úrskurðarnefnd. Þetta er dálítið sérstök skipan og óljóst af orðalaginu hvort sá lögfræðingur skal vera fast tilnefndur eða hvort hann komi til eftir efni máls, þá hverju sinni. Ég hef ekki athugað hvort eitthvað er að finna í greinargerð eða athugasemdum um þetta sérstaklega en ég leyfi mér að benda á þetta og jafnframt það að í æ meiri mæli eru settar upp sjálfstæðar úrskurðarnefndir til að kveða upp úr um ágreining og það finnst mér hljóta að koma til álita varðandi málið þó að ég vilji ekki kveða upp úr um það.

Þá kem ég að 5. gr. sem er um yfirdýralækni og verksvið hans, sem og aðstoðaryfirdýralæknis. Aðstoðaryfirdýralæknir er nokkuð langt orð, virðulegur forseti, en kannski ekki hægt að finna betra embættisheiti. Ég tók eftir að hæstv. ráðherra sagði að þar hefði verið fækkað frá því sem var. Hér er sú skipan að aðstoðaryfirdýralæknir skal valinn úr hópi sérgreinadýralækna og vera yfirdýralækni til aðstoðar en mun hafa verið sjálfstæður aðili samkvæmt fyrra frv. á síðasta þingi. Ég vil ekki leggja dóm á þetta en sami aðili á að vera tengiliður samkvæmt því sem segir í athugasemdum með frv. Á bls. 11 í athugasemdum við 5. gr.: ,,Aðstoðaryfirdýralæknir mun sinna ýmsum verkum á móti yfirdýralækni og verða tengiliður í samskiptum embættis yfirdýralæknis við dýralækna sem starfa samkvæmt lögum þessum.`` Þetta er verksviðið eins og það er tilgreint. Mér er ekki alveg ljóst hvort þetta er skynsamleg skipan mála. Viðkomandi á að vera sérgreinadýralæknir en jafnframt að sinna umfangsmiklu starfi. Trúlegt er að hér hafi menn verið að hugsa um sparnað eða eitthvað þess háttar og ég tel að það þurfi að athuga hvort þetta sé rétt. Ég kann ekki við orðalagið ,,að sinna ýmsum verkum á móti einhverjum`` en það er smekksatriði og það er ekki einu sinni í lagatexta heldur í athugasemdum.

Þá er það 8. gr. sem ég ætla aðeins að nefna en þar segir, með leyfi forseta: ,,Dýralækni er einungis heimilt að afhenda eða ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum handa dýri þegar hann hefur greint sjúkdóminn.`` Sagt er að þetta sé í samræmi við ákvæði lyfjalaga og sett til að skapa meira aðhald og árvekni um meðferð lyfja. En hér segir og það kom fram í ræðu ráðherra að símaviðtal geti nægt sé um engan vafa að ræða. Vafalaust eru mörg álitaefni í reynd hvað þetta snertir en ekki ætla ég að hafa á móti því en bendi þó á að það er mjög örðugt, ekki síst eftir þá breytingu ef lögfest verður, sem hér er gerð varðandi umdæmin, að kveðja nánast alltaf til dýralækni þannig að eftir því sem lengra er að leita læknis þeim mun umsvifameira verður þetta og kostnaðarmeira, jafnvel þó um þátttöku sé að ræða í ferðakostnaði að hluta, eins og gert er ráð fyrir skv. 13. gr. Þetta held ég að þingnefnd þyrfti að líta á hvernig með verði farið og athuga vel en það tengist því hvaða niðurstaða verður um 11. og 12. gr., þ.e. um umdæmin og vaktirnar.

Varðandi það sem ég hef kannski veigamestar athugasemdir við, 11. og 12. gr., er það að segja að hér eru mjög róttækar breytingar frá núverandi skipan þar sem eru tilgreind 31 umdæmi í gildandi löggjöf og þeim á að fækka í 13 og það á greina á milli eftirlits og dýralækninga. Þó er það ekki meira en svo að eftir því sem fram kom í máli hæstv. landbrh. áðan er gert ráð fyrir að 10 sinni hvoru tveggja, hafi ég tekið rétt eftir, þannig að mér sýnist það vera meginreglan, a.m.k. ef talið er búféð, en mér fannst hæstv. ráðherra túlka þetta sem aukaatriði. Mér finnst satt að segja nokkuð merkilegt að það skuli tilgreint sem niðurstaða að sú skipan mála sem á að gilda í 10 umdæmum af 13 samræmist illa samkeppnislögum. Nú er ég ekki sérstakur varðmaður samkeppnislaga og tel að þar séu mörg álitamálin og það kann að vera einmitt hér. Mér finnst fara illa á því að okkur sé ætlað að samþykkja löggjöf sem kveður upp úr um að samrýmast illa meginsjónarmiðum eða löggjöf sem ryður úr vegi og við þekkjum mjög mörg dæmi um upp á síðkastið að gerður er ágreiningur um.

[16:45]

Ég held að þingnefnd verði að fara vandlega ofan í þessi efni ef hér er verið að koma á meginstefnu, nánast í felum, sem samræmist illa samkeppnislögum. Ég bið hæstv. ráðherra að bregðast við ábendingu minni. Ég er hins vegar ekki að fullyrða að þetta geti ekki farið saman eða sé réttmætt miðað við aðstæður okkar en það er þó ekki rétt að sú svipa sé yfir mönnum að löggjafinn segi nánast að þetta samræmist illa samkeppnislögum.

Síðan kemur það sem varðar umdæmin, virðulegur forseti. Ég tek sérstaklega til, því að tíminn sem ég hef í fyrri ræðu um þetta efni styttist, að hér er t.d. Austurlandskjördæmi, partað sundur með tilliti til umdæma. Skeggjastaða- og Vopnafjarðarhreppar í Norður-Múlasýslu, eins og segir í frumvarpstexta, eiga að vera í Þingeyjarumdæmi sem nær alla leið vestur undir Fnjóskadal ef ég hef tekið rétt eftir og er sett upp sem eitt umdæmi. Verið er að fella niður norðausturumdæmið sem ráðherra sagði að væri ekki mannað eins og stendur og það tekið sem sérstök rök fyrir þessari skipan. Síðan kemur Austfjarðaumdæmi sem er hér samkvæmt lagafrumvarpstexta Egilsstaðir, Eskifjörður, Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Norður- og Suður-Múlasýslur að undanskildum Skeggjastaða- og Vopnafjarðarhreppum. Það er umdæmi sem nær frá Þvottá í Álftafirði og upp í Aðalból að öllum fjörðunum meðtöldum. Þetta er jafnframt sett upp eins og hin umdæmin, eins og Þingeyjarumdæmi, sem vaktsvæði dýralækna. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra vildi bregða á það ráð að fara í dýralæknanám og taka að sér vakt á þessu svæði. Ég er hræddur um að það tæki nú í hjá þeim sem eiga að sinna þeirri vakt. Nú er þó dýralæknir á suðurfjörðum, fyrir utan dýralækni á Héraði er dýralæknir á suðurfjörðum með aðsetur á Breiðdalsvík sem gegnir þar og heimild er samkvæmt gildandi lögum að hafa lækni á Norðfirði svo dæmi séu tekin. Ég er ekki að fara yfir skipanina eins og hún er nákvæmlega en mér líst satt að segja ekki á blikuna varðandi þetta. Þó er í frv. talað um að í raun eigi ekki að gera þjónustuna erfiðari gagnvart þeim sem þurfa að nota hana. Ég held að þetta stangist á við bæði það sem eðlilegt er að bjóða dýralæknum og einnig varðandi þá sem eiga að nota þjónustu þeirra og þá er ég að meta þetta út frá staðarþekkingu minni í Austurlandskjördæmi.

Síðan kemur sem 11. umdæmi Austur-Skafta\-fells\-umdæmi. Það finnst mér vera raunsæ skipting að líta á Austur-Skafta\-fellssvæðið sem eitt. Þó að gert sé ráð fyrir tveimur héraðsdýralæknum í Austurlandsumdæmi er ekki um boðlega skipun mála að ræða að mínu mati og ég geri mjög alvarlega athugasemd við þetta efni við 1. umr. málsins.

Virðulegur forseti. Varðandi efni 13. gr. um þátttöku í ferðakostnaði er æskilegt að heyra hjá hæstv. ráðherra nánar um það efni. Hér er sagt: ,,... heimilt [er] við sérstakar aðstæður að semja við dýralækni um greiðslu hluta ferðakostnaðar`` o.s.frv. Hvernig hyggst ráðherra útfæra efni greinarinnar? Ég held að æskilegt væri að heyra um það.

Tími minn í þessari umferð er þrotinn þó að ég hefði viljað nefna fleira varðandi þetta mikilvæga mál. Ég met það á eftir hvort ég tek aftur til máls og nota rétt minn. Það má vel vera, virðulegur forseti, en fyrst vænti ég að heyra í hæstv. ráðherra.