Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:55:02 (3805)

1998-02-13 10:55:02# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef rætt þessi mál um kennaraskrána við Eirík Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, og honum hefur alveg verið ljós minn hugur í þessu máli. Ég hef einnig rætt þetta við forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga og tel ég að komin sé niðurstaða í málinu sem er ásættanleg fyrir alla aðila. Það er sjálfsagt fyrir hv. menntmn. að kynna sér stöðu málsins. Ráðuneytið er að undirbúa útsendingar á þeim bréfum sem hv. þm. las um í sínum upplestri úr gögnum frá kennarasamtökunum og um stöðu kennaranna.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég er mjög undrandi að heyra þessar dylgjur um menntmrn. og grunnskólann án þess að það sé sagt fullum fetum hvar það er sem menn telja að ráðuneytið hafi brugðist og það sé útbeidd skoðun meðal kennara að menntmrn. hafi brugðist þeim eða grunnskólanum eftir að grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Ég verð að skora á hv. þm. að færa betri rök fyrir máli sínu svo að unnt sé að bregðast við, en ekki tala í hálfkveðnum vísum um þá hluti og benda ekki á nein atriði sem valda þessum leiðindum eða tortryggni í garð ráðuneytisins meðal grunnskólakennara. Ég hef ekki orðið var við þetta. Ég er í góðu sambandi við kennara, bæði framhaldsskólakennarar og grunnskólakennarar hafa greiðan aðgang að mér, þannig að það kemur mér í opna skjöldu að heyra þennan málflutning hv. þm.