Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 12:19:12 (3826)

1998-02-13 12:19:12# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[12:19]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil fagna því frv. sem er til umræðu í dag. Ljóst er að lengi hefur staðið til að endurskoða löggjöf um þennan mikilvæga málaflokk og það er afar brýnt að málið fái framgang og því ber að fagna að hæstv. menntmrh. hefur látið til sín taka á þessu sviði í ráðuneyti sínu sem og á öðrum sviðum. Skipulegt íþróttastarf er hluti af skipulegri menningarstarfsemi í landinu og skipulegt íþróttastarf treystir almennt stoðir uppeldis- og menntamála.

Ég tek undir það sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson gat um áðan í góðri ræðu sinni að 13. gr. frv. er afar mikilvæg. Hún styrkir lagagrundvöllinn undir því sem hefur þegar verið gert á þessu sviði og á eflaust eftir að gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki í framtíðinni. Það var skynsamlegt þegar verkaskipting var ákveðin milli ríkis og sveitarfélaga fyrir nokkrum árum að láta íþróttamálin í hendur sveitarfélaganna á hverjum stað en á sama hátt var mjög nauðsynlegt að stíga viðbótarskref og skilgreina hvernig væri hægt að ýta undir íþróttastarfsemi sem væri miðuð við landið allt. Þetta er afar mikilvægt skref. Fyrrverandi menntmrh. steig ákveðin skref í þessa átt og núverandi menntmrh. hefur sýnt þessu áhuga og skilning sem staðfestist í frv.

Við þurfum að ýta undir aðstöðu og kynningarstarfsemi sem miðast við íþróttir og íþróttagreinar og þjónustu sem beinist að öllu landinu þar sem aðstæður eru fyrir hendi og þar sem þær koma að gagni fyrir þjóðina í heild. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að hér á landi búum við við veðurfarslegar aðstæður sem hafa skapað ákveðin vandamál með þjóðinni. Ekki er hægt að neita því að veturinn þykir hér langur og strangur. Vetrartíminn, sem við köllum því lýsandi orði skammdegi, leggst þungt á margt fólk og dregur úr útivist og íþróttaiðkun í mesta skammdeginu. Langur vetur er því hluti af lífsskilyrðum þjóðarinnar og við þurfum eftir því sem við getum að ýta undir að þjóðin líti á langan vetur sem vettvang útivistar og heilbrigðra lífshátta ekki síður en sumarið. Það er því liður í því að sætta þjóðina við landið og veðurfarið að efla íþróttir og útivist sem mest við getum.

Að vísu eru mjög breyttir tíma frá því sem áður var þegar vetrarhörkur þýddu felli og það var ekki að ástæðulausu sem þjóðin gaf hörðum vetrum alveg sérstök nöfn, eins og Fellir og Píningur. Það var eiginlega meitlað inn í þjóðarsálina að veturinn var hættulegur tími eins og hafið var hættulegt svæði. Við bjuggum við hættulegar aðstæður á Íslandi og það hefur grópast sterkt inn í þjóðarsálina en við eigum og getum nú við þær tæknilegu aðstæður sem við búum við, lifað hér mjög góðu lífi, svo góðu lífi að hér geta lífskjör verið með því allra besta sem gerist í heiminum, og eru það raunar nú þegar. Það er því full ástæða til þess að nota öll tækifæri til þess að sætta þjóðina enn betur en nú er við landið og veðurfarið. Ekki er ástæða til að fara niðrandi orðum um þetta land eins og stundum heyrist, því miður. Þegar talað er um klakann og skerið þá er það gert vegna þess að landið er borið saman við sólríkari strendur en það er þá gert á þann hátt að þar er verið að vanmeta þá möguleika sem við Íslendingar búum við til að lifa hollu og góðu líferni því að hér eru sérstaklega góðar aðstæður til að njóta útivistar og íþrótta.

Þetta vildi ég nefna sérstaklega vegna þess að mér finnst að í þessu frv., þá ekki síst í 13. gr., sé opnað á að ríkið taki þátt í því að efla verulega íþróttir og ég held að það sé mikið mennta- og menningarmál.

Ég vil undirstrika það sem komið hefur fram í máli margra ræðumanna, ekki síst hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni, að íþróttahreyfing landsins stendur undir afar mikilvægu uppeldisstarfi. Fórnfýsi þeirra sem starfa launalaust í þessari hreyfingu, standa á bak við íþróttahreyfinguna, er afar mikils virði og þetta starf er ómetanlegt framlag til menningarmála, til forvarnamála og þar með jafnframt til heilbrigðismála.

Það er rétt, þótt við séum að fara út fyrir efni frv. í sjálfu sér, að velta því fyrir sér hvers vegna íþróttir vekja svona mikinn áhuga hjá fólki. Hver er ástæðan fyrir því? Íþróttaáhugi stendur afar djúpum rótum í mannlegu eðli og þótt íþróttirnar þjóni ólíkum tilgangi nú, borið saman við fortíðina, hefur mikilvægi þeirra ekkert minnkað. Skipulögð líkamsþjálfun var öldum og árþúsundum saman hluti af undirbúningi undir lífsbaráttuna í breiðustu merkingu þess orðs. Þessi þáttur hefur að sjálfsögðu vikið eftir því sem tækniframfarir hafa gert lífsbaráttuna auðveldari og líkamlegt atgervi hefur skipt minna máli fyrir afkomu fólks. En eftir því sem tæknin hefur ýtt undir kyrrsetu og dregið úr útvist og hreyfingu verður einmitt starfsemi íþróttafélaganna og starfsemi sveitarfélaga og ríkis á sviði íþrótta mikilvægari þáttur í menningu og heilbrigðum lífsháttum. Mannslíkaminn, en líka mannsandinn, er gegnum árþúsundin mótaður af aðstæðum sem hafa krafist líkamlegs atgervis og þótt þessar aðstæður hafi breyst hefur maðurinn í raun jafnmikla eðlisþörf fyrir hreyfingu og líkamlegt atgervi nú eins og áður og þeirri þörf þarf að sinna.

Ég vil geta þess í lokin að ég tel að þetta frv. sé gott frv., það er einfalt, það er tekið á því sem máli skiptir og ég mun reyna eftir því sem ég get að greiða götu þess sem fyrst í gegnum þingið.