Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:30:13 (3813)

1998-02-13 11:30:13# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til íþróttalaga var lagt fram sem stjórnarfrv. á 121. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Ég lagði þá frv. fram með því fororði að það færi til athugunar og skoðunar í nefnd um eflingu íþróttastarfs og byggði þá tillögu mína á því að ég vænti þess að samþykkt yrði á Alþingi, 121. þingi, till. til þál. sem lá fyrir og það gekk eftir. Nefnd starfaði síðan í sumar um eflingu íþróttastarfs á grundvelli þáltill. og hún fjallaði um frv. meðal annarra starfa sinna sem eru mjög mikilvæg og liggja fyrir í ítarlegri skýrslu sem kynnt var þingmönnum fyrir jólin. Einnig læt ég þess getið að á síðasta sumri og síðasta ári starfaði önnur nefnd á grundvelli þáltill., þ.e. nefnd sem kannaði hlut kvenna í íþróttum og sú nefnd skilaði einnig mjög athyglisverðri skýrslu um málefnið sem hún fjallaði um.

Á síðasta ári var því fjallað ítarlega um málefni íþrótta á vettvangi menntmrn. í þessum tveimur nefndum og þær skýrslur sem nefndirnar unnu liggja nú fyrir og ég vænti þess að hv. menntmn. taki skýrslurnar til athugunar í meðferð sinni á þessu frv. til íþróttalaga. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir hv. menntmn. að kynna sér skýrslurnar. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um stöðu íþróttamála, stöðu kvenna í íþróttum og stöðu íþróttamála almennt og hvernig best væri að því staðið að efla íþróttastarfið með auknu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar. Ég skora á hv. nefnd að hún taki skýrslurnar til meðferðar samhliða því sem hún fjallar um frv. til íþróttalaga þannig að menn fái heildstæða mynd af stöðu íþróttamálanna og nefndin leggi mat á það og láti þess getið í áliti sínu, ef ég má fara fram á það, hvernig hún telur best staðið að þessum málum í ljósi þessara skýrslna þegar hún fjallar um frv. Íþróttahreyfingin væntir mikils af samstarfi við Alþingi og ríkisvaldið um málefni íþróttanna og það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að um sameiginlegt átak allra stjórnvalda í landinu og hinna frjálsu íþróttahreyfinga verði að ræða.

Frv. hefur ekki tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram á síðasta þingi. Ef ég get um þær breytingar sem helstar eru er lagt til að fjölgað verði í íþróttanefnd um tvo, annars vegar samkvæmt tilnefningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og hins vegar samkvæmt tilnefningu íþróttakennaraskorar Kennaraháskóla Íslands en auk þessara aðila tilnefna Íþrótta- og Ólympíusamband og Ungmennafélag Íslands fulltrúa í nefndina en formaður íþróttanefndar er skipaður af menntmrh. án tilnefningar. Mér finnst þetta mikilvæg breyting á íþróttanefndinni, að hún nái til sveitarfélaganna og nái einnig til kennaraskorarinnar í Kennaraháskóla Íslands þar sem farið er með málefni íþrótta. Eins og við vitum var íþróttakennslan færð á háskólastig með lögunum um Kennaraháskóla Íslands sem tóku gildi 1. jan. sl.

Annað atriði sem hefur verið talsvert mikið til umræðu er staða Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands annars vegar og Ungmennafélags Íslands hins vegar. Á grundvelli þess álits sem kom frá nefndinni um eflingu íþróttastarfs hefur 5. gr. frv. verið breytt frá því að hún var lögð fram og kynnt á síðasta þingi og hún hljóðar nú þannig:

,,Íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar. Ungmennafélag Íslands eru sjálfstæð félagasamtök á sviði íþrótta.``

Ég lít þannig á að með þessu orðalagi sé komin á góð sátt um þessa grein og að menn velkist ekki í vafa um það, ef það hefur verið í huga einhverra vegna orðalags á greininni eins og hún var lögð fram á síðasta þingi, hvernig á þessum málum er tekið og um þetta efni hefur náðst góð samstaða og náðist í nefndinni um eflingu íþróttastarfs og ég vona að á hinu háa Alþingi verði menn einnig sammála um að sú niðurstaða, eins og orðalagið er í 5. gr. núna, sé viðunandi miðað við það mál sem fjallað er um í greininni.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er fyrir mig að fara yfir einstök atriði í frv. Ég gerði það við framlagningu þess á síðasta þingi en þó vil ég geta nokkurra helstu breytinganna, þ.e. að fellt er brott ákvæði um íþróttafulltrúa í menntmrn. en gert ráð fyrir að ráðuneytið fari sem fyrr með yfirumsjón íþróttamála af hálfu ríkisins. Fulltrúum í íþróttanefnd er fjölgað úr þremur í fimm og hlutverki nefndarinnar er breytt nokkuð. Verksvið Íþróttasjóðs er rýmkað og gert ráð fyrir að úthlutun fjár úr honum sé í höndum menntmrh. að fengnum tillögum íþróttanefndar. Ákvæði er varða tilhögun á aðstöðu til íþróttakennslu í skólum eru felld brott en skírskotað til skólalöggjafar.

Gert er ráð fyrir lögfestingu heimildar fyrir aðild ríkisins að samningum um stofnun og starfsemi íþróttamiðstöðva í samvinnu við sveitarfélög og íþróttasamtök, enda miðist þjónusta stöðvanna við landið allt. Hér er t.d. veitt með þessu lagaheimild fyrir ríkið að standa að vetraríþróttamiðstöðinni á Akureyri sem er að hefja starfsemi sína og samþykkt hefur verið að veita fé til á næstu árum til uppbyggingar aðstöðu á Akureyri í samræmi við reglugerð og tilgang þeirrar samvinnu sem stofnað hefur verið til.

Menntmrh. er ætluð forganga um setningu reglna um öryggisráðstafanir við íþróttamannvirki. Þetta er mjög brýnt ákvæði. Felld eru brott ýmis sérstök ákvæði er tengjast styrkveitingum, m.a. til íþróttamannvirkja en gert ráð fyrir heimild til að setja ákveðin skilyrði fyrir styrkveitingum úr Íþróttasjóði í reglugerð.

Þetta eru meginatriðin sem ég stikla á, herra forseti, án þess að fara frekar út í frv. eða rekja einstök atriði þess.

Ég vil að lokum, herra forseti, gera grein fyrir því að eftir að nefndin um eflingu íþróttastarfs skilaði tillögum sínum og áliti í desembermánuði sl. hefur ráðuneytið stofnað til viðræðna við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, m.a. um afreksmannasjóð og hvernig ríkisvaldið gæti komið að því að efla afreksmannasjóð fyrir íþróttamenn. Einnig hefur því verið beint til íþróttanefndar af hálfu ráðuneytisins að hún fjallaði um hugmyndir varðandi þjóðarleikvanga sem er ein af hugmyndunum sem reifaðar eru í skýrslunni.

Það er því verið að vinna að ýmsum málefnum samkvæmt tillögum nefndarinnar um eflingu íþróttastarfs og ég ítreka það sem ég sagði áður, herra forseti, að mér þætti mjög æskilegt ef hv. menntmn. tæki skýrslurnar til athugunar við afgreiðslu málsins.

Herra forseti, ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til að frv. verði vísað til hv. menntmn. og 2. umr.