Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:39:49 (3802)

1998-02-13 10:39:49# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir er svipað því frv. sem lagt var fram í fyrra. Þó hefur verið gerð á því ein mjög veigamikil, alvarleg og róttæk breyting frá síðasta þingi, breyting sem er ágreiningur um við kennarasamtökin eins og kom mjög lauslega fram í máli hæstv. menntmrh. áðan.

Eins og frv. var lagt fyrir á síðasta þingi hafði það einnig falið í sér ágreiningsatriði sem m.a. er gerð grein fyrir í bréfi sem kennarasamtökin, Kennarasamband Íslands og Hið íslenska kennarafélag, skrifuðu menntmrh. 17. apríl 1997. Þar kemur fram að kennarafélögin telja að tímabært hafi verið að endurskoða lögverndunarlögin og eru sátt við ýmsar breytingar sem frv. felur í sér, t.d. að nú verður kennslugrein eða sérsvið tilgreind í leyfisbréfi framhaldsskólakennara o.s.frv. en síðan gagnrýna kennarasamtökin það að í frv. er gert ráð fyrir því að gjaldfella uppeldis- og kennslufræðimenntun frá því sem nú er eða eins og segir í bréfi kennarasamtakanna, með leyfi forseta:

,,Það er eitthvað alvarlega bogið við þá ákvörðun að minnka kröfur um menntun framhaldsskólakennara í uppeldis- og kennslufræði á sama tíma og ný lög og reglugerðir um framhaldsskólann gera auknar kröfur til fagmennsku kennarans, t.d. í námsmati, mati á skólastarfi og skólanámskrárgerð.``

Í bréfi kennarasamtakanna er einnig vitnað til þeirra áforma sem þá voru uppi en nú eru orðin að veruleika um að sameina uppeldisháskólana og þar segir einnig um það mál, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þessarar þróunar að sameina uppeldisháskólana, sem er mjög jákvæð þróun, verður ofangreind breyting á lögverndunarlögum að teljast afar sérkennileg.`` Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Nú er skortur á kennurum með kennsluréttindi í raungreinum og ýmsum iðn- og tæknigreinum en það er ekki rétt að leysa það vandamál með því að gjaldfella menntun framhaldsskólakennara.``

Þetta er mál sem við ræddum talsvert á síðasta þingi en þó ræddum við það alveg sérstaklega að við framlagningu málsins og undirbúning myndaðist trúnaðarbrestur á milli kennarasamtakanna og hæstv. menntmrh. vegna þess að eftir að starfshópur hafði skilað af sér til ráðuneytisins og samtaka kennara breytti menntmrh. frumvarpsdrögunum einhliða, án þess að ræða það við kennarasamtökin, á mjög róttækan hátt að því er varðar þennan þátt sem lýtur að uppeldis- og kennslufræðimenntun framhaldsskólakennara. Um það mál sagði svo í bréfi kennarasamtakanna, með leyfi forseta:

,,Eftir að starfshópurinn hafði skilað af sér ákvað menntamálaráðherra Björn Bjarnason hins vegar að beita valdi sínu og breyta frumvarpsdrögunum á ofangreindan hátt. Þetta teljum við ekki lýðræðisleg vinnubrögð og hörmum þann trúnaðarbrest sem þessi ákvörðun ráðherra orsakar á milli kennarafélaganna og menntmrn. Við lítum þennan trúnaðarbrest sérstaklega alvarlegum augum í ljósi þess mikla og mikilvæga samstarfs sem nú stendur yfir við að hrinda í framkvæmd nýjum lögum um framhaldsskólann og endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskólastigið.``

Þessi alvarlegu gagnrýnisefni sem komu fram á síðasta þingi, sem lúta bæði að vinnubrögðum og að efni málsins, voru út af fyrir sig rækilega rædd þá og ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram koma í þessum bréfum að því er varðar vinnubrögð menntmrn. alveg sérstaklega því að ég tel að þau séu óeðlileg og óheppileg miðað við þann anda sem þarf að ríkja milli ráðuneytisins og kennarasamtakanna. Það er þeim mun brýnna nú en áður var að þessi andi sé góður vegna þess að það er í sjálfu sér mjög lítið af málefnum grunnskólans sem eftir er í menntmrn. og mér finnst einhvern veginn af viðbrögðum ráðherra, eiginlega við öllum vandamálum sem koma upp í málefnum grunnskólans í seinni tíð, að hann vilji helst henda grunnskólanum algerlega út úr ráðuneytinu og vilji ekkert nálægt grunnskólanum koma að öðru leyti en því að hann vill bersýnilega ráða því áfram hvernig námskráin verður skrifuð niður.

Að öðru leyti sýnist mér að grunnskólinn sé að verða hrein hornreka í menntmrn. og að flutningurinn til sveitarfélaganna sé notaður sem yfirvarp og skálkaskjól til að losa sig við allar skyldur gagnvart grunnskólunum nema þá að skrifa niður námskrá grunnskólans.

Eins og frv. lítur út núna er bætt um betur í þessu efni og gert er ráð fyrir því að kennaraskránni verði hent út úr lögunum og það eru vissulega stórtíðindi miðað við þær umræður sem farið hafa fram. Kennarasamtökin halda því t.d. fram að gengið hafi verið út frá því við flutning skólans yfir til sveitarfélaganna að kennaraskráin yrði áfram í ráðuneytinu, eða eins og segir í grein eftir varaformann Kennarasambands Íslands, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, í Kennarablaðinu fyrir nokkru, með leyfi forseta:

[10:45]

,,Í undirbúningnum fyrir flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga var gert ráð fyrir því að kennaraskráin yrði áfram í menntmrn. enda var ekki áætlaður kostnaður vegna hennar í tekjuyfirfærslunni. Því til sönnunar má benda á bréf til menntmrh. frá verkefnisstjórn um flutning grunnskólans og tillögur réttindanefndar. Hafi verið rætt um að menntmrh. héldi skrána ,,fyrst um sinn`` telja kennarafélögin að enn sé ekki komin full reynsla af flutningnum og því ástæða til að bíða með að taka ákvörðun um breytingu. Kennarafélögin líta á það sem brot á samkomulagi um flutninginn ef ekki er tryggt að kennaraskráin verði með óbreyttum hætti.``

Þetta var úr grein eftir varaformann Kennarasambands Íslands, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur.

Í grein eftir þær Elnu Katrínu Jóndóttur og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur í sama blaði er fjallað um þessi mál mjög rækilega og þar er sagt frá því að það fyrsta sem kennarasamtökin fréttu af þessum áformum menntmrh., að henda kennaraskránni út úr ráðuneytinu, var í fréttabréfi menntmrn. Það var ekki þannig að haft væri samband við kennarasamtökin og þau látin vita af því að þetta væri hugmyndin heldur var byrjað á því að senda það út í fréttabréfi menntmrn., eða eins og segir í grein þeirra Elnu Katrínar Jónsdóttur og Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, með leyfi forseta:

,,Í fréttabréfi menntmrn. í des. sl. er skýrt frá því að ráðuneytið muni hætta að halda kennaraskrá fyrir grunn- og tónlistarskóla frá og með 1. janúar 1998 en starfsmenn ráðuneytisins fá tíma til loka febrúar til að ganga frá gögnum og færa inn upplýsingar sem bárust fyrir áramót. Þá segir orðrétt í fréttinni [og er vitnað í fréttabréf menntmrn.]: ,,Að því loknu er gert ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök kennara taki við kennaraskránni og haldi henni við.```` --- Síðan segir í grein þeirra stallsystra:

,,Hvorki Samband íslenskra sveitarfélaga né kennarafélögin hafa fallist á að taka við kennaraskránni enda hefur aldrei verið formlega farið fram á það, a.m.k. ekki við kennarafélögin enda eru þau ekki rekstraraðili skólanna.``

Síðar segir í sömu grein, með leyfi forseta:

,,Í fréttabréfi menntmrn. er einnig sagt frá því að námsmatsnefndin muni flytjast úr ráðuneytinu. Skipan hennar og verksvið er bundið í kjarasamningum, nánar tiltekið í grein 1.3.2.1.2, en þar segir að námsmatsnefnd skuli skipuð`` eins og þar greinir.

Af þessu tilefni og út af einhliða ákvörðunum hæstv. menntmrh. og undarlegum aðferðum við að tilkynna kennurum þær ákvarðanir settu kennarafélögin fram kröfur til menntmrn. að það ,,sendi öllum kennurum og skólastjórum stöðu yfir stigamat samkvæmt kennaraskránni eins og hún var 1. janúar. sl. og gefi þeim jafnframt tíma til að gera athugasemdir. ... Kennarafélögin ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fóru fram á sérstakan fund um kennaraskrána og þá ákvörðun að vísa námsmatsnefndinni út úr ráðuneytinu. Sá fundur var haldinn þriðjudaginn 20. janúar sl. Á fundinum féllst menntmrn. á ofangreindar kröfur kennarafélaganna og jafnframt á að taka við upplýsingum um viðbótarnám til 1. mars nk. Ráðuneytið er enn fremur tilbúið að skipa áfram oddamann í námsmatsnefndinni.

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um vörslu kennaraskrárinnar eftir 1. mars nk.``

Þetta var úr grein Elnu Katrínar Jónsdóttur og Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur í Kennarablaðinu.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið í dag frá kennarasamtökunum eru í gangi samningaviðræður um hvernig verður farið með þessa kennaraskrá og þeim viðræðum er ekki lokið. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst að stöðugt sé verið að stofna þeirri gríðarlegu vinnu sem fram hefur farið í menntmrn., hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga og hjá kennarasamtökunum í hættu með þeim undarlegu vinnubrögðum sem tíðkast gagnvart kennarasamtökunum í seinni tíð. Aftur og aftur eru teknar einhliða ákvarðanir. Nefndarálitum er breytt áður frumvarpsdrög eru lögð fyrir Alþingi. Aldrei er talað við þá aðila sem semja þau frumvarpsdrög heldur er þeim breytt einhliða án þess að tala við nokkurn mann. Auðvitað er það þannig að ráðherrann hefur valdið og hann leyfir kennurunum svo sannarlega að finna að hann hefur valdið í þessum málum.

Í öðru lagi er mjög veigamiklum atriðum, sem kennarar telja jafnvel að hafi verið gengið út frá sem forsendu flutningsins til sveitarfélaganna, einnig breytt og tilkynnt um það í fréttabréfum menntmrn. án þess að talað sé um það við kennarana.

Í þriðja lagi er einnig athyglisvert að þetta frumvarp skuli vera lagt fram á Alþingi og mælt fyrir því af hæstv. menntmrh. í þessum sal án þess að gera grein fyrir því að samningaviðræður standi yfir við kennarasamtökin um þessi mál. Ég vil að lokum nota tækifærið til að inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort hann telji ekki óhjákvæmilegt að afgreiðsla þessa máls bíði a.m.k. í þessari virðulegu stofnun þangað til niðurstöður fást í þeim efnum hvað verður um kennaraskrána, hver heldur hana og verður sátt um meðferð hennar á milli ráuneytisins, kennarasamtakanna og Sambands ísl. Sveitarfélaga. Samband ísl. sveitarfélaga telur sig ekki hafa gengið frá málum í einstökum atriðum að því er kennaraskrána varðar.

Ég tel að þau fljótfærnislegu og valdsmannslegu vinnubrögð í menntmrn. gætu stofnað flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna í verulega hættu og það ber að harma, því að í grófum dráttum hefur sú tilfærsla gengið allvel og greinilegt að sveitarfélögin eru að laga sig að þessum nýja veruleika. En eftir stendur þessi spurning: Er það ætlun menntmrh. að knýja þetta mál í gegnum þingið án þess að ákvarðanir hafi verið teknar um það í sátt við kennara og aðra og sveitarfélögin hvað verður um kennaraskrána og hver heldur hana? Að öðru leyti hlýt ég að vísa til þeirrar meðferðar sem þetta mikilvæga mál hlýtur að fá í hv. menntmn.