Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 12:30:23 (3828)

1998-02-13 12:30:23# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[12:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka ágætar umræður um þetta mikilvæga mál, málefnalegar umræður og þau sjónarmið sem fram hafa komið. Sérstaklega vakti athygli mína ræða hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, sem er jafnframt formaður íþróttanefndar ríkisins og var 1. flm. þáltill. sem samþykkt var á síðasta þingi um eflingu íþróttastarfs. Það var mikilvægt að heyra sjónarmið hans til þessara mála vegna starfa hans á vegum íþróttahreyfingarinnar eða í tengslum við hana og á vegum íþróttanefndar ríkisins sem fær aukið hlutverk með þessu frv. Eins og ég hef skilið umræðurnar eru allar líkur til þess að frv. verði samþykkt á hinu háa Alþingi og ekki séu deilur um meginefni þess þótt auðvitað kunni menn að vilja líta á orðalag í einstökum greinum.

Eins og ég gat um er í 2. gr. gert ráð fyrir því að það geti orðið samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu þar sem tekið er mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf. Ég vek einnig athygli á því almenna ákvæði sem er í 3. gr. frv. um hlutverk menntmrn. og skyldu þess, eins og greinin er orðuð, til að afla upplýsinga um iðkun íþrótta í landinu og aðstöðu til íþróttastarfs og stuðla að rannsóknum á sviði íþróttamála. Í ljós hefur komið m.a. í því nefndarstarfi sem hefur verið unnið að þessi þáttur er ekki síst mikilvægur. Að aflað sé upplýsinga, það liggi fyrir upplýsingar eins og t.d. umræðurnar um stöðu kvenna í íþróttum benda til, að menn telja mjög mikilsvert að þær upplýsingar liggja nú fyrir og geta þess vegna betur gripið á þeim viðfangsefnum sem skýrslan um það mál leiðir í ljós.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt um hið glæsilega íþróttaafrek Völu Flosadóttur, fyrsta heimsmeistara okkar í frjálsum íþróttum, og tel ég æskilegt og vona að hún komi fljótlega til landsins og þá fái menn tækifæri til þess að hylla hana eins og ber við slíkan afreksmann í íþróttum eins og Vala er. Fleiri afreksmenn eigum við að sjálfsögðu í íþróttum en hún hefur náð lengst af Íslendingum í frjálsum íþróttum og er vert að halda nafni hennar á lofti og hylla hana með þeim hætti sem okkur er fært. Eins og ég segi þá vona ég að hún komi bráðlega til landsins og við getum sýnt henni þann sóma sem henni ber hér á landi.

Sérstaklega var vikið að því að í líkamsræktarstöðvum væru ekki fagmenn. Ég vil láta þess getið við hv. þingmenn að það kom til álita og hefur legið fyrir í drögum að frv. til íþróttalaga að þar yrði tekið sérstaklega á málefnum líkamsræktarstöðva og heilsuræktarstöðva. Hins vegar valdi ég þann kost í frv. að fara ekki inn á það svið. En ef menn lesa t.d. skýrslu nefndarinnar um eflingu íþróttastarfs og umfjöllun hennar um þetta frv. þá kemur það sjónarmið þar fram að nauðsynlegt sé að huga að því hvort eigi að setja sérstakar reglur eða lög um líkamsræktarstöðvar og heilsuræktarstöðvar. Mér finnst það alveg sérgreint viðfangsefni og eigi ekki að fara inn í almennan lagabálk um íþróttamálefni. Ég árétta þessa skoðun mína hér því að þetta málefni hefur oft komið til umræðu þegar fjallað er um íþróttalög, hvort eigi að gera lágmarkskröfur varðandi líkamsræktarstöðvar og heilsuræktarstöðvar. Ég tel að það sé sérstakt úrlausnarefni ef menn vilja setja slík ákvæði í lög og eigi ekki heima í almennum íþróttalögum.

Spurt var hvort breyting væri á greiðslum jöfnunarsjóðs til íþróttamannvirkja með þessu frv., það er ekki. Ekki er vikið að því máli enda fellur það ekki undir íþróttalögin, þar er um aðra lagabálka að ræða þegar litið er til þeirra þátta.

Herra forseti. Í lokin þakka ég hv. þingmönnum fyrir málefnalegt framlag til umræðunnar. Það er ljóst að á Alþingi eru sterkir málsvarar fyrir íþróttahreyfinguna og ég vænti þess að sá áhugi sem fram hefur komið í umræðunum skili sér í greiðri afgreiðslu hv. menntmn. á frv. Ég fagna sérstaklega þeim ummælum formanns nefndarinnar að í nefndinni verði einnig fjallað um skýrsluna um stöðu kvenna í íþróttum og eflingu íþróttastarfs.