Listskreytingar opinberra bygginga

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:17:47 (3810)

1998-02-13 11:17:47# 122. lþ. 67.2 fundur 446. mál: #A listskreytingar opinberra bygginga# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Lög um listskreytingar voru fyrst sett hér árið 1982. Þau voru sett að frumkvæði þáv. menntmrh., Ingvars Gíslasonar. Hann beitti sér fyrir því að frv. um þau efni yrði að lögum við óvenju erfiðar aðstæður. Sjálfstfl. var mjög andvígur því á þeim tíma, beitti sér gegn frv. og reyndi það sem hann gat til að tefja málið. Sem betur fer tókst ekki að spilla fyrir því og eyðileggja. Þetta varð að lögum.

Hins vegar er það rétt sem fram kom hér að erfiðlega hefur gengið að fá menn til þess að standa við þetta 1% viðmiðunarákvæði. Raunar var ég aldrei viss um að það væri mjög skynsamlegt að gera það nákvæmlega þannig. Auðvitað verður ákvörðun um fjármuni til listskreytinga að fylgja ákvörðun um fjármuni til viðkomandi byggingar. Þannig liggur málið eiginlega.

Af frv., eins og það lítur út, virðist mér að þar sé ákveðin uppgjöf. Ekki er aðeins talað um listskreytingar heldur einnig umhverfi. Við frágang á opinberum byggingum þarf oft að setja í nánasta umhverfi viðkomandi bygginga talsverða fjármuni, og hefði stundum betur verið lagt í það eins og menn sjá t.d. í kringum Kennaraháskólann og Sjómannaskólann. Ég óttast að kröfur um að ganga snyrtilega frá umhverfi í kringum opinberar byggingar verði til þess að lítið fari til listskreytinganna. Ég sé í umsögn fjmrn. um þetta mál að fjmrn. veit í raun og veru ekki hvernig það á að taka á því. Ég skil umsögn fjmrn. þannig að í þetta verkefni fari nú 8 millj. kr. Ráðuneytið gerir hins vegar ráð fyrir því að helmingurinn af þeirri upphæð sem áætlað er 1% af kostnaði við allar opinberar byggingar, þ.e. milli 9 og 16 millj. kr., fari til listskreytinga og það sem eftir er til umhverfismála. Mér sýnist að þessi áætlun fjmrn. sé algjörlega skot út í loftið. Í raun og veru geti menn ekkert sagt til um hvaða afleiðingar þetta frv. hefur ef það verður samþykkt.

Það er einnig sérkennilegt að hugsa um þetta frv. út frá því að menntmrh. ræður litlu um opinberar byggingar. Það eru eingöngu menningarbyggingarnar sem hann hefur um að segja og síðan eru aðrar byggingar meira og minna á vegum annarra, fyrir utan framhaldsskólana í seinni tíð. Að öðru leyti eru þetta ekki síst heilsugæslustofnanir og sjúkrahús sem hér er talað um og auðvitað geysilega mikilvægt að þær fylgi með.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. um það hvernig hann sjái þetta fyrir sér. Gerir hann ráð fyrir því að menn verði bundnir af því að setja peninga í listskreytingar? Eða geta þeir alltaf valið um? Þá óttast ég að valið yrði að setja peningana í lóðina, ef ég þekki okkur rétt. Ég gæti best trúað því miðað við það hvernig aðstæður eru oft þegar lokið er við smíði opinberrar byggingar.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann veit um afstöðu samtaka listamanna varðandi þetta mál.

Hæstv. fyrrv. menntmrh., Ólafur G. Einarsson, skipaði nefnd til að fjalla um þetta mál á síðasta kjörtímabili. Það var ekki síst í ljósi þeirrar erfiðu reynslu menntmrh. af því að fá menn til að standa við þetta 1%. Það á ekki við um síðustu ríkisstjórn frekar en ýmsar aðrar. Það hefur alltaf gengið illa. Í þeirri nefnd voru fulltrúar frá samtökum listamanna. Ég hugsa að það hefði verið til bóta ef álit þeirra hefði að einhverju leyti verið tengt frv., t.d. sem fylgiskjal. En þar sem þeirra álit fylgir ekki þá ber ég þessa spurningu fram við hæstv. menntmrh.