Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:52:06 (3821)

1998-02-13 11:52:06# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:52]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með það að komið skuli vera fram frv. til íþróttalaga. Gildandi íþróttalög eru komin nokkuð til ára sinna. Þau voru upphaflega sett árið 1940 og þeim breytt nokkuð árið 1956 og aftur árið 1972. Síðan hefur nokkrum sinnum staðið til að setja ný íþróttalög og m.a. verið skipaðar nefndir til að undirbúa slíka lagasmíð, síðast árið 1992. Ekki leiddi það nefndarstarf til þess að frv. til íþróttalaga liti dagsins ljós á Alþingi. En á síðasta þingi flutti hæstv. menntmrh. hins vegar slíkt frv. sem hér er endurflutt lítillega breytt.

Á þeim aldarfjórðungi sem liðið hefur síðan síðasta breyting var gerð á íþróttalögum hefur margt breyst á þessu sviði og því mjög tímabært að færa íþróttalögin að nútímanum. Hlutverk íþrótta í þjóðlífinu eykst stöðugt eins og sést best á síauknum fjölda þeirra sem leggja stund á íþróttir í einhverri mynd. Íþróttahreyfingin er langfjölmennust félagasamtaka landsins og starfsemi hennar spannar yfir vítt svið, ekki bara leiki og keppni heldur fjölþætt félagsstarf og ekki síst öflugt forvarnastarf.

Á undanförnum árum hefur frítími fólks aukist og jafnframt fer ungt fólk seinna út á vinnumarkaðinn en áður. Af þessu leiðir að tómstundir og tómstundastarf verður sífellt ríkari þáttur í lífi landsmanna. Skilningur á gildi íþrótta sem þætti í heilbrigðum og hollum lífsháttum eykst stöðugt og æ fleiri átta sig á því að iðkun íþrótta, hvort heldur er til keppni eða afþreyingar, skiptir miklu máli fyrir vellíðan, félagsþroska og uppeldi. Það er ástæða til að vekja athygli á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála árið 1992 og vitnað er til í athugasemdum með þessu frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að þeir unglingar sem iðka íþróttir og eru í góðri líkamlegri þjálfun eru ekki eins líklegir til að reykja, drekka eða neyta fíkniefna og þeir sem ekki ástunda íþróttir eða eru í lélegri þjálfun. Þeir segjast að jafnaði fá hærri einkunnir í skóla, telja sig betur undirbúna fyrir kennslustundir og líður betur í skólanum.``

Ég held að þessar niðurstöður segi okkur skýrt að öflugur stuðningur við íþróttastarfið í landinu er einhver besta varnaraðgerð sem við eigum gegn sívaxandi notkun vímuefna.

Í 1. gr. frv. er hugtakið íþrótt skilgreint sem hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Það skiptir miklu að vel sé staðið að íþróttastarfinu í landinu og að lagarammi þessarar starfsemi sé skýr án þess þó að ríkið sé þar með of mikil afskipti. Og þetta frv. er einmitt þeirrar gerðar.

Meðal þeirra breytinga sem frv. gerir ráð fyrir er fjölgun fulltrúa í íþróttanefnd úr þremur í fimm, auk þess sem hlutverki nefndarinnar er breytt nokkuð eins og hæstv. menntmrh. gat um í ræðu sinni. Ég er almennt þeirrar skoðunar að nefndir séu því skilvirkari sem þær eru fámennari. Samt tel ég þessa breytingu til bóta og að það muni styrkja starf nefndarinnar að fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og annar frá íþróttakennaraskor Kennaraháskólans taki þar sæti, en til þessa hefur nefndin verið skipuð fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ ásamt formanni sem tilnefndur er af ráðherra.

Vorið 1997 samþykkti Alþingi till. til þál. um eflingu íþróttastarfs sem ég flutti ásamt níu öðrum hv. þingmönnum úr öllum þingflokkum. Þar var ályktað um skipun nefndar til að gera tillögu um að efla íþróttahreyfinguna og samskipti ríkisvalds og annarra opinberra aðila við hreyfinguna og stuðning við íþróttastarfið í landinu. Þessi nefnd, sem hæstv. menntmrh. skipaði undir forustu Ásgerðar Halldórsdóttur, vann mjög gott starf og skilaði ítarlegri skýrslu með fjölmörgum tillögum í desember sl. Ég vil taka undir það sem hæstv. menntmrh. sagði um ágæti þessarar skýrslu. Það kemur fram í athugasemdum með þessu frv. að tillögur nefndarinnar hafi verið hafðar til hliðsjónar.

Í 13. gr. frv. er menntmrh. heimilt að eiga aðild að samningum um stofnun og starfsemi íþróttamiðstöðva í samvinnu við sveitarfélög og íþróttasamtök, enda miðist þjónusta stöðvanna við landið allt en fjárhagsleg aðild ríkisins að slíku samstarfi verði háð fjárveitingum í fjárlögum. Ein af ábendingum nefndarinnar sem fram kemur í skýrslu hennar um eflingu íþróttastarfs, er einmitt að komið verði á samvinnu ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingar um byggingu þjóðarleikvanga í ýmsum greinum.

Þegar verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var breytt um áramótin 1989/1990 yfirtóku sveitarfélögin það verkefni að byggja íþróttamannvirki, en fram að þeim tíma hafði ríkið veitt stuðning í þessu augnamiði með framlögum úr Íþróttasjóði ríkisins að því tilskildu að mannvirkin uppfylltu ákveðnar alþjóðlegar kröfur. Ekki voru þó allir endar hnýttir því að hvert sveitarfélag lagði áherslu á að koma upp íþróttaaðstöðu fyrir íbúa sína og það var í hendi hvers sveitarfélags hvaða kröfur um staðla hvert íþróttamannvirki uppfyllti.

Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur vissulega verið byggð upp myndarleg íþróttaaðstaða víða um land en hvergi var hvatning fyrir einhvern aðila til að byggja íþróttamannvirki sem uppfylltu kröfur samkvæmt alþjóðlegum stöðlum fyrir landskeppnir eða alþjóðlegar keppnir. Íþróttahreyfingin hefur þurft að standa frammi fyrir stórum vandamálum af þeim sökum, t.d. þegar heimsmeistaramótið í handknattleik fór hér fram árið 1995, þó að þau mál væru að lokum farsællega leyst eftir nokkrum krókaleiðum. Með lagasetningunni frá árinu 1989 voru sérsambönd íþróttahreyfingarinnar nánast skilin eftir á vergangi því að hvergi var ákvæði eða hvatning til sveitarfélaganna til að leysa úr brýnni þörf fyrir íþróttamannvirki sem uppfylla skilyrði fyrir landskeppnir og alþjóðleg mót.

Hér hillir hins vegar undir lausn á þessu vandamáli, en í 13. gr. frv. er menntmrh. heimilt að eiga aðild að samningum um stofnun og starfsemi íþróttamiðstöðva í samvinnu við sveitarfélög og íþróttasamtök, enda miðist þjónusta stöðvanna við landið allt.

Í skýrslu nefndarinnar er þjóðarleikvangur skilgreindur sem íþróttaaðstaða sem tengist sérstaklega ákveðinni íþróttagrein. Hér er um íþróttamannvirki að ræða sem þegar er til staðar eða eftir á að reisa. Hver íþróttagrein sem hér á landi er stunduð fær því fastan samastað eða þjóðarleikvang. Einkenni þessa staðar væri að þar væru fullkomnar aðstæður til keppni og æfinga viðkomandi greinar. Hér er því um löglegar aðstæður að ræða sem nota má til keppni á landsmótum eða mótum landa á milli, Evrópukeppni, heimsmeistarakeppni o.s.frv. Í dag má segja að þjóðarleikvangar séu til staðar fyrir nokkrar íþróttagreinar, t.d. vetraríþróttamiðstöðin á Akureyri fyrir vetraríþróttir, Laugardalsvöllurinn fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir og Laugardalshöllin fyrir handknattleik og körfuknattleik. En sambærileg aðstaða er ekki til staðar fyrir ýmsar aðrar íþróttagreinar, t.d. ekki 50 metra löng viðurkennd, yfirbyggð keppnislaug fyrir sundíþróttina eða aðstaða til stórmóta í frjálsum íþróttum innan húss, sem vissulega væri gaman að hafa til staðar nú þegar við höfum eignast heimsmeistara á því sviði. Við erum fámenn þjóð sem verðum að sníða okkur stakk eftir vexti en smátt og smátt mun okkur vafalaust takast að skapa þessar aðstæður fyrir fleiri íþróttagreinar.

[12:00]

Í 6. gr. frv. er kveðið á um að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands annist skiptingu landsins í íþróttahéruð og breytingu á þeim, en í gildandi lögum annast íþróttanefnd þessa skiptingu í samráði við þessi fyrrnefndu íþróttasamtök. Búast má við talsverðri breytingu á skiptingu landsins í íþróttahéruð í kjölfar þeirrar miklu sameiningar sveitarfélaga sem nú á sér stað víða um land. Ég tel það eðlilegt að íþróttasamtökin sjálf skipti landinu í íþróttahéruð og tek undir það sem kemur fram í athugasemdum með frv., að hæpnar forsendur virðast fyrir því að lögskipa íhlutun ríkisvaldsins um það fyrirkomulag.

Ég vil eindregið hvetja alla þá sem hafa áhuga á íþróttum og gildi þeirra í nútímaþjóðfélagi til að kynna sér skýrslu nefndar um eflingu íþróttastarfs. Í skýrslunni er vakin athygli á að margt bendi til þess að nýrri öld muni fylgja enn hraðari breytingar en á þeirri öld sem nú er að líða. Stórstígar tækniframfarir munu eiga sér stað, aukið frjálsræði í viðskiptum og samskiptum og þessu fylgir að vinnutími verður styttri, frítími einstaklinga og fjölskyldna eykst og tómstundum á eftir að fjölga. Íþróttir eiga eftir að verða mun fyrirferðarmeiri en þær eru þar sem einstaklingurinn og fjölskyldan verða í brennidepli.

Í þjóðfélagi okkar sem annars staðar í heiminum eru afreksíþróttir afar vinsælt skemmtiefni og stór liður í samskiptum ríkja á alþjóðavettvangi. Fátt vekur meiri ánægju og athygli en þegar íslenskir íþróttamenn vinna góð afrek og frækna sigra á alþjóðavettvangi og hlutverk afreksíþrótta er einnig mikilvægt í þeim tilgangi að laða æskufólk að íþróttastarfi. Þetta sýnir vel hve samtvinnaðar afreksíþróttir eru öðru íþróttastarfi þar sem stjörnur afreksíþrótta eru fyrirmyndir æskufólks.

Það er rétt að minna á þátttöku barna og unglinga í íþróttum. Þar er fjöldinn mestur. Börnin og unglingarnir sækja ekki einungis í íþróttirnar heldur í þann félagsskap sem fylgir íþróttastarfinu. Þar fá þau að vinna að tómstundaiðju með félögum sínum auk þess sem þau fá bæði hvatningu og ánægju út úr starfinu. Umbunin er oft fólgin í þátttöku í leik og keppni að viðbættri þeirri gleði og ánægju sem fylgir því að gera sitt besta og ná persónulega góðum árangri. Slíkt eykur einnig sjálfsvirðingu og styrkir sjálfsmyndina. Þá er það einnig markmið að bæta líkamlegt atgervi, móta með sér nýjan lífsstíl sem felst í líkams- og heilsurækt og hollum lífsháttum. Þessi lífsstíll getur orðið einhver besta vörn unglingsins til að standast ýmsar freistingar sem verða á vegi æskumannsins. Oft og tíðum fylgir þessi lífsstíll einstaklingnum allt lífið, því hvað ungur nemur, gamall temur.

Nauðsynlegt er að hvetja til aukinnar þátttöku fullorðinna en flest bendir til að hún eigi eftir að aukast til muna frá því sem nú er. Slík aukning er í samræmi við þann skilning sem nú fer vaxandi á gildi líkams- og heilsuræktar.

Íþróttahreyfingin hefur á hendi veigamikið hlutverk því ljóst er að samfélagslegt gildi íþrótta er mikið. Hafa verður í huga að starf íþróttafélaga byggist að verulegum hluta á sjálfboðastarfi og eru nánast öll stjórnunarstörf hreyfingarinnar unnin í sjálfboðavinnu. Þá er reynt að stilla iðkendagjöldum í hóf til að sem flestir geti stundað íþróttir sem veldur því að mörg íþróttafélög berjast fjárhagslega í bökkum. Í þessu sambandi hefur komið fram áhugaverð stefna varðandi samstarf á sviði íþrótta. Hér er um að ræða samvinnu sveitarfélaga og skóla annars vegar og íþróttahreyfingar í nánu samstarfi við foreldra hins vegar. Við þetta þróunarstarf eru bundnar miklar vonir.

Á komandi öld er afar áríðandi að hver einstaklingur hafi til að bera þroska og hæfni til að velja og hafna því ýmsar freistingar munu verða enn áleitnari en nú er. Margt bendir til að vímuefni verði enn aðgengilegri og ódýrari en nú, auk þess sem auðveldara verði að nálgast þau. Þar sem vel er á málum haldið hefur það sýnt sig að öflugt íþróttastarf getur átt drjúgan þátt í að sporna við að börn og unglingar villist inn á braut vímuefna og þeirra neikvæðu afleiðinga sem slíkum efnum fylgja. Í þessu sambandi er áfengi og tóbak ekki undanskilið.

Ég vil taka undir þessar skoðanir nefndar um eflingu íþróttastarfs og vek sérstaka athygli á hve íþróttirnar eru tengdar nútímalífsstíl, heilbrigði og hollum lífsvenjum.

Herra forseti. Ég hef e.t.v. farið nokkuð út fyrir efni þessa frv. og leyft mér að minna á mikilvægi íþrótta í nútímaþjóðfélagi. Ég tel eins og ég sagði í upphafi máls míns að íþróttalög eigi að vera einföld og skýr eins og frv. gerir ráð fyrir, en jafnframt eigi ríki og sveitarfélög að styðja íþróttastarfið í landinu myndarlega. Ég er ekki í vafa um að því fé sem ríkið ver til þessara mála er vel varið og það stuðlar að heilbrigðara og hamingjusamara lífi ótal einstaklinga vítt og breitt um landið. Ég tek undir það sem hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni, að íþróttahreyfingin væntir mikils af samstarfi við Alþingi og ríkisstjórn. Þetta samstarf er að mínu áliti sem betur fer gott og hæstv. menntmrh. hefur sýnt þessum þýðingarmikla málaflokki mikinn áhuga og velvild.