Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:53:54 (3804)

1998-02-13 10:53:54# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:53]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessar ábendingar en ég tók eftir því að hann sagði frá fundum sínum með Hinu ísl. kennarafélagi. Hann nefndi ekki að hann hefði rætt sérstaklega við Kennarasamband Íslands um þau mál sem hér er verið að ræða um. Það er auðvitað bersýnilegt að það er fyrst og fremst Kennarasamband Íslands sem þessi kennaraskrá og spurningin um hana snýr að. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fram komi hjá hæstv. ráðherra svar við þeirri spurningu: Ætlast hann til þess af Alþingi að það afgreiði þetta frv. án þess að samkomulag, skýrt samkomulag, liggi fyrir við alla aðila, bæði kennarasamtökin og Samband ísl. sveitarfélaga um málið?

Í öðru lagi varðandi stöðu grunnskólans í menntmrn. þá ætla ég hvorki að endurtaka það sem ég sagði né mótmæla því sem hæstv. ráðherra sagði því þar stendur bara fullyrðing gegn fullyrðingu og hefur ekkert upp á sig að halda þeirri þrætu áfram. Ég bendi honum hins vegar á að tala við kennara vegna þess að það er útbreidd óánægja í kennarastéttinni og skólum landsins með vinnubrögð ráðuneytisins í þessum efnum.