Listskreytingar opinberra bygginga

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:28:09 (3812)

1998-02-13 11:28:09# 122. lþ. 67.2 fundur 446. mál: #A listskreytingar opinberra bygginga# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:28]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá útskýringu á 1. gr. frv. varðandi umhverfi sem mér finnst benda til að kannski þurfi að skrifa hana aðeins skýrar. Ég er sammála þeirri útskýringu hæstv. menntmrh. Hins vegar þarf að vera glöggt hvað átt er við.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að þeirri stefnu sem mótuð var á síðasta kjörtímabili, að hafa sérstakt samráð við listamenn í sambandi við frágang á þessa frv. hafi ekki verið fylgt. Ég held að það sé þeim mun nauðsynlegra að menntmn. kalli talsmenn listamanna fyrir áður en frá málinu verður gengið. Ég óttast að í rauninni sé ekki framför í frv. heldur afturför og uppgjöf. Og þó að menn geti gagnrýnt það að Alþingi hafi lítið staðið við þetta eina prósent til listskreytinga í opinberum byggingum, t.d. úti á landi, þá skiptir samt máli að svona ákvæði skyldi hafa orðið til í lögum. Það hjálpaði menntmrh. til þess að ýta á að þarna væru teknar mikilvægar ákvarðanir.

Ég óttast því að með því að taka þetta út hafi fjmrn. eða þeim sem fara með yfirstjórn opinberra framkvæmda verið afhent málið. Þar með vantar hið menningarlega sjónarhorn að málinu. Ég tel að það gæti verið til bóta að skrifa hinar menningarlegu áherslur og kröfur skarpar inn í frv. en nú er gert ef menn vilja ekki líta á það sem hreina uppgjöf að breyta lögunum eins og þar er gert ráð fyrir.