Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:42:13 (3817)

1998-02-13 11:42:13# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:42]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég met það svo að það frv. sem hér liggur fyrir ef að lögum verður myndi í grófum dráttum hæfilegan ramma um íþróttastarf í landinu. Það er tiltölulega hófsamt hvað varðar bein fyrirmæli eða afskipti af hvernig slíkt skal fara fram og mér sýnist að eigi að síður sé hér inni flest af því sem þyrfti að vera til að allir fái notið sín, bæði frjáls félagasamtök og einnig er ákveðinn stuðningur við starf hins opinbera að íþróttamálum.

Ég met það svo, herra forseti, að ákvæði 2. gr. sem áðan var getið um sé mikilvægt, þ.e. hvert samstarfi hins opinbera við hina frjálsu íþróttahreyfingu skuli beint. Það hefur verið vilji opinberra aðila, og ég þekki það frá sveitarfélögunum, til að beina fjármagni til íþrótta sérstaklega að því starfi sem fram fer með börnum og ungmennum. Ég lít svo á að ákvæðið inni í frv. muni, ef að lögum verður, verða ákveðinn styrkur við þá stefnumótun sem hefur falist í því.

Sömuleiðis vil ég fara aðeins inn á það sem getið var um áðan, sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir gat um, og snýr að stöðu kvenna í íþróttum. Þær upplýsingar sem við höfum verið að fá um stöðu þeirra, hvort sem er í gegnum skýrslur eða eftir öðrum leiðum, eru þannig að maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort inn í ramma um íþróttastarf í landinu þurfi ekki að koma jafnréttisákvæði. Það er alveg ljóst að einhverra hluta vegna hefur telpum og drengjum verið gert mjög mishátt undir höfði innan íþróttahreyfingarinnar, reyndar ekki bara innan íþróttahreyfingarinnar því að við sjáum það líka á allri umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum og annars staðar, að því sem karlarnir eru að gera er lyft mun hærra en því sem konur eru að gera. Þess vegna, herra forseti, velti ég því fyrir mér og við munum áreiðanlega skoða það í umfjöllun hv. nefndar hvort ástæða er til að setja jafnréttisákvæði inn í löggjöfina, hvort það er nauðsynlegur hluti af ramma um íþróttastarfið til að tryggt sé að tekið sé tillit til þeirra þátta sem við teljum mikilvæga.

[11:45]

Hér er fjallað um Íþróttasjóð sem hingað til hefur verið skipt af fjárln. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, er það Íþróttasjóður sem veitir fjárframlög innan þess liðar sem heitir 02-989 á fjárlögum ríkisins. Vegna þess hvernig gildandi lög gera ráð fyrir að úthlutað sé úr sjóðnum kemur hann ekki fyrir sem slíkur á fjárlögum heldur einungis skiptingin og ég velti því fyrir mér hvort þar sé um að ræða fjármuni úr Íþróttasjóðnum, en mér sýnist að samanlagt sé um að ræða 14 millj. og 800 þús. kr. Það eru sannarlega ekki miklir peningar en það væri áhugavert að vita hvort að hér er um þennan sama sjóð að ræða.

Annað atriði langar mig að nefna. Það er áhugavert að bera saman gildandi lög og það frv. til íþróttalaga sem hér liggur fyrir. Í gildandi lögum er í 1. gr. stefnt að því að auka ekki bara heilbrigði manna og hreysti, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur einnig líkamsfegurð, vinnuþrek og táp. Þetta er afskaplega hátimbrað orðalag sem hér kemur fyrir og ég get svo sem skilið að menn treysti sér ekki lengur til þess að stefna að slíku í löggjöf, en óneitanlega er orðalagið skemmtilegt.

Í öðru lagi, herra forseti, og það er nú aðeins alvarlegra, væri fróðlegt að fá að vita meira um 5. gr. Sátt milli hverra hefur náðst þar? Fyrir þann sem er ekki innvígður í þá deilu sem þarna hefur nú verið leidd til einhverra lykta er satt að segja síðasti málsliðurinn, þ.e. sá að Ungmennafélag Íslands séu sjálfstæð félagasamtök á sviði íþrótta, eins og hortittur í þessari grein. Maður áttar sig ekki alveg á því af hverju þurfi að taka sérstaklega fram í íþróttalögum að Ungmennafélag Íslands séu sjálfstæð félagasamtök á sviði íþrótta. Það er ljóst og hér kemur fram að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og auðvitað þarf að taka það fram. Maður getur jafnvel velt því fyrir sér hvort það þyrfti að taka fleira fram eins og er í gildandi lögum, um ábyrgð og hlutverk Íþrótta- og Ólympíusambandsins. En ég átta mig ekki alveg á þessari setningu þarna sem lýtur að ungmennafélaginu. Ég ímynda mér, miðað við þau orð sem hér voru látin falla um sátt einhverra, að kannski sé þetta orðalag hugsað sem nokkur sárabót. En ég átta mig ekki á deilunni þannig að það væri fróðlegt ef hægt er á þessum vettvangi að útskýra það nánar, ella verður eftir því leitað á vettvangi hv. nefndar.

Ég held að það sé alveg rétt sem hér hefur verið nefnt að það er gagnlegt fyrir hv. menntmn. að kynna sér og fara sameiginlega yfir þær skýrslur sem komu nú í desember um stöðu íþróttamála og stöðu kvenna í íþróttamálum og ég hlýt að líta svo á að ef hv. nefnd sýnist að efni þeirra gefi tilefni til breytinga á þessu frv. muni nefndin geta náð samstöðu um slíkt.