Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 13:53:01 (3832)

1998-02-13 13:53:01# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[13:53]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er flutt frv. sem vekur margar spurningar og ég efa ekki að tilgangurinn með flutningnum sé góður. Það má segja sem svo að félagafrelsi er eitt af þeim grundvallaratriðum sem lýðræðið byggir á. Og lýðræðið er þeim mun lengra þróað sem minna er af skráðum reglum og meira af óskráðum leikreglum sem menn virða. Þannig má t.d. segja að Englendingar hafi komist upp með það og geta búið við það að hafa enga stjórnarskrá og farnast nokkuð vel en Weimar-lýðveldið þýska hafði trúlega þá fullkomnustu stjórnarskrá sem nokkurn tíma hefur verið útbúin í þessum heimi. Og þar fór nú allt sem fór.

Ég minnist þess að menn hafa rætt mikið um fjárreiður stjórnmálaflokka og hvernig þeir fái peninga sína. Auðvitað er það svo að stjórnmálaflokkarnir fá peninga frá einhverjum. Þeir fá peninga frá innlendum aðilum og undir einum kringumstæðum var það sannað á Alþingi að þeir fengu peninga erlendis frá. Það var Alþýðuflokkurinn sem átti hlut að máli, það var Benedikt Gröndal sem upplýsti að þeir hefðu fengið peninga frá Noregi. Jafnframt var gefin yfirlýsing um að gefin yrði nánari skýring á því en sú skýring kom aldrei. Við vissum það þá að CIA hafði undir höndum þó nokkuð fjármagn sem þeir dreifðu til Alþjóðasambands jafnaðarmanna sem var svo dreift út um allan heim og við því fékkst aldrei svar hvort að þessir peningar væru norskir peningar eða hvort að þeir væru komnir inn í flokkssjóði Norðmanna með þessum hætti og hefðu komið til landsins frá því landi sem þá var tvímælalaust talið að væri einna best til að þvo peninga til að koma þeim heim til Íslands sakir vinfengis Íslendinga og Norðmanna.

Nú er ég ekki að segja þetta til að halda því fram að Alþfl. sé eini flokkurinn sem hafi fengið erlent fé. Ég hef engin gögn í höndum til fullyrða slíka hluti. Oft verið sagt að systurflokkar jafnaðarmanna í Evrópu hafi litið á það sem hlutverk hjá sér að stunda visst trúboð fyrir jafnaðarmannastefnuna í heiminum og vafalaust gengið gott eitt til. Hins vegar sækir mjög að mér hvort ekki þurfi að vera jafnræði gagnvart félagafrelsi. Ef stjórnmálaflokkar eiga að vera skattskyldir hvers vegna ekki trúfélögin? Hvers vegna eiga trúfélögin ekki að vera skattskyld? Hvers vegna á að halda þá þeirri glufu opinni? Og hvað með önnur félög? (JóhS: Gripið fram í.) Framtalsskylt, svo að þú þarft að skila þá öllum gögnum. En þurfa trúfélögin að skila öllum gögnum? Hvað með virðisaukaskatt o.fl.? Hvað með heimildir til að þiggja gjafir þar inn í? Og hvað með möguleika þar í gegn? Ég held að menn séu komnir út á mjög hálan ís. Og ég vil segja að ég sé ekki betur en að 4. gr. muni leggja niður starfsemi Kvennalistans.

,,Stjórnmálasamtök skulu gæta jafnræðis milli félagsmanna sinna í starfi sínu og skipulagi.``

Ef karlmenn eru í Kvennalistanum, stuðningsmenn hans og félagar, eins og ég veit ekki betur en að sé, væri skylda samkvæmt þessu að hafa þá einnig á framboðslistum. Þetta verður ekki skilið á annan veg. Jafnræði er ekki jafnræði ef sumir eiga að vera þar algjörir þjónar og aðrir eigi aftur á móti að vera herrarnir sem hafi allt í hendi sér.

Ég vil líka bæta því við að þegar menn setja upp svona kerfi hlýtur maður að spyrja: Hverjir verða eftirlitsaðilar með hverjum? Eftirlitsaðilarnir verða alltaf hinir ríkjandi stjórnmálaflokkar. Hinir sterku verða þeir sem líta eftir hinum veiku. Í þessu tilfelli hefðu fyrst og fremst verið tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi í gegnum tíðina sem hefðu verið eftirlitsaðilar á hina stjórnmálaflokkana, þ.e. Sjálfstfl. og Framsfl. Að vísu eru þess dæmi að aðrir hafi farið með dómsmál hér á landi en það hefur verið í mjög skamman tíma. Þá spyr maður sjálfan sig: Er það til að styrkja lýðræðið í landinu að stjórnarandstaðan búi við að eftirlitsaðilarnir yfir starfsemi þeirra séu hin ríkjandi stjórnmálaöfl í landinu? Hefði verkalýðshreyfingin átt gott með það þegar hún studdi Alþfl. á sínum tíma og harkan var hvað mest í íslenskum stjórnmálum? Hefði það auðveldað henni baráttuna að þurfa að ganga með reikninga sína á fund ríkjandi stjórnmálaafla og leggja fram hverjir væru aðalstyrktaraðilar samtakanna? Þetta eru spurningar sem hljóta að vakna.

[14:00]

Ég játa að ég veit að það getur farið út í öfgar hversu miklu er eytt í auglýsingar. Það getur líka farið út í öfgar hversu mikið fé stjórnmálaflokkar hafa til ráðstöfunar. Svo er nú skaparanum fyrir að þakka að Íslendingar hafa haft þá dómgreind til að bera að fjármagnsstyrkur hefur ekki alltaf ráðið úrslitum í kosningum. Seinustu forsetakosningar eru dæmi um þetta. Þar réð fjármagn ekki úrslitum. Ég hygg að segja megi svo um allar forsetakosningar á Íslandi. Íslenska þjóðin hefur séð í gegnum óhófið og haft það aðhald með sínum óskráðu siðareglum að veruleg farsæld hefur ríkt í þeim efnum.

Mér finnst það veikleiki í starfi löggjafarþings Íslendinga, þannig er það á Norðurlöndum og víðast í Evrópu, þegar alltaf er gengið út frá stjórnmálaflokkunum sem grunneiningunni. Aðeins einu sinni er gengið út frá þingmönnum sem grunneiningu. Það er þegar hlutað er út sætum í þinginu. Þá eru þingmenn allir jafnir, ganga hér upp og ná sér í kúlu, þar sem skráð er hvaða sæti þeir hafa. Þeir einu sem nutu þó ekki jafnréttis hvað þetta snertir voru ritararnir því þeim var alltaf úthlutað vissum sætum.

Við þurfum að fara til Bandaríkjanna til að sjá að litið sé á þingmennina sem grunneininguna. Stuðningurinn við stjórnmálaöfl þar í landi er stuðningur við viðkomandi þingmenn. Þeir fá jafna upphæð hver og einn til þess að vinna að framgangi sinna mála. Annars vegar fá þeir upphæð til að nota í sínum kjördæmum og hins vegar upphæð til að sinna bæði málum í Washington. Þetta kerfi er mjög merkilegt hvað það snertir að það byggir á algjöru jafnræði milli þingmanna. Ég er þeirrar skoðunar að þetta kerfi sé bæði betra og réttlátara en það kerfi sem við höfum.

Okkar kerfi byggir á því að flokksræðið ræður skiptingu fjármagnsins eftir að það er komið til forustumanna flokkanna og þar með borin von um að jafnræði ríki í skiptingunni eftir það. Segja má að þeir ráði ríkjum hverju sinni hafi mest að segja um notkun peningana. Hitt kerfið mundi t.d. eyða öllum misskilningi um það hvernig skipta ætti fjármunum, eftir að þeir eru komnir til þingsins.

7. gr. vekur sérstaka athygli mína.

,,Stjórnmálasamtök skulu setja reglur um störf kjörinna fulltrúa sinna og birta þær opinberlega.``

Eitt af því sem alltaf hefur verið mikið átakamál er svarið við spurningunni: Er þingmaður fulltrúi þeirra sem kusu hann eða stjórnmálaaflanna sem hann bauð sig fram fyrir? Þetta er stór siðferðileg spurning.

Það verður að segja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til hróss að hún hefur staðið föst á að vera fulltrúi þess stjórnmálaafls sem hún var kosin fyrir á sama tíma og hennar félagar hafa valið þann kost að söðla yfir. Á seinasta kjörtímabili gerðist hins vegar það að hún yfirgaf hópinn á miðju tímabili. Þarna komum við að stóru álitamáli sem stjórnarskráin hefur tekið harða afstöðu til. Stjórnarskráin segir einfaldlega að þingmaðurinn sé ekki bundinn af neinu nema sannfæringu sinni. Þeir sem setið hafa í sveitarstjórnum hafa litið svo á að eftir að þeir séu kosnir séu þeir aðeins bundnir af sannfæringu sinni.

Ef þetta frv. yrði gert að lögum mætti segja að samkvæmt lögum gætu stjórnmálasamtök sett þá reglu að ef einhver því lýsti yfir að hann hygðist yfirgefa þá fylkingu sem hann áður studdi þá bæri honum að segja af sér öllum trúnaðarstörfum sem hann hefði fengið í gegnum kosningar. Ég veit ekki hvers vegna á að setja þetta hér inn en reglur eru reglur. Mestu snillingarnir í að semja reglur áður fyrr voru farísearnir. Þeir höfðu útbúið svo mikið af reglum að þær voru farnar að standa þeim fyrir þrifum. En auðvitað settu þeir reglu ofan á reglu. Í dag er það Evrópusambandið með sitt skrifræði sem er að ná þeim árangri að enginn maður veit lengur hvaða lög eða reglur eru í gildi.

Með þeim vangaveltum sem ég set hér fram er ég fyrst og fremst að velta upp ýmsum möguleikum um það hvernig þetta verkar og gæti verkað. Hér stendur í 6. gr.:

,,Æðsta vald í málefnum stjórnmálasamtaka skal vera í höndum félagsmanna eða fulltrúa þeirra á landsfundi eða öðrum sambærilegum vettvangi.``

Í þeim stjórnmálaflokki sem ég hef aðhyllst hefur landsfundur vissulega haft mikið að segja en uppröðun á lista hefur t.d. alfarið og ávallt verið í höndum hvers kjördæmasambands fyrir sig. Það yrði heldur betur hvellur ef mönnum dytti í hug að hafa þá miðstýringu að þessu væri stjórnað frá einum stað, frá landsfundi. Það eru því margar hliðar á þessu máli.

Hér kemur að 8. gr. Það er gamalt deiluefni, hvort stjórnmálasamtökum eigi að vera heimilt að skrá niður upplýsingar á kjörstað. Það ákvæði, að hafa trúnaðarmenn á kjörstað, var upprunalega hugsað af þeirri lýðræðislegu ástæðu að minnihlutaöflin í þjóðfélaginu gætu fylgst með því að hin ríkjandi öfl færu að lögum á kjörstað. Flestir vita trúlega að nokkrum sinnum hefur það komið fyrir í Reykjavík að maður hafi komið á kjörstað, ætlað að kjósa en verið tjáð að búið væri að kjósa fyrir hann.

Eins vita allir var kosningasvindl vestur á fjörðum. Þar höfðu sjómenn kosið utan kjörstaðar en urðu að koma í land vegna vélabilunar. Þeim bar þá að kjósa á kjörstað og vildu fá þessi utankjörstaðaratkvæði sín til baka. Þá kom í ljós að bókstafurinn sem þeir hugðu þar var ekki sá sami og þeir höfðu sett.

Eftirlit með valdaöflum samfélagsins á kjörstað er þess vegna réttur minni hlutans til að koma í veg fyrir að meiri hlutinn sem skipar starfsmennina, fái framgengt vilja sínum til þess að stunda kosningasvindl. Allir vita að menn hafa verið sendir frá Sameinuðu þjóðunum til að fylgjast með á kjörstað. Eitt af því sem menn hafa gjarnan viljað kanna er það hverjir kjósa. Það má vel vera að of langt hafi verið gengið. Í sumum tilfellum hefur það þó orðið til þess að menn hafi ekki fengið að kjósa á tveimur stöðum þó þeir hafi ætlað sér að gera það.

2. gr. er mjög afgerandi: ,,Við skráningu stjórnmálasamtaka hjá dómsmálaráðuneyti skal leggja fram lög samtakanna og stefnuskrá. Stjórnmálasamtök skulu birta opinberlega lög sín, stefnuskrár og stefnumarkandi samþykktir.``

Ég hélt að allir stjórnmálaflokkar stefndu að því að birta sínar stefnuskrár og stefnumarkandi samþykktir. Ég hélt að þeir reyndu að útbúa samþykktirnar á þann veg að það yrði til að auka þeim kjörfylgi og bæta stöðu þeirra. En þarna er það sett upp að hugsanlega sé eitthvað í stefnuskrá og stefnumarkandi samþykktum sem sé ekki birt, heldur geymt á bak við, og hugsanlega notað ef menn fái völdin.

Jafnvel Hitler skrifaði heila bók til að gera grein fyrir stefnu sinni. Menn trúðu bara illa að honum væri alvara með skrifum sínum. En þar kom fram hvað hann ætlaði að gera í öllum aðalatriðum og þurfti ekki að kalla eftir því. Þarna kemur aftur á móti spurningin: Hvað ef stjórnmálasamtök fara svo ekki eftir stefnu sinni? Ef stjórnmálasamtök hafa skráð eina stefnu hjá dómsmrn. en fara svo ekki eftir stefnunni, er það þá orðið refsivert athæfi? Hvernig ber að skilja það? Hvernig á að taka á slíku? Varla eru settar reglur með það fyrir augum að allt í lagi sé að brjóta þær. Allt til þessa höfum við haft það þannig að ef stjórnmálasamtök standa ekki við stefnuskrá sína og aðrir telja sér feng í því, þá hefur sú orrusta staðið innan Alþingis Íslendinga, á ritvellinum og fjölmiðlum þar sem þeim hefur verið borið á brýn að þeir hafi svikið stefnuskrá sína. Allt í einu er þetta komið inn í dómsmrn. til eftirlits og aðhalds.

Ég ætla að halda áfram að fara yfir þetta. 9. gr. fjallar um að þeim beri að skila skattframtali. Þegar ég las þetta hélt ég í einfeldni minni að þeir einir skiluðu skattframtali sem væru skattskyldir. Ég hef aldrei heyrt að menn væru látnir skila skattframtali nema þeir ættu að borga skatta. Ég hef ekki farið yfir lögin um tekjuskatt og eignarskatt til að átta mig á því hvort gert sé ráð fyrir þeim möguleika ef einhver skilar skattframtali með stórum hagnaði, t.d. stjórnmálaflokkur, þá finnst mér ólíklegt annað en að krafa yrði gerð um að hann greiddi skatt.

Orð mín má enginn skilja svo að ég sjái ekki eitt og annað jákvætt við að setja reglur. En ég endurtek að reglurnar eru fyrst og fremst ætlaðar hinum stóru til að líta eftir þeim smáu.