Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 16:50:02 (3792)

1998-02-12 16:50:02# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[16:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir ýmsar ábendingar sem hafa komið fram í máli hv. 4. þm. Austurl. og vil fara örfáum orðum um nokkrar þær athugasemdir sem hann hefur gert og e.t.v. reyna að svara einhverjum af þeim fyrirspurnum sem hann hefur beint til mín en eitthvað af því verður að sjálfsögðu skoðað nánar í hv. landbn. þegar hún fær frv. til skoðunar. Ég ætla í sjálfu sér ekki að eyða miklum tíma í athugasemdir um orðalag en auðvitað er vel þegið að fá slíkar ábendingar. Menn velta því þá fyrir sér hvort ekki er þörf á að gera smávegis lagfæringar þannig að bæði sé skýrara hvað átt er við og þó kannski ekki síður að lagfæra, ef ég má nota það orð, kauðalegt orðalag eins og kann að vera hægt að finna í einstökum greinum sem hv. þm. hefur bent á þó að við séum báðir sammála um að t.d. orðalagið sem hann gerði athugasemd við í 2. gr. er auðvitað skiljanlegt og að sjálfsögðu vel meint en það má líka snúa út úr því. Svona lagað þarf að lagfæra. Ég tala nú ekki um þar sem kunna að vera rangar vísanir í einstakar greinar eða milli málsgreina eða efnisgreina.

Varðandi athugasemdir hv. þm. um 4. gr., þ.e. dýralæknaráðið, þá er þar eins og fram kom í framsögu minni og greinargerðinni um að ræða nýjar hugmyndir til þess að styrkja það vandasama verkefni sem yfirdýralæknir hefur oft verið í bæði við að taka ákvarðanir og kveða upp úrskurði eða takast á við ágreiningsmál. Ég held að hér sé stigið skref sem er mjög til bóta en sjálfsagt þarf að skoða nánar hvaða rétt ráð af þessu tagi hefur til þess að vera beinlínis úrskurðaraðili eða úrskurðarnefnd sem hér kemur þó fram þar sem talað er um að hægt sé að vísa ágreiningsmálum til nefndarinnar og þá geti ráðið kallað til lögfræðing sem má skilja af þessu orðalagi, finnst mér fyrst og fremst, sem ráðgjafa fremur en aðila að nefndinni eða dýralæknaráðinu sjálfu. Ég verð að svara ábendingu hv. þm. á þann hátt að þetta sé greinilega mál sem þarf að skoða nánar í landbn. Ég sé ekki af þessu að gert sé ráð fyrir því að tilkallaður lögfræðingur sé orðinn hluti af dýralæknaráðinu eins og þetta heitir nú enda er þá spurning hvort það er þá lengur dýralæknaráð ef kominn er lögfræðilegur ráðgjafi, enda talað um aðra sérfræðinga til ráðuneytis í næstu málsgrein þar á undan. Þetta þarf að hafa alveg skýrt þegar a.m.k. kemur að því að ráðið kunni að gerast úrskurðaraðili.

Þetta er einnig gert, og kemur fram í athugasemdum og greinargerð, til þess að koma í veg fyrir að mál þurfi að verða að dómsmálum eða lenda fyrir dómstóla til að hægt sé að ná niðurstöðum í slíku ráði en þá þarf líka að vera skýrt að það hafi slíkt verksvið.

Með aðstoðaryfirdýralækninn er rétt sem hv. þm. dró fram að í hinu fyrra frv. sem var aðeins lagt fram til kynningar í lok seinasta þings, svo seint að ekki var einu sinni mælt fyrir því því að ekki voru tök á því og reyndar stóð nú ekki til heldur bara til þess að sýna málið og koma því til umræðu og var þá vitað mál að þar voru uppi ágreiningsefni. Það hafði m.a. komið fram í þingflokki okkar framsóknarmanna að ekki var fullkomið samkomulag var um ákveðna þætti frv. eins og það var sýnt í fyrravor en samkomulag var um að sýna það. Því varð að ráði að ég fékk sérstakan starfshóp á liðnu sumri til þess að fara yfir málið að nýju til þess að líta á þá þætti sem ágreiningur var um, kannski fyrst og fremst um 11. og 12. gr. sem hv. þm. gerði aðalathugasemdir sínar við í ræðu sinni áðan enda gerðar á því nokkrar breytingar þó að ég geti svo sem vel ímyndað mér að það séu fleiri en hv. þm. sem hafa enn athugasemdir við þessar tvær greinar og það skipulag sem boðað er. Endanlega var frv. ekki á borði mínu fyrr en skömmu fyrir áramót, að vísu fyrir áramót en ekki fyrr en skömmu fyrir áramót. Þess vegna er það á þessu róli að vera ekki komið inn í þingið fyrr og hefði þó kannski getað verið einhverjum vikum fyrr á ferðinni en raun ber vitni.

Varðandi aðstoðaryfirdýralæknisembættið var gert ráð fyrir í hinu fyrra frv. að það væri sérstakt embætti. Til þess að draga m.a. úr kostnaði og hugsanlega úr yfirbyggingu og of þunglamalegu stjórnkerfi varð það samkomulag að reyna þetta form sem hér er lagt til að viðhafa að einn af sérgreinadýralæknunum skipi stöðu aðstoðaryfirdýralæknis. Það verður að koma í ljós hvernig það þróast en það er sú tillaga sem hér er sett fram og samkomulag varð um í hinni síðari nefnd sem fjallaði um málið í fyrrasumar og fram á haustið.

Vissulega er það rétt sem hv. þm. bendir á að okkur tekst ekki við aðstæður okkar að skilja eins á milli embættisstarfanna og þeirra hlutverka sem dýralæknar okkar gegna eins og við hefðum kannski viljað. Það skapast af landfræðilegum aðstæðum og því hversu stór svæði en fámenn og með tiltölulega lítilli þjónustu sem geta illa staðið undir kostnaði er um að ræða. Mér finnst reyndar ekki hægt að segja að þetta sé í felum því að þetta er mjög augljóst og meira að segja var tekið fram í framsögunni að hér tækist okkur ekki að verða við þeim sjónarmiðum að skilja á milli. Hvað samkeppnislög koma svo til með að segja um þessa þætti og þá kannski ekki síður hugsanlegar kröfur um aðskilnað á annars vegar eftirliti og hins vegar almennri þjónustu samkvæmt alþjóðlegum reglum skal ég ekki segja um heldur en niðurstaða okkar varð sú að við hefðum ekki tök á því að gera þetta öðruvísi. Það eru að vísu ekki landfræðilega stærstu svæðin heldur þau þar sem byggð er þéttust og búskapur er mestur og skepnufjöldi er mikill, það eru þau svæði sem þó er reynt að aðskilja þetta í, þ.e. Gullbringu- og Kjósarsvæðið. Þar eru að vísu ekki mörg öflug bú en þar er mikið dýrahald, bæði mikil hrossaeign og gæludýrahald. Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi sem er sett í eitt er auðvitað mikið landbúnaðarsvæði og mikið af skepnuhaldi þar, og svo Suðurlandsumdæmið allt. Enda þótt svæðin séu að vísu færri, 3 af 13 en hin svæðin 10, þá er auðvitað mikill fjöldi búa og húsdýra sem um er að ræða á þessum svæðum.

Þá eru aðeins að lokum örfá orð um 11. og 12. gr., þær tvær greinar sem skipta gríðarlega miklu um skipan héraðsdýralæknisumdæma. Þar ræðst tillagan að verulegu leyti af þeirri þróun sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, þeirri staðreynd að erfitt er að manna þau svæði sem eru strjálbýlust og þó svo hafi vel til tekist á Vestfjörðum að undanförnu, það er að manna þau umdæmi, hefur það ekki alltaf verið svo. Oftar en ekki hafa þau svæði verið dýralæknislaus og af og til það svæði sem við þekkjum báðir vel til, við hv. þm., norðaustursvæðið, svæðið í Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu eða hluti þess, Þistilfjarðar-, Vopnafjarðar- og Bakkafjarðarsvæðið. Þar hefur oft verið erfitt að manna dýralæknisstöðurnar sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum og svo er einmitt nú í augnablikinu.

[17:00]

Hv. þm. velti því fyrir sér hvernig ætti að vera hægt að sinna vöktum skipulega eða skipuleggja vaktina á þessu svæði. Það er alveg ljóst að vegna gríðarlegra vegalengda er það alls ekki auðvelt. Það hefur þó verið reynt að sinna þessu á þennan hátt og þá með öflugri þjónustu í gegnum síma og það er einnig gert ráð fyrir því í 13. gr. að reynt verði að setja reglur í samráði við Dýralæknafélagið og Bændasamtökin um að taka þátt í greiðslu ferðakostnaðar í þessum landfræðilega stærstu héruðum.

Við höfum ekki sett okkur enn þá reglur um þetta sem hægt er að greina frá hér eða nú. Ég hef hins vegar átt viðræður við Bændasamtökin um þetta mál og á þetta atriði var sérstaklega bent í ályktun búnaðarþingsins síðasta sem fékk drögin að frv. eins og það var lagt fram í fyrravor. Síðasta búnaðarþing fékk þau frumvarpsdrög til umfjöllunar og gerði ekki sérstakar athugasemdir við þau en fól stjórn Bændasamtakanna að eiga viðræður við landbrn. og landbrh. um málið með sérstöku tilliti til þess hvernig staðið yrði að kostnaði og greiðslu ferðakostnaðar. Það mál verður því að taka frekar til umfjöllunar. Ef ég man rétt er auk þess getið um það einnig í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að gert sé ráð fyrir því að viðbótafjármuni þurfi. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í 13. gr. er heimild til landbúnaðarráðherra til að semja, við sérstakar aðstæður, við dýralækni um greiðslu hluta ferðakostnaðar. Mun þetta gert í því skyni að tryggja byggðum sem eru fjarri aðsetri dýralæknis reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu. Ætlunin er að setja reglur um þetta efni í samráði við yfirdýralækni, Dýralæknafélag Íslands og Bændasamtök Íslands. Áætlað er að þessi kostnaður verði ekki undir 2 millj. kr. árlega.``

Ég skal ekkert segja um hvar það endar. Hér er samt a.m.k. gert ráð fyrir því að verja nokkrum fjármunum til að sinna þessari þjónustu og búnaðarþingið lagði sérstaka áherslu á að þess yrði gætt.

Ég held að ég fari rétt með það að eins og sakir standa er dýralæknisþjónusta veitt a.m.k. til Þórshafnar frá Húsavík í augnablikinu. Dýralæknirinn sem situr á Húsavík sinnir núna því svæði. Ég verð að játa að ég hef það ekki alveg á hreinu hvernig er með Vopnafjarðarsvæðið. En álit nefndarinnar hinnar fyrri var að með því að gera ráð fyrir að hugsanlega sætu þrír læknar í þessu umdæmi sem kallað er Þingeyjarumdæmi, tveir héraðsdýralæknar og hugsanlega einn sjálfstætt starfandi dýralæknir og ef það í raun tekst er það þó einum lækni fleira en í dag. Það sitja tveir á Húsavík. Það er ekkert sem segir að búseta þessara lækna, fáist þeir til starfa, sé á einhverjum einum ákveðnum stað í hverju umdæmi. Hún getur auðvitað verið samkomulag við dýralækninn sjálfan, hugsanlega samkomulag milli þeirra, en ekki er þó talið ólíklegt og það kemur einhvers staðar fram hér í grg., að þeir muni frekar en hitt sækja um að sitja saman til að eiga auðveldara með ýmiss konar samræmingu og samstarf í þjónustu sinni og skipulag vakta og annað slíkt. En það verður reynslan að leiða í ljós. Við höfum hins vegar reynsluna af hinu að þó að umdæmin séu til staðar, þá er ekki alltaf tryggt að þau séu mönnuð og oft verið verra reyndar en kannski er ástatt í augnablikinu.

Þetta vildi ég nú láta koma fram, hæstv. forseti, þó ég hafi e.t.v. ekki svarað öllum fyrirspurnum. Ég sé að tími minn er að renna út. En þetta eru vangaveltur yfir þeim athugasemdum sem hv. þm. setti fram í ræðu sinni áðan.